102:Þessi frétt er runnin út og mun ekki birtast!
Prenta síðu

25-40 sjúklingar á LSH verða fyrir skaða í hverjum mánuði //

25-40 sjúklingar á LSH verða fyrir skaða í hverjum mánuði

Samkvæmt skráningu í rafrænu atvikaskráningakerfi Landspítala-háskólasjúkrahúss síðustu sex mánuði urðu 100-140 einstaklingar fyrir svokölluðu atviki mánaðarlega. Í yfir 70% tilvika höfðu þessi atvik engar afleiðingar í för með sér. Segir LSH að samkvæmt þessu megi segja að um 25-40 sjúklingar verði fyrir einhvers konar skaða í hverjum mánuði en oftast sé um fall að ræða, eða í um 30% tilfella, og afleiðingarnar minni háttar.

Þetta kemur m.a. fram í skriflegu svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Ástu Möller, alþingismanns. Segir þar, að samkvæmt mati starfsmanna deildarinnar og yfirmanna í hjúkrun endurspegli skráningin nú engan veginn fjölda atvika og ef litið sé til rannsókna sem gerðar hafi verið erlendis megi gera ráð fyrir að skráð atvik séu um 10% af raunverulegum atvikum sem áttu sér stað á tímabilinu.

Í svarinu segir, að skráning atvika á Landspítala háskólasjúkrahúsi aukist og sé starfsfólk betur meðvitað um nauðsyn skráningar en áður.

Vanskráning atvika alþjóðlegt vandamál
Fram kemur í svarinu að samkvæmt þessu sé ekki hægt að bera saman tengsl mönnunar innan hjúkrunar við atvikaskráningu á LSH, en þótt fjöldi atvika hafi ekki verið rannsakaður nákvæmlega hér á landi hafi ekkert sérstakt komið fram sem bendi til að atvikatíðni sé minni á Íslandi en í öðrum löndum. Vanskráning atvika sé alþjóðlegt vandamál á heilbrigðisstofnunum en samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) sé tilgangur með slíkri skráningu sá að gera atvik sýnileg, skoða ferli þeirra í þeim tilgangi að læra af þeim og gera nauðsynlegar umbætur. Slík vinna fer nú þegar fram á Landspítala–háskólasjúkrahúsi, m.a. í formi gæðavísa, vinnureglna o.fl.

Ógnvekjandi tölur
Þá segir í svari ráðherra, að tölur frá útlöndum séu ógnvekjandi. Í skýrslunni To Err is Human: Building a Safer Health Care System, sem kom út 1999, hafi Læknastofnun Bandaríkjanna áætlað að u.þ.b. 44.000– 98.000 sjúklingar þar í landi létu lífið vegna mistaka í meðferð. Um miðbik árs 2004 hafi síðan komið fram niðurstöður úr rannsókn sem sýndu að þessar tölur gætu verið mjög vanmetnar en þar kom fram að u.þ.b. 195.000 sjúklingar hafi látið lífið árlega 2000– 2002 vegna atvika sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir.

Þá er áætlað að atvik verði hjá 10. hverjum sjúklingi á sjúkrahúsum í Evrópu en þau hafa ekki nærri öll alvarlegar afleiðingar. Einnig sýni varðandi atvik í ýmsum vestrænum löndum sýna að atvikatíðni sé áætluð um 3,2%–16,6%. Segir í svarinu að augljóslega sé því um að ræða mikinn fjölda og Ísland sé væntanlega ekkert öðruvísi.

Sjúklingum á hvern hjúkrunarfræðing fækkar
Fram kemur í svari ráðherra, að fjöldi hjúkrunarfræðinga og hæfni þeirra, reynsla, samskipti og samvinna hafi gífurleg áhrif á öryggi sjúklinga. Rannsóknir á orsökum atvika í Bandaríkjunum með ákveðinni aðferð sýni að í 24% atvika hafi skortur á hjúkrunarfræðingum átt hlut að máli, m.a. vegna þreytu og misskilnings í samskiptum.

Í svarinu kemur einnig fram, að yfirlit yfir fjölda sjúklinga á hvern hjúkrunarfræðing á Landspítala-háskólasjúkrahúsi sýni fækkun í meðalfjölda sjúklinga á hvern hjúkrunarfræðing á vakt á nær öllum sviðum spítalans frá árinu 2002 til 2004. Þetta sé í eðlilegu samhengi við vaxandi umfang hjúkrunar og styttri legutíma sjúklinga.


Til baka