102:Þessi frétt er runnin út og mun ekki birtast!
Prenta síðu

Heilsugæslunni í Reykjavík stefnt vegna umbunar til hluta hjúkrunarfræðinga við Miðstöð heimahjúkrunar í Reykjavík//

Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) ákvað á fundi sínum þann 5. júlí sl. að stefna forstjóra Heilsugæslunnar í Reykjavík (HR) fyrir Félagsdóm vegna umbunar hluta hjúkrunarfræðinga er starfa við Miðstöð Heimahjúkrunar í Reykjavík.  Í bréfi dags. 3. júní 2004 sem undirritað er af forstjóra HR kemur fram að meðfylgjandi bréfinu sé „þakklætisvottur fyrir þá trúmennsku og ósérhlífni sem þú sýndir í þeim erfiðleikum sem steðjuðu að Miðstöð Heimahjúkrunar í mars sl. þegar stór hluti starfsmanna sagði upp störfum“.  Umræddur þakklætisvottur er gjafakort í Heilsulind fyrir konur að verðmæti um 17 þúsund króna.

Þær uppsagnir sem forstjóri getur um í bréfi sínu voru til komnar vegna þess að hluti hjúkrunarfræðinganna nýtti sér rétt sinn skv. 19. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 að segja upp starfi sínu í kjölfar þess að aksturssamningum við þá hafði verið sagt upp.  Þeir hjúkrunarfræðingar sem nýttu sér þennan rétt fengu ekki þá umbun sem hér um ræðir.

 

Stefna Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga byggir á 4. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938.  Það ákvæði leggur bann við því að atvinnurekendur reyni  “að hafa áhrif á […] afstöðu [“verkamanna sinna”] og afskipti af […] vinnudeilum með

  1. […]
  2. Fjárgreiðslum, loforðum um hagnað eða neitunum á réttmætum greiðslum.”

Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga ber ekki brigður á rétt stjórnenda heilbrigðisstofnana til að umbuna hjúkrunarfræðingum fyrir vel unnin störf en í slíku verður að virða jafnræðisreglu.  Stjórnin telur hins vegar að með umræddum „þakklætisvotti“ hafi forstjóri Heilsugæslunnar í Reykjavík, ekki aðeins brotið jafnræðisregluna heldur einnig haft afskipti af deilu um kaup og kjör með ígildi fjárgreiðslna.  Þó afskiptin hafi ekki komið til fyrr en eftir að deiluaðilar náðu samkomulagi, telur stjórn Fíh það engu að síður brot á 4. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938. 

 


Til baka