102:Þessi frétt er runnin út og mun ekki birtast!
Prenta síðu

Hjúkrunarfræðingar á FSA kröfðust tafarlausrar leiðréttingar launa.//

Af www.mbl.is

Um það bil 90% hjúkrunarfræðinga við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri (FSA) skrifuðu undir áskorun, sem forstjóra stofnunarinnar var afhent í gær, þar sem farið er fram á tafarlausa lagfæringu launa.

Þóra Ester Bragadóttir, trúnaðarmaður hjúkrunarfræðinganna, sagði í gær að 156 hefðu skrifað undir listann en aðrir væru fjarverandi í einhvers konar orlofi.

Í áskoruninni segjast hjúkrunarfræðingar á FSA ekki sætta sig lengur við að vera "langt undir launum" sem greidd eru á Landspítala – Háskólasjúkrahúsi (LSH). "Við óskum eftir því að staðið verði við loforð um sambærileg laun hjúkrunarfræðinga á FSA og LSH," segir þar. "Við vitum að verið er að fara eftir kjarasamningi, þetta er ekki spurning um það, heldur viljum við fá sambærileg laun og verið er að greiða á LSH," sagði Þóra Ester við þetta tækifæri.

Halldór Jónsson, forstjóri FSA, sagðist í sjálfu sér feginn að taka við undirskriftalistunum og taldi að þeir myndu nýtast stjórnendum stofnunarinnar í baráttu sem þeir væru í, við að fá aukna fjármuni frá ríkisvaldinu.

"Það er ljóst að þetta er barátta á hverjum tíma, það eru samningar á hverri stofnun fyrir sig, það skiptir máli hvernig kjarasamningar þróast og hvernig þeir útfærast ... við viljum að laun hér á FSA séu sambærileg við laun t.d. á LSH," sagði forstjórinn við fjölda viðstaddra hjúkrunarfræðinga.

Halldór sagði að í vetur hefði verið unnið að því að safna saman upplýsingum til þess að varpa ljósi á óútskýrðan mismun, sem hann kallaði svo. "Til þess að vinna svona mál til enda skiptir öllu máli að hafa réttar upplýsingar... Við höfum einu sinni áður lent í svona stöðu og sóttum þá ákveðna leiðréttingu."

Halldór lagði áherslu á að hann gæti ekki tímasett leiðréttingar en vilji forystumanna FSA væri að borga "sambærileg laun fyrir sambærilega vinnu," eins og hann sagði.


Til baka