102:Þessi frétt er runnin út og mun ekki birtast!
Prenta síðu

Umfangsmiklar breytingar á heilbrigðisþjónustu landsins. St. Jósefsspítala í Hafnarfirði verður falið hlutverk á sviði öldrunarlækninga og hvíldarinnlagna. //

Skoða kynningu heilbrigðisráðherra á skipulagsbreytingum

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra kynnti  í dag umfangsmiklar skipulagsbreytingar á heilbrigðisþjónustu í landinu á fundi með fréttamönnum. Breytingarnar eiga að taka gildi 1. mars nk. Meðal helstu breytinga er að St. Jósefsspítala í Hafnarfirði verður falið hlutverk á sviði öldrunarlækninga og hvíldarinnlagna.

Sérfræðingum og fagfólki, sem þar hafa gert skurðaraðgerðir, verður boðin aðild að því að byggja upp skurðstofurekstur í nýrri aðstöðu á Suðurnesjum. Meltingasjúkdóma- og lyflækningadeild verður tengd starfsemi á Landspítalanum og göngudeildarþjónusta á St. Jósefsspítala þróuð með sérfræðingum þaðan. Landspítalinn mun yfirtaka skurðstofurekstur á Selfossi og vaktir á skurðstofum á Selfossi og í Keflavík verða lagðar af.

Erfiðlega gekk að fá svör við því á fréttafundinum hver sparnaðurinn yrði af þessum breytingum. Ráðherra vísaði í vinnu sem hafi farið fram í ráðuneytinu en tölur lágu ekki fyrir á fundinum. Þó kom fram að samtals eigi að spara 750 milljónir á suðvesturhorninu.

Þegar fréttafundinum lauk beið fjöldi starfsfólks frá St. Jósefsspítala eftir ráðherra. Mikil reiði var í fólkinu. Spurt var af hverju skurðstofur voru byggðar upp í Keflavík á sama tíma og vel reknar skurðstofur á St. Jósefsspítala voru látnar sitja á hakanum? Á sjúkrahúsinu væri vel samstilltur hópur starfsfólks sem hafi náð verulegum árangri á mörgum sviðum, en nú væri verið að eyðileggja það. Engin hagfræðileg rök væru fyrir þessum breytingum.

Allar heilbrigðisstofnanir og heilsugæslustöðvar á Norðurlandi verða sameinaðar í eina undir forystu FSA á Akureyri, sem verður Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Allar heilbrigðisstofnanir á Vesturlandi verða sameinaðar undir eina, sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum sameinað Heilbrigðisstofnun Suðurlands, sem jafnframt tekur við samningum við Heilbrigðisstofnunina á Höfn. Heilbrigðisstofnunin á Patreksfirði sameinast Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og auka á samstarf milli Heilbrigðisstofnunar Austurlands og FSA. Núverandi 22 heilbrigðisstofnunum fækkar í 6.

Ljóst er að fjölda yfirmanna mun verða sagt upp störfum en ekki fengust svör við því hverjir það yrðu. Starfshópar í heilbrigðisumdæmunum hafa nú tæpar tvær vikur til þess að skila tillögum um nánari útfærslu boðaðra breytinga.


Til baka