102:Þessi frétt er runnin út og mun ekki birtast!
Prenta síðu

Ávarp til hjúkrunarfræðinga//

Ágætu hjúkrunarfræðingar.

Í dag kynnti Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra viðamiklar breytingar sem framundan eru í heilbrigðiskerfinu.  Sumar þessara breytinga voru fyrirséðar í framhaldi setningar laga um heilbrigðisþjónustu í mars 2007.  Aðrar koma á óvart eins og þær breytingar sem tilkynntar voru á starfsemi St. Jósefsspítala.

Á landsbyggðinni verða stofnanir sameinaðar, vaktsvæði heilsugæslu sameinuð og sjúkradeildum fækkað, svo fátt eitt sé nefnt.  Ljóst er að þessar breytingar munu hafa mikil áhrif á alla þjónustu og skipulag, þó nánari útfærslur liggi ekki fyrir.  Í aðdraganda þessara breytinga hafa stjórnvöld marg ítrekað að ekki eigi að skerða þjónustu.  Reyna mun mjög á hjúkrunarfræðinga og aðra heilbrigðisstarfsmenn að tryggja áframhaldandi góða heilbrigðisþjónustu um allt land við mikið breyttar aðstæður.  Sameining stofnananna mun einnig augljóslega leiða til þess að fjöldi stjórnenda í hjúkrun mun missa stöður sínar.

Á St. Jósefsspítala hefur verið rekin metnaðarfull starfsemi.  Starfsfólk og stjórnendur hafa sýnt faglegan metnað í sínum störfum og starfsandi verið góður.  Mannauðurinn á þeirri stofnun er mikill.  Mannauðurinn, þekking heilbrigðisstarfsfólks, er mesta auðlind heilbrigðisþjónustunnar, það sem fært hefur íslenskt heilbrigðiskerfi á þann stað sem ráðamenn gjarnan guma af.  Hvað verður nú um þennan mannauð?     

Undanfarna daga hafa félaginu borist fréttir af ráðstöfunum forstöðumanna stofnana um landið, þar sem brugðist er við kröfum stjórnvalda um sparnað, vegna þess efnahagsástands sem þjóðin glímir við.  Forstöðumenn einstakra stofnana virðast þar hafa algjört sjálfdæmi um hvar skuli skorið niður.  Því miður virðast heilbrigðisyfirvöld ekki hafa gefið nein fyrirmæli um hvar skuli fyrst borið niður og hvaða þjónustu skuli vernda.  Niðurskurðurinn mun því koma mjög misjafnlega niður á sjúklingum og heilbrigðisstarfsfólki.

Starfsfólk Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga mun leggja sig allt fram um að aðstoða hjúkrunarfræðinga við að takast á við þær breytingar sem framundan eru, hvort heldur er lýtur að faglegum þáttum eða kjara- og réttindalegum.  Hjúkrunarfræðingar eru hvattir til að leita til trúnaðarmanna á hverri stofnun og til félagsins eftir því sem þörf er á.  Við munum leggja okkur fram um að koma upplýsingum á framfæri við félagsmenn, boða til funda eftir því sem þurfa þykir, birta fréttir á vefsvæði félagsins og koma upplýsingum til trúnaðarmanna.

Þá hvet ég hjúkrunarfræðinga til að fylgjast vel með áhrifum þeirra breytinga sem framundan eru á þjónustu við skjólstæðingana og á starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga, og koma upplýsingum um þau á framfæri við félagið á hjukrun@hjukrun.is

Við megum ekki gleyma því að í breytingum felast einnig tækifæri.  Við höfum þekkingu, færni og styrk til að nýta þau.  Sýnum samstöðu og fagmennsku þegar mest á reynir.

 

Með kveðju,

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður


Til baka