102:Þessi frétt er runnin út og mun ekki birtast!
Prenta síðu

Landspítali á að skera niður umtæpa 3 milljarða//

af www.ruv.is

Stjórnendur á Landsspítalanum þurfa að skera niður kostnað um tæpa þrjá milljarða á þessu ári, samkvæmt kröfum frá heilbrigðisráðuneytinu. Gert er ráð fyrir að um helmingur þessa sparnaðar komi til með því að lækka launakostnað. Erfitt verkefni, segir Hulda Gunnlaugsdóttir, forstjóri spítalans.

Tillögur og áætlanir um þennan niðurskurð voru kynntar á fundi sem stjórnendur Landspítalans héldu fyrr í vikunni með fulltrúum stéttarfélaga. Gert er ráð fyrir að spítalinn eigi að spara um 2,6 milljarða króna á þessu ári - en til að setja þá tölu í samhengi, þá fær stofnunin rúma 30 milljarða á fjárlögum þessa árs.

Hulda segir að framkvæmdaáætlun sé komin fram þar sem gert sé ráð fyrir að lækka launakostnað og yfirvinnu. Hún segir að til greina komi að fækka starfsfólki eða ráða ekki í stað þeirra sem hætti. Farið verði í gegnum alla yfirvinnu, allar vaktalínur og vaktir.

Gert er ráð fyrir að launakostnaður lækki um rúma tvo milljarða króna í þessum aðgerðum - en niðurskurðurinn verður sértækur - það verður skorið niður um 4% á klínískum deildum - þar sem sjúklingar eru þjónustaðir - en um 7,5% á til að mynda skrifstofum og tæknideildum - ákveðnar deildar verða opnar í fimm daga í stað sjö og í ráði er að auka útboð á þjónustu. Hulda segist ekki geta sagt í dag að það verði engar uppsagnir. Markmiðið sé að ekki þurfi að koma til þess að segja þurfi upp fólki. Hún segi útboð koma til skoðunar út frá því hvað sé kjarnastarfsemi og hvað ekki, hvað sjúkrahúsið verði að sjá um sjálft og hvað sé hægt að bjóða út.

Nú þegar hefur stjórnendum verið sagt upp, til að mynda á deildum í Kópavogi, en Hulda segir að þeim verði boðin önnur störf í staðinn. En hvernig ætla stjórnendur að tryggja að þjónustan við sjúklinga skerðist ekki? Hulda segir að gerð verði aðgerðaáætlun til að komast hjá því. Hún verði endurskoðuð reynist hættan á þjónustuskerðingu of mikil.


Til baka