102:Þessi frétt er runnin út og mun ekki birtast!
Prenta síðu

Fulltrúaþing sett//

Setningarræða Elsu B. Friðfinnsdóttur, formans Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

 

Heilbrigðisráðherra, kæru hjúkrunarfræðingar og starfsmenn félagsins, ágætu gestir.

 

Verið öll hjartanlega velkomin á fulltrúaþing Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga árið 2007 – sem ég segi hér með sett.

 

Alls eru hér 78 fulltrúar með atkvæðisrétt.  Hér er fullmannað og velmannað þing.  Mun betur gekk að fá fulltrúa á þingið en oftast áður og tel ég það til marks um þá miklu gerjun sem greina má í hjúkrunarsamfélaginu.  Miklar umræður hafa verið síðustu mánuði og misseri um laun hjúkrunarfræðinga og það mat, eða öllu heldur vanmat á menntun, starfi og ábyrgð sem endurspeglast í laununum.  Þá hafa hjúkrunarfræðingar, ekki síður en margir aðrir þjóðfélagshópar, sett annan mælikvarða á kjör sín þegar dag eftir dag berast fréttir af ofurkjörum á viðskiptamarkaði.

 

Einnig hafa miklar umræður verið meðal hjúkrunarfræðinga og í samfélaginu um það ástand heilbrigðiskerfisins sem birtist í fréttum fjölmiðlanna, þ.e. mikla manneklu, álag, óánægju með laun, biðlista, lokanir, ógnanir við öryggi sjúklinga og svona mætti áfram telja.  Færri fréttir berast af öllum þeim góðu verkum, þeim litlu og stóru kraftaverkum, sem unnin eru á hverjum degi í heilbrigðiskerfinu.  Þó orð séu til alls fyrst og hreinskiptar umræður um það sem ábótavant er séu nauðsynlegar til að fá fram lagfæringar og umbætur, þá er ekki síður mikilvægt að halda hinu jákvæða á lofti.

 

Hjúkrunarfræðingar bjarga lífum.

 

Hjúkrunarfræðingar bjarga lífum daglega og oft á dag, en þá fyrirsögn sjáum við aldrei á síðum blaðanna.  Hvers vegna ekki?  Höfum við hjúkrunarfræðingar ekki staðið okkur í stykkinu hvað það varðar að kynna mikilvægi starfa okkar?  Af hverju segir sú merka kona Suzanne Gordon (sem hefur skrifað frábærar bækur um ímynd hjúkrunarfræðinga – bækur sem ættu að vera skyldulesning í námi okkar) – af hverju segir hún að almenningur treysti hjúkrunarfræðingum en skilji ekki hvað þeir gera í raun?  Af hverju erum við bara hjúkrunarfólk eða umönnunarstétt?   Af hverju lýsir fólk hjúkrunarfræðingum f.o.f. sem góðum (nice) á meðan læknum er lýst sem færum, að þeir kunni sitt fag („they know their stuff“).  En hjúkrunarfræðingar eru aftur á móti „the hand holding profession“.    Við, hjúkrunarfræðingar, sem höldum uppi heilbrigðisþjónustunni, því eins og sagt hefur verið „heilbrigðisstofnun án hjúkrunarfræðinga er bara hótel“.

 

 

Ágætu þingfulltrúar.

Ég varpa þessu hér fram til umhugsunar og brýningar á þessu fulltrúaþingi, sem hugsanlega verður það síðasta sem boðað er til hjá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, ef þær lagabreytingar sem hér eru lagðar fram ná fram að ganga.  Hér ætlum við að leggja drög að framtíð félagsins.  Hér tökum við vonandi fyrstu skrefin í því að gera félagið enn sterkara en það hefur verið, í því að færa það til nútíma stjórnsýsluhátta, í því að styrkja ímynd hjúkrunar og hjúkrunarfræðinga.  Ég hvet ykkur þingfulltrúa til að taka virkan þátt í umræðum hér á þinginu, þannig að sjónarmið þeirra hjúkrunarfræðinga sem þið eruð fulltrúar fyrir, skili sér hér inn í umræðu og ákvarðanir.

 

Ég vil leyfa mér að vera svo háfleyg að líta á þetta fulltrúaþing sem nýtt upphaf – upphafið að sterkara félagi, sterkari ímynd hjúkrunarfræðinga og auknu sjálfstæði í störfum hjúkrunarfræðinga.  Ég leyfi mér að líta svo á, að sá mikli áhugi sem var meðal hjúkrunarfræðinga á að sitja þetta þing sem atkvæðabærir fulltrúar, sé merki um að fleiri séu á þessari skoðun.  Ég leyfi mér líka að líta svo á að sá vilji stjórnarmanna, utan eins, að óska eftir áframhaldandi umboði fulltrúaþings til stjórnarstarfa, sé merki um þetta sama mat.  Og að það sýni vilja til að taka þátt í þeim breytingum, breytingum sem reyndar eru þegar hafnar.

 

Stjórn félagsins hefur nefnilega þegar hrundið í framkvæmd ýmsum breytingum í starfsemi félagins þannig að það uppfylli skilyrði góðrar stjórnsýslu.  Þær breytingar, eins og margar aðrar, voru ekki með öllu sársaukalausar, en hafa að mínu mati og að mati endurskoðenda félagsins verið til mikilla bóta.  En ég kem nú betur inn á þessar breytingar í yfirferð minni um skýrslu stjórnar.

 

Hér framundan á þinginu eru stór mál sem þarf að ræða af víðsýni og með framtíðarhagsmuni hjúkrunarfræðinga og félagsins að leiðarsjósi.  Fyrir þinginu liggur  - tillaga um breytingar á æðsta stjórnvaldi félagsins,  - tillaga um starfshóp til að setja fram hugmyndir um breytingar á uppbyggingu og lögum félagsins, þar sem allt er undir, og - tillaga um breytta aðild eða hugsanlega úrsögn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga úr Bandalagi háskólamanna.  Nái þessar tillögur fram að ganga hér, marka þær nýtt upphaf í starfsemi félagsins. 

 

Ný lög um heilbrigðisþjónustu, sem samþykkt voru á lokadegi vorþings Alþingis og taka gildi 1. september næstkomandi, geta ekki síður markað nýtt upphaf.  Með lögunum er staða hjúkrunarfræðinga styrkt frá því sem var í fyrri lögum og það lögfest að hjúkrun og lækningar eru þær tvær megin stoðir, jafn styrkar stoðir, sem heilbrigðiskerfið hvílir á.  Með áherslum í lögunum á útboð og samninga við heilbrigðisstarfmenn, opnast löngu tímabært tækifæri fyrir hjúkrunarfræðinga að taka að sér fulla ábyrgð á rekstri ákveðinna þjónustuþátta heilbrigðiskerfisins.  Þetta tækifæri þurfa hjúkrunarfræðingar að nýta, stéttinni og þó miklu fremur skjólstæðingum til góða.

 

- - - -

En ágætu félagar.  Nú, eins og á fyrri þingum, söknum við hjúkrunarfræðinga sem fallið hafa frá síðan við hittumst hér síðast.  Ég vil biðja þingfulltrúa að rísa úr sætum og minnast látinna hjúkrunarfræðinga með stuttri þögn.

 

- - - -

Það er með mikilli ánægju sem ég kynni hér Siv Friðleifsdóttur, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.  Þessir síðustu dagar fyrir kosningar eru annasamir hjá frambjóðendum og við metum það mikils að ráðherra gefi sér tíma til að vera með okkur hér í dag.  Við metum einnig mikils stuðning hennar og framgang allan við að fá fram fjölgun hjúkrunarfræðinema sl. haust.  Bestu þakkir fyrir það.  Ég býð Siv Friðleifsdóttur, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að ávarpa fulltrúaþingið.

 

Sækja setningarávarp formanns á pdf skjali

 

 

 

 

 


Til baka