102:Þessi frétt er runnin út og mun ekki birtast!
Prenta síðu

Mikilvægt að forgangsraða í heilbrigðiskerfinu //

„Það er mjög erfitt fyrir stjórnmálamenn að forgangsraða vilji þeir verða kosnir aftur eftir 4 ár, því verðum við fagfólkið að gefa ráð um hvernig á að forgangsraða,“ sagði Hulda Gunnlaugsdóttir, forstjóri Landsspítalans á ársfundi spítalans nú fyrir stundu.

Rekstrarstaða spítalans er til umræðu á fundinum, en hann glímir nú við að mæta kröfum stjórnvalda um gríðarlegan niðurskurð í rekstri. Hulda sagði sín ráð til stjórnvalda vera í fjórum liðum. Í fyrsta lagi að tryggja nærþjónustu, þar sem um 70% notenda heilbrigðisþjónustunnar geti nýtt sér nærþjónustu á meðan aðeins 30% þurfi á sérfræðiaðstoð að halda.

Í öðru lagi nefndi Hulda fyrirbyggjandi starf. „Árangurinn sést ekki fyrr en eftir nokkur ár og því er mjög erfitt að fá stjórnvöld til að verja tíma í fyrirbyggjandi starf,“ sagði Hulda. Sem dæmi um mikilvægan árangur fyrirbyggjandi starfs megi þó nefna bílbeltanotkun og forvarnir gegn reykingum. Brýnasti heilsufarsvandinn sem nú knýr að og mikilvægt er að vinna að því að fyrirbyggja að sögn Huldu er tannheilsa barna, sem geti skilað sér í miklum kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið eftir 20-30 ár og offita, sem verði æ algengari meðal barna. „Fyrirbyggjandi starf heldur fólki fyrir utan spítala og það hlýtur að vera aðalmarkmið góðrar heilbrigðisþjónustu að tryggja heilsu fólks.“

Í þriðja lagi nefndi Hulda nauðsyn þess að yfirvöld styrktu Landsspítalann og í fjórða lagi að styrkja og skilgreina betur hlutverk Sjúkratryggingastofnunar.

Hulda sagðist þess fullviss að fyrir tilstilli öflugs starfsfólks Landsspítalans og vilja stjórnvalda mætti byggja eitt af bestu heilbrigðiskerfum í heimi á Íslandi.Til baka