102:Þessi frétt er runnin út og mun ekki birtast!
Prenta síðu

Nemar í hjúkrunarfræði geta sótt um aðild að Fíh//

Ágæti hjúkrunarfræðinemi.

Á undanförnum tveimur fulltrúaþingum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur verið fjallað um mögulega aðild hjúkrunarfræðinema að félaginu.  Lögum félagsins hefur nú verið breytt á þann veg sem heimilar hjúkrunarfræðinemum að gerast aukaaðilar að félaginu.  Í 3. gr. laganna segir nú: „Rétt til aukaaðildar að félaginu eiga nemendur í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri, sem lokið hafa 1. námsári, á meðan á námi stendur að fenginni staðfestingu frá viðkomandi skóla á að námi sé framhaldið“.

Rökin fyrir þessari breytingu eru einkum að auka tengsl hjúkrunarfræðinga og nema, að efla félagsvitund hjúkrunarfræðinema innan sinnar fagstéttar og síðan að opna þann möguleika að félagið semji um kaup og kjör fyrir hjúkrunarfræðinema, sem aftur getur verið ávinningur fyrir alla félagsmenn.

Með þessu bréfi er ætlunin að kynna þér möguleikana á að gerast aukaaðili að Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og því allra helsta sem felst í slíkri aðild, bæði réttindi og skyldur aukaaðila.  Til frekari upplýsingar er bent á vefsvæði félagsins www.hjukrun.is

Samkvæmt lögum félagsins hafa félagsmenn með aukaaðild málfrelsi og tillögurétt á fundum í félaginu.  Allir félagsmenn hafa einnig rétt til setu á fundum og ráðstefnum sem félagið stendur fyrir.  Allir félagsmenn eiga rétt á ráðgjöf um málefni hjúkrunar og önnur fagleg málefni sem félagið vinnur að.
Þeir aukaaðilar sem þiggja laun samkvæmt kjarasamningi félagsins (ef félagið fær samningsrétt fyrir hjúkrunarfræðinema) eiga rétt á því að félagið gæti hagsmuna þeirra gagnvart vinnuveitanda og yfirvöldum að því leyti sem það samrýmist tilgangi félagsins.  Allir félagsmenn eiga rétt á fagtímariti félagsins, Tímariti hjúkrunarfræðinga, sem gefið er út 5 sinnum á ári.  Tímaritið er sent heim til allra félagsmanna þeim að kostnaðarlausu.

Öllum félagsmönnum ber að virða lög félagsins, fundarsköp, fundarsamþykktir og ákvarðanir stjórnar svo fremi samþykktirnar eða ákvarðanirnar brjóti ekki í bága við lög félagsins eða landslög.  Þá er félagsmönnum skylt að greiða það félagsgjald sem ákveðið hefur verið samkvæmt lögum félagsins.  Félagsgjald fyrir aukaaðila er nú kr. 2.500- á ári.

Skrifstofa Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga er opin alla virka daga kl. 9:00-17:00.  Þangað geta félagsmenn leitað með erindi og fyrirspurnir í síma 540-6400, í netfangið hjukrun@hjukrun.is eða komið á staðinn.  Starfsfólk félagsins leggur metnað sinn í að félagsmönnum líði vel í húsnæði félagsins.  Fundarsalir félagsins standa félagsmönnum til boða án endurgjalds fyrir fundi og aðra faglega starfsemi.  Þar sem aðsóknin er mikil er nauðsynlegt að panta salina með góðum fyrirvara.  Til félagsins berast mörg tímarit frá félögum hjúkrunarfræðinga erlendis.  Tímaritin eru ekki til útlána en hægt er að lesa þau á staðnum eða ljósrita úr þeim.

Samkvæmt lögum félagsins er tilgangur þess m.a. að vera málsvari hjúkrunar og hjúkrunarfræðinga.  Félagið gætir hagsmuna hjúkrunarfræðinga á tvennan hátt.  Annars vegar með því að vinna að framgangi hjúkrunar í stefnumótun og ákvarðanatöku í heilbrigðismálum og hins vegar með því að semja um og tryggja réttindi og kjör félagsmanna gagnvart vinnuveitendum og yfirvöldum.  Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur enn sem komið er ekki samningsumboð fyrir aukaaðila en verði aukaaðilar nógu margir stendur vilji stjórnar til þess að félagið taki það verkefni að sér.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur um árabil verið aðili að Alþjóðasambandi hjúkrunarfræðinga (ICN), Samvinnu hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndum (SSN), Fastanefnd ESB um hjúkrunarmál (PCN) og í Evrópusamstarfi um hjúkrunarrannsóknir (WENR).  Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga styrkir einn fulltrúa hjúkrunarnema héðan á fundi NNSK (Nordiske sykepleierstudenters kontaktforum) sem haldnir eru tvisvar á ári og kostar SSN annan stúdent frá hverju Norðurlandanna á fundina.

Eins og að framan greinir er þessu bréfi ætlað að kynna allra helstu þættina í starfi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, þau réttindi og þær skyldur sem fylgja aukaaðild að félaginu.  Á næstunni munu formaður félagsins, hjúkrunarfræðingur þess og hagfræðingur boða til fundar með hjúkrunarfræðinemum á skólatíma til að kynna félagið enn frekar og svara þeim spurningum sem kunna að brenna á hjúkrunarfræðinemum.  Ég vonast til þess að þú sjáir þér fært að mæta á kynningarfundinn og ákveðir í framhaldinu að gerast aukaaðili að Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga.


Með félagskveðju,


F.h. stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður

Skráningarblað fyrir inngöngu í Fíh.

 


Til baka