102:Þessi frétt er runnin út og mun ekki birtast!
Prenta síðu

Málstofa á vegum Rannsóknastofnunar í hjúkrunarfræði//

Innleiðing kjörhjúkrunar:Hver eru áhrifin á hjúkrunina  frá sjónarhorni hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða?

Fyrirlesturinn flytur Dóróthea Bergs, MSc hjúkrunarfræðingur á taugaendurhæfingardeild LSH og lektor við hjúkrunarfræðideild HÍ

 

Rannsóknin fjallar um breytingar á hjúkrunarformi, þ.e. innleiðingu kjörhjúkrunar (Nursing case management) á legudeild á sjúkrahúsi. Lýst er hvernig breytingunum var stjórnað frá því framtíðarsýnin var mótuð og þar til settar voru fram hugmyndir að áframhaldandi vinnu.Vinnan við breytingarnar var sett upp sem þátttökurannsóknar-ferli (action research) sem hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar á deildinni voru þátttakendur í.

 

Söfnun rannsóknargagna á deildinni fólst í viðtölum við starfsfólk og dagbókar-skrifum rannsakenda, sem voru Dorothea Bergs og Hólmfríður Kristjánsdóttir. Rýnihópur fimm hjúkrunarfræðinga og þriggja sjúkraliða var stofnaður þegar innleiðing breytinga var vel á veg komin og voru tekin fjögur viðtöl við hópinn, sem voru vélrituð beint upp. Innihaldsgreining gæðabundinna rannsóknaraðferða var notuð til að túlka viðtöl og dagbókarskrif.

 

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar telja sig styrkjast í starfi við innleiðingu kjörhjúkrunar, aukin samfella verði í hjúkruninni og hjúkrunarskráningin verði nákvæmari. Þátttakendur töldu að þeir yrðu öruggari í að leiðbeina nemum og hjúkrunarfræðingarnir minntust sérstaklega á að breytingin auðveldaði samskipti við aðrar starfstéttir. Á hinn bóginn fannst þeim að hlutverk sitt í kjörhjúkrun væri enn nokkuð óskýrt og komu með þær athugasemdir að erfitt væri að kynna sig sem ábyrgan hjúkrunarfræðing eða sjúkraliða fyrir skjólstæðingum.

 

 


Til baka