102:Þessi frétt er runnin út og mun ekki birtast!
Prenta síðu

Hætta á að rekstrar- og fjárhagsleg sjónarmið beri fagleg sjónarmið ofurliði //

Af www.mbl.is

Pófessor í heilsufélagsfræði við Háskóla Íslands, dr. Rúnar Vilhjálmsson, segir hættu á að rekstrar- og fjárhagsleg sjónarmið beri fagleg sjónarmið ofurliði í fyrirhuguðum breytingum í heilbrigðismálum. Segist hann helst hafa áhyggjur af gæðum þjónustunnar og aðgengi að henni. Boðað hafi verið að keyra eigi breytingarnar hratt í gegn og mikilvægt að vinnubrögðin séu vönduð.

„Með því að búa til eina heilbrigðisstofnun á hverju svæði verður ákveðin tilhneiging til að þjappa þjónustunni saman. Þá koma upp atriði eins og vegalengd fyrir sjúklinga á þjónustustað. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því hverjar afleiðingarnar geta verið á einstökum svæðum,“ segir Rúnar og minnir á gildandi lög um heilbrigðisþjónustu, þar sem kveðið er m.a. á um jafnt aðgengi fólks að henni.

Varðandi mögulegar tilfærslur á starfsfólki með boðuðum breytingum segir Rúnar þær vera afar viðkvæmt mál. Rannsóknir hans hafa leitt í ljós að tengsl sjúklings við ákveðinn heilbrigðisstarfsmann eru lykilatriði til að tryggja aðgengi að þeirri þjónustu sem fólk þarf á að halda. „Áður en starfsfólk er fært til eða hlutverki þess breytt þarf að huga að afleiðingunum fyrir skjólstæðingana úti í samfélaginu. Heilbrigðisþjónustan er flókinn og viðkvæmur vefur sem tengir saman starfsmenn og skjólstæðinga þeirra. Auðvitað eru rekstrarlegu sjónarmiðin mikilvæg en ég óttast að ekki sé hugað nógu vel að faglegum forsendum,“ segir Rúnar.


Til baka