102:Þessi frétt er runnin út og mun ekki birtast!
Prenta síðu

Starfshópur skipaður um leiðir til að sporna gegn atvinnuleysi//

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur skipað starfshóp um vinnumarkaðsaðgerðir með fulltrúum aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélaganna, fjármálaráðuneytisins og félags- og tryggingamálaráðuneytisins til að móta tillögur um aðgerðir til að sporna gegn atvinnuleysi.

Hópnum er ætlað að skila félags- og tryggingamálaráðherra fyrstu tillögum sínum um vinnumarkaðsaðgerðir fyrir 1. febrúar.

Verkefni hópsins snúast að mörgu leyti um að fylgja eftir vinnumarkaðsúrræðum sem fram koma í reglugerðum sem félags- og tryggingamálaráðherra setti fyrir helgi og stuðla að notkun þeirra í því skyni að sporna gegn atvinnuleysi, stuðla að virkni fólks án atvinnu og auka möguleika þess til að komast út á vinnumarkaðinn á nýjan leik.

Formaður starfshópsins er Hrannar Björn Arnarsson, aðstoðarmaður félags- og tryggingamálaráðherra. Aðrir fulltrúar starfshópsins sem skipaðir eru samkvæmt tilnefningum eru: Halldór Grönvold fyrir Alþýðusamband Íslands, Cecilie Björgvinsdóttir fyrir Bandalag háskólamanna, Elín Björg Jónsdóttir fyrir Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Viðar Helgason fyrir fjármálaráðuneytið, Regína Ásvaldsdóttir fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga og Guðlaugur Stefánsson fyrir Samtök atvinnulífsins.

Helstu verkefni starfshópsins eru þessi:

  • Að fylgja eftir og tryggja virka framkvæmd vinnumarkaðsaðgerða á grundvelli aukinna möguleika Vinnumálastofnunar til að bregðast við atvinnuleysi og tryggja virkni fólks sem er á atvinnuleysisskrá.
  • Að kanna möguleika Íbúðalánasjóðs til þess að lána til mannaflsfrekra verkefna í byggingariðnaði.
  • Að kynna aukna möguleika til átaksverkefna, frumkvöðlastarfs og fleiri vinnumarkaðsaðgerða fyrir fyrirtækjum, félagasamtökum og sveitarfélögum og hvetja þau til að nýta þá. Þetta er ekki síst mikilvægur undirbúningur fyrir næsta sumar þegar námsfólk kemur út á vinnumarkaðinn.
  • Að virkja sveitarfélög til átaksverkefna, svo sem viðhaldsverkefna á ferðamannastöðum, verkefna við umhverfisúrbætur og velferðarþjónustu.
  • Að hvetja félagasamtök um land allt til atvinnuskapandi verkefna.
  • Að samræma tillögur vinnumarkaðsráða um aðgerðir um land allt.
  • Að huga sérstaklega að stöðu hópa sem hafa veika stöðu á vinnumarkaði og stuðla að virkni þeirra, meðal annars með endurskoðun reglna um vinnustaðasamninga öryrkja.


Til baka