102:Þessi frétt er runnin út og mun ekki birtast!
Prenta síðu

Úrsögn Fíh úr BHM //

Á aðalfundi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga sem haldinn var á alþjóðadegi hjúkrunarfræðinga 12. maí, var samþykkt tillaga sem fyrir fundinum lá, um úrsögn félagsins úr Bandalagi háskólamanna

Úrsögn Fíh úr BHM hefur verið til alvarlegrar skoðunar í þrjú ár. Tillaga um úrsögn var rædd ítarlega á fulltrúaþingi félagsins í maí 2007 og síðan á aukafundi í september 2007. Þar var ákveðið að vera áfram í BHM enn um sinn eins og það var orðað. Þá var mikil stefnumótunarvinna í gangi hjá BHM sem fulltrúi Fíh tók fullan þátt í. Stjórn Fíh batt miklar vonir við að sú vinna myndi skila meiri breytingum á skipulagi og störfum BHM, og á gjaldalíkani bandalagsins en raun bar vitni.

Þessi aðalfundur markaði tímamót í sögu Fíh því horfið var frá því að svæðisdeildir félagsins tilnefndu fulltrúa til setu í þessu æðsta stjórnvaldi félagsins, yfir í beint lýðræði. Allir félagsmenn Fíh gátu tekið fullan þátt í aðalfundinum í gær, hver félagsmaður með eitt atkvæði. Aðeins þurfti að skrá sig á aðalfundinn með viku fyrirvara eins og kveðið er á um í lögum félagsins. Sú tillaga sem lá fyrir aðalfundinum í gær um úrsögn Fíh úr BHM barst með löglegum fyrirvara fyrir aðalfundinn og kom fram á dagskrá fundarins sem allir félagsmenn fengu senda bréflega heim til sín. Eftir umræður á aðalfundinum var gengið til atkvæða og niðurstaðan var skýr og ótvíræð.

Það er rétt að ítreka að hjúkrunarfræðingar eru um 26% af heildarfjölda félagsmanna í aðildarfélögum BHM. Hjúkrunarfræðingar greiða árið 2009 um 14 milljónir til bandalagsins. Það er mikið fé sem annað hvort er hægt að nýta til beinnar þjónustu við hjúkrunarfræðinga frá skrifstofu Fíh, eða að lækka félagsgjöldin til Fíh.

Ný kjörin stjórn Fíh mun nú fara í þá vinnu að undirbúa úrsögnina í samræmi við lög BHM. Fréttir af gangi mála munu birtast á vefsvæði félagsins eftir því sem málum vindur fram og síðan fjallað um breytingarnar í Tímariti hjúkrunarfræðinga.

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Fíh


Til baka