102:Þessi frétt er runnin út og mun ekki birtast!
Prenta síðu

Hjúkrun á skurðstofum könnuð. Þórunn Kjartansdóttir hlýtur styrk úr Rannsóknarsjóði Klinidrape og EORNA//

Þórunn Kjartansdóttir hlýtur styrk úr Rannsóknarsjóði Klinidrape og EORNA

 

 

Þórunn Kjartansdóttir, skurðhjúkrunarfræðingur, hlaut nýverið styrk úr Rannsóknarsjóði Klinidrape og EORNA vegna verkefnis sem hún vann að við að undirbúa skráningu hjúkrunar á skurðstofu samkvæmt ákeðnu flokkunarkerfi, Nursing Intervention Cassifications (NIC), og viðurkennt er af landlæknisembættinu.

 

Kristján Einarsson, forstjóri Rekstrarvara, afhenti styrkinn við athöfn í fyrirtækinu að vidstöddum m.a. fulltrúum Evrópusamtaka skurðhjúkrunarfræðinga (EORNA). Rannsóknarstyrkurinn sem Þórunn hlýtur er kenndur við Klinidrape, sem er vörumerki fyrir margvíslegar skurðstofuvörur. Þær eru framleiddar af Mölnlycke Health Care. Rekstrarvörur eru umboðsaðili fyrir Mölnlycke Health Care á Íslandi.

 

Verkefni Þórunnar kemur síðan til álita við úthlutun verðlauna á næsta EORNA-þingi sem haldið verður í Dublin vorið 2006. Þess má geta að á síðasta EORNA-þingi sem haldið var á Krít vorið 2003 hlaut Erlín Óskarsdóttir, skurðhjúkrunarfræðingur, fyrstu verðlaun. Verðlaunin eru veitt þriðja hvert ár úr sjóði sem stofnaður var 1997 í Brussel á fyrstu Evrópuráðstefnu EORNA. Tilgangur sjóðsins er að stuðla að rannsóknum innan skurðhjúkrunar. Keppnin er í byrjun haldin í hverju aðildarlandi, en þau eru 23 innan EORNA. Fagdeild skurðhjúkrunarfræðinga (ISORNA) hefur verið aðili að EORNA frá árinu 2000.

 

Verkefni Þórunnar fjallar um könnun á hjúkrun á skurðstofum Landspítala Háskólasjúkrahúss samkvæmt flokkunarkerfi Nursing Interventions Classification, NIC, og er unnið í samvinnu við Arnfríði Gísladóttur og Örnu Sigríði Brynjólfsdóttur. Um er að ræða rannsókn á notkun hjúkrunarskráningar og hjúkrunarmeðferða meðal skurðhjúkrunarfræðinga þar sem notað er skráningarformið NIC. Daglega blasir við hversu mikilvæg skráning er hvort heldur er til að auka gæði þjónustunnar og/eða til að gera störf hjúkrunarfræðinga sýnilegri. Skráning hjúkrunar á skurðstofu byggist á því að sem flestar hjúkrunargreinar og meðferðir séu staðlaðar svo að sem minnstum tíma sé eytt í skráningu.

 

Það er von Þórunnar, Arnfríðar og Örnu að með þessari forvinnu sé hægt að auðvelda innleiðslu að þessari skráningu þar sem þær kynna hjúkrunarmeðferðir og kanna um leið hvaða undirbúning hjúkrunarfræðingar hafa fengið um flokkunarkerfið NIC.

Þórunn starfar sem skurðhjúkrunarfræðingur á LSH þar sem hún hefur verið frá árinu 1989.  Hún útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur árið 1982, sem skurðhjúkrunarfræðingur árið 1986 og lauk B.S. prófi í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands árið 1998.

 

 

Myndatexti við hópmyndina

Frá afhendingu styrks úr Rannsóknarsjóði Klinidrape og EORNA: Kristján Einarsson, forstjóri Rekstrarvara, Þórunn Kjartansdóttir styrkþegi ásamt samstarfsmönnum sínum, Örnu Sigríði Brynjólfsdóttur og Arnfríði Gísladóttur,  Þórhalla Eggertsdóttir og Kristín Gunnarsdóttir fulltrúar EORNA, Guðný Pála Einarsdóttir, sölumaður RV og Jóhanna Runólfsdóttir, sjúkraliði RV.


Til baka