102:Þessi frétt er runnin út og mun ekki birtast!
Prenta síðu

Fundur stjórnar og samninganefndar Fíh samþykkti að veita viðræðunefnd BHM svigrúm//

Eins og fram kom hér á fréttavefnum þann 17. desember ákvað stjórn og samninganefnd Fíh að fresta viðræðum félagsins við Samninganefnd ríkisins (SNR) fram til jóla og gefa þannig sameiginlegri viðræðunefnd BHM félaganna svigrúm til að ræða sameiginleg mál aðildarfélaganna við SNR.  Þær viðræður þróuðust út í að skoða möguleika þess að þróa eina sameiginlega launatöflu fyrir öll BHM félögin og mögulega einnig að gera einn stofnanasamning fyrir BHM félögin á hverri stofnun.

Á sameiginlegum fundi stjórnar og samninganefndar Fíh sl. þriðjudag var samþykkt að veita viðræðunefnd BHM enn svigrúm allt til 28. febrúar 2005 til að þróa áfram þessa vinnu.  Þeim tilmælum var jafnframt beint til viðræðunefndarinnar að janúarmánuður yrði notaður til að þróa nýja sameiginlega launatöflu þ.a. um mánaðarmótin jan/feb yrði ljóst hvernig hjúkrunarfræðingar myndu raðast inn í hina nýju launatöflu.  Sérviðræðum Fíh við SNR er því frestað enn um sinn.  Rétt er að ítreka að í átta manna viðræðunefnd BHM sitja tveir fulltrúar Fíh, Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður og Helga Birna Ingimundardóttir, hagfræðingur.

Af 25 aðildarfélögum BHM hafa 23 félög, auk Fíh, samþykkt sambærilega heimild til viðræðunefndar BHM.  Aðeins Félag íslenskra náttúrufræðinga vildi ekki eiga aðild að þessari vinnu á þeim forsendum sem fyrir liggja.  Næsti fundur BHM með SNR verður mánudaginn 10. janúar.

Stjórn og samninganefnd Fíh telur veruleg sóknarfæri felast í þessari sameiginlegu vinnu BHM félaganna.  Sérstaklega er stefnt að því að auka vægi grunnlauna í heildarlaunum, hækka laun þeirra hópa sem lægstir eru, að hluti upphafshækkana nýs samnings gildi frá lokadegi síðasta samnings, að stofnanasamningar verði styrktir, að eyða launamun kynjanna, að háskólamenn fái sérstakan árangur í starfi metinn til launa, auk annarra þátta.

Samninganefnd Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga mun boða hjúkrunarfræðinga til kynningarfunda um stefnu og gang viðræðna svo fljótt sem ástæða þykir til.  Einnig verða fréttapunktar settir reglulega á vefsvæði félagsins.

 


Til baka