102:Þessi frétt er runnin út og mun ekki birtast!
Prenta síðu

Skrifstofa Fíh lokar 14:08 þann 24. október Vegna baráttuhátíðar til að minnast kvennafrídagsins//

Baráttuhátíðin  sem haldinn verður þennan dag er til að minnast þess að þrjátíu ár eru liðin frá kvennafrídeginum 1975.

Heildarsamtök launþega hvetja fólk eindregið til þátttöku í dagskrá dagsins, bæði kröfugöngu, sem farin verður frá Skólavörðuholti að Ingólfstorgi, en mæting í hana er klukkan 15.00, og baráttufundi á Ingólfstorgi, sem hefst klukkan 16:00.

Heildarsamtök launafólks hafa sent frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu að þessu tilefni:

 

Sameiginleg fréttatilkynning frá heildarsamtökum launafólks ASÍ, BSRB, BHM, KÍ

Baráttuhátíð 24. október 2005

Baráttuhátíð verður haldin þann 24. október næstkomandi í tilefni af því að þá verða þrjátíu ár liðin frá kvennafrídeginum árið 1975. Þann dag fyrir þrjátíu árum lögðu þúsundir íslenskra kvenna niður vinnu til að draga fram mikilvægi vinnuframlags þeirra til efnahagslífs og samfélags. Talið er að um 25 þúsund konur hafi komið saman til baráttufundar þennan dag í miðborg Reykjavíkur. Dagurinn markaði þáttaskil í jafnréttisbaráttu íslenskra kvenna og vakti heimsathygli.

Margt hefur áunnist í jafnréttismálum kynjanna undanfarin þrjátíu ár en margt er líka ógert. Á þessum degi gefst mikilvægt tækifæri til að meta stöðuna og að leggja línurnar fyrir framhaldið. Markmið dagsins er það sama og fyrir 30 árum, að sýna fram á verðmæti vinnuframlags kvenna fyrir íslenskt efnahagslíf. Hvergi í heiminum er atvinnuþátttaka kvenna jafnmikil og hér á landi.

Heildarsamtök launafólks (ASÍ, BHM, BSRB, KÍ) og mörg kvennasamtök standa saman að undirbúningi og framkvæmd dagsins. Kröfuganga verður farin frá Skólavörðuholti að Ingólfstorgi og er mæting í hana klukkan 15.00. Yfirskrift göngunnar er “Konur höfum hátt”. Hugmyndin er sú að konur hafi verið hljóðar of lengi. Nú er kominn tími til að konur láti í sér heyra og krefjist jafnréttis núna! Eru allir hvattir til að taka með sér viðeigandi háreystibúnað, kröfuspjöld og fána til að kröfugangan verði litrík og áhrifamikil. Baráttufundur verður síðan á Ingólfstorgi klukkan 16:00 með stuttum hvatningaræðum og menningardagskrá.

Heildarsamtök launafólks hvetja félagsmenn til virkrar þátttöku í viðburðum dagsins í baráttunni fyrir efnahagslegu og félagslegu jafnrétti í íslensku samfélagi. Heildarsamtökin hvetja þá félagsmenn sem ekki geta tekið þátt í viðburðum dagsins í Reykjavík eða á öðrum þéttbýlisstöðum vegna fjarlægðar og samgangna að láta baráttumál dagsins til sín taka með táknrænum hætti.


Til baka