102:Þessi frétt er runnin út og mun ekki birtast!
Prenta síðu

GoRed fyrir konur á Íslandi - forvarnir hjarta- og æðasjúkdóma //


Sunnudaginn 22. febrúar kl. 13-16 verður opin dagskrá í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem átaksverkefninu GoRed fyrir konur á Íslandi verður ýtt úr vör.
Hjarta- og æðasjúkdómar eru algengasta dánarorsök kvenna á Íslandi líkt og annarsstaðar í heiminum. GoRed átakið miðar að því að fræða konur um áhættuþætti og einkenni hjarta- og æðasjúkdóma og hvernig draga megi úr líkum á sjúkdómunum.
GoRed átakið er alheimsátak á vegum World Heart Federation og á Íslandi er það unnið í samvinnu við Hjartavernd. Verndari átaksins er Ingibjörg Pálmadóttir, fyrrum heilbrigðisráðherra.

Af hverju GoRed
Jafnmargar konur og karlar látast árlega af völdum hjarta- og æðasjúkdóma.
Konur gera sér ekki grein fyrir eigin áhættu.
Einkenni sjúkdómsins eru oftar óljósari hjá konum en körlum þannig að greiningarferli og áhættumat vegna hjarta- og æðasjúkdóma tefst oft.

Hvaða konur eru í forgangi?
Einkennalausar konur, 40 ára og eldri, ættu að fara í áhættumat til greiningar á áhættuþáttum á 5 ára fresti.
Einkennalausar konur yngri en 40 ára sem hafa ættarsögu um hjarta- og æðasjúkdóm hjá 1. gráðu ættingjum og/eða með sögu um ættgenga blóðfituröskun reglulega

Hvernig höldum við áfram?
Evrópska stefnuskráin um heilbrigði hjartans miðar að því að kortleggja hvernig forvörnum hjarta- og æðasjúkdóma er háttað í Evrópu. Hjartavernd er þátttakandi í verkefninu fyrir hönd Íslands, og miðar næsti áfangi að konum.
Á heimavelli viljum við að tekið sé tillit til kvenna í gerð heilbrigðisáætlana er varða hjarta- og æðasjúkdóma. Einn þáttur í slíku er útbreiðsla skilaboða og vitundarvakning, líkt og GoRed fyrir konur.

Við vonumst til að þú sjáir þér fært að taka þátt í GoRed átakinu með okkur.

Ekki bíða til morguns – hugsaðu um hjartað þitt í dag!


Helstu áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma
Aldur
Reykingar
Sykursýki
Æskileg gildi fastandi blóðsykurs í plasma < 6.0 mmól/L
Blóðfituröskun
Æskileg fastandi gildi
heildarkólesteról < 5.0
HDL > 1.1
þríglýseríðar < 1.7
LDL < 3.0
Háþrýstingur
Æskileg gildi blóðþrýstings
< 135 slagbilsþrýstingur og < 85 mmHg lagbilsþrýstingur
Ættarsaga um kransæða- eða heilaáföll hjá 1. gráðu ættingjum (foreldrar/systkini)
Ofþyngd (offita BMI > 30)
Æskileg gildi BMI < 25
Hreyfingarleysi

Þekkir þú þín gildi?

Einkenni hjarta- og heilaáfalla – Konur eru öðruvísi:
Konur eru líklegri til að upplifa eftirfarandi einkenni hjartaáfalls:
Óútskýrðan slappleika eða þreytu
Óeðlilegt kvíðakast eða verða taugaóstyrkar
Meltingartruflanir eða verk vegna uppþembu
Konur og karlar upplifa eftirfarandi einkenni hjartaáfalls:
Þyngsl eða verk fyrir brjósti eða fyrir neðan bringubein
Óþægindi eða verk milli herðablaða, í hálsi, kjálka eða maga
Verk sem kemur við áreynslu og hverfur við hvíld og getur verið fyrirboði kransæðastíflu
Stöðugan verk fyrir brjósti etv. með ógleði og kaldsvita sem getur verið einkenni um bráðakransæðastíflu og krefst tafarlausrar meðferðar

Konur eru líklegri til að upplifa eftirfarandi einkenni heilaáfalls:
Öndunarerfiðleika
Ógleði og/eða uppköst
Bakverk og/eða verk í kjálka
Konur og karlar upplifa eftirfarandi einkenni heilaáfalls:
Dofa eða máttleysi í andliti, handlegg eða fæti, aðallega í öðrum helmingi líkamans
Ringlun, erfiðleika með að tala eða að skilja
Erfiðleika með að sjá með öðru eða báðum augum
Erfiðleika með gang, svima, jafnvægisleysi eða skort á samhæfingu
Slæman höfuðverk af óþekktri orsök
Yfirlið eða meðvitundarleysi


Til baka