102:Þessi frétt er runnin út og mun ekki birtast!
Prenta síðu

Íslenskir hjúkrunarfræðingar birta greinar í erlendum tímaritum//

 

Tvær athyglisverðar rannsóknargreinar hafa nýlega birst þar sem Íslendingar eru höfundar eða meðhöfundar.

Annars vegar er um að ræða grein um nýgengi krabbameina hjá starfshópum á Norðurlöndum. Meðhöfundar eru Hólmfríður Kolbrún Gunnarsdóttir, sérfræðingur hjá Vinnueftirliti ríkisins og gestaprófessor hjá Miðstöð í Lýðheilsuvísindum, og Laufey Tryggvadóttir, klínískur prófessor og framkvæmdastjóri Krabbameinsskrár. Hólmfríður er hjúkrunarfræðingur og með doktorsgráðu í heilbrigðisvísindum. Grein eftir hana um vinnuumhverfi hjúkrunarfræðinga birtist í Tímariti hjúkrunarfræðinga 3. tbl. 2009 sem kom út nýlega.

 

Hins vegar er það rannsókn sem sýnir að tæplega fjórðungur íslenskra kvenna, sem annað hvort eru í sambúð eða giftar, hafi orðið fyrir kynferðislegu, andlegu eða líkamlegu ofbeldi af hálfu maka síns, Greinin birtist í tímaritinu Journal of Advanced Nursing. Tæplega þrjú þúsund konur tóku þátt í rannsókninni, sem er unnin af Erlu Kolbrúnu Svavarsdóttur og Brynju Örlygsdóttur. Báðar eru með doktorsgráðu í hjúkrunarfræði. 

 

Ofbeldi af hálfu maka

Fjallað var um grein þeirra Erlu Kolbrúnar og Brynju í Morgunblaðinu 7. júli og í netfrétt daginn áður þar sem eftirfarandi kom fram: „Alls tóku 2.746 konur þátt í rannsókninni og leiðir rannsóknin í ljós að andleg og líkamleg heilsa kvenna sem orðið hafa fyrir ofbeldi, hvort heldur það er líkamlegt, andlegt eða kynferðislegt, er marktækt verri en þeirra kvenna sem aldrei hafa orðið þolendur ofbeldis. Kynbundið ofbeldi hefur áhrif á heilsu kvenna bæði til skamms og langs tíma.

18,2% af þeim konum sem tóku þátt í rannsókninni höfðu orðið fyrir andlegu ofbeldi af hálfu maka síns, 3,3% líkamlegu og 1,3% höfðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.

Yfir 11% þátttakenda hræðist maka sinn, bæði hvað viðkomandi sagði og gerði og yfir þriðjungur(34%) segir að spenna sé í sambandi viðkomandi við maka sinn.

7% giftra kvenna og 9% kvenna í sambúð þjáist af þunglyndi og 4% eiga við átröskunarvandamál að stríða, samkvæmt rannsókninni.

Meðalaldur giftra kvenna sem tók þátt í rannsókninni er 47 ár en kvenna í sambúð 35 ár. Flestar kvennanna eru í fullu starfi og eiga eitt til þrjú börn að meðaltali.“

 

Starf og krabbamein

Tveir íslendingar, þar af einn hjúkrunarfræðingur, eru meðhöfundar  að grein um viðamikla rannsókn  á nýgengi krabbameina hjá starfshópum á Norðurlöndum. Greinin heitir á ensku „Occupation and cancer – follow-up of 15 million people in five Nordic countries“ og birtist í Acta Oncologica, 5. tölublað 2009.

Niðurstöðurnar sýna að þrátt fyrir tiltölulegt jafnræði þegnanna hafa lífshættir, menntun og aðrar aðstæður starfshópa afgerandi áhrif á krabbameinstíðnina. Engu að síður eru vinnutengdir þættir einnig mikilvægir varðandi tilurð krabbameina. Dæmi um slíkt sem staðfest eru í þessari rannsókn eru t.d. asbestmengun (fleiðrukrabbamein), viðarryk (krabbamein í nefi) og útfjólubláir geislar sólar (krabbamein í vörum).

Bændur og garðyrkjumenn reyndust í minnstri hættu að fá krabbamein. Í mestri hættu voru þjónar og annað starfsfólk veitingahúsa auk annarra starfsstétta sem hafa auðvelt aðgengi að tóbaki og áfengi. Meiri munur sást hjá körlum en konum.

 

Könnunin var mjög umfangsmikil og fylgst var með hópunum í allt að 45 ár. Um var að ræða 15 milljón manns á aldrinum 30-64 ára sem gáfu upplýsingar í manntölum 1960, 1970, 1980/1981 og 1990 í Danmörku, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð og á Íslandi.  Þetta er í fyrsta skipti sem Ísland tekur þátt í rannsókn af þessu tagi og byggt var á gögnum manntalsins frá 1981. Krabbameinsskrá Íslands og Rannsóknastofa í Vinnuvernd stóðu að rannsókninni af Íslands hálfu en upplýsingar úr manntalinu fengust frá Hagstofu Íslands.


Til baka