102:Þessi frétt er runnin út og mun ekki birtast!
Prenta síðu

Læknafélag Reykjavíkur býður til afmælishátíðar í tilefni 100 ára afmælis síns//

Afmælishátíð fyrir almenning á Hilton Nordica hótelinu

Afmælishátið fyrir almenning á vegum Læknafélags Reykjavíkur verður haldin á laugardaginn kemur, 17. október, á Hilton Nordica hótelinu við Suðurlandsbraut milli kl. 10 og 16. Dagskráin hefst með málþingi um sögu holdsveiki hér á landi og í Noregi. Einnig verður haldinn fyrirlestur um ýmsa frumkvöðla á sviði læknavísindanna, m.a. Jónas Sveinsson, lækni á Hvammstanga, sem t.d. græddi apaeistu í nokkra menn.

Að loknu málþingi og fyrirlestri tekur við viðmamikil fræðslu- og samræðudagskrá undir yfirskriftinni: „Heilsa - ábyrgð okkar allra“, þar sem fjöldi lækna frá sjúkrahúsunum, heilsugæslustöðvunum og læknamiðstöðvunum verður til staðar til að ræða við gesti um ýmis mál er varða barnaheilsu, unglingaheilsu, kvennaheilsu, karlaheilsu og streitu. Þar verður t.d. Bangsaspítalinn, þangað sem börn geta komið með dúkkur í læknisskoðun, og nokkrar landsliðskonur í fótbolta koma og gefa eiginhandaráritanir.

Læknar verða einnig með sérstakt listatorg, þar sem þeir sýna listir sínar, aðrar en á sviði læknavísinda. Þar má nefna sýningu á silfurskartgripum, olíumálverkum, vatnslitamyndum og ljósmyndum, útskurðum ýmis konar, útsaumum stórum og smáum, dúkkufötum og fleira. Ennfremur verða Lækningaminjasafn Íslands og Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar með sögusýningu og sýna m.a. holdsveika hönd og berklahaldið lunga.

 

Dagskrá dagsins er sem hér segir:

 

Sýningarsvæði 1. hæð

Kl. 10:00 - 10:10      Ávarp: Sigurður Böðvarsson formaður Læknafélags Reykjavíkur býður gesti velkomna og setur hátíðina.

Kl. 10:10 - 10:20      Ávarp: Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytis.

Kl. 10:20 - 10:25      Ólafur Þór Ævarsson, formaður afmælisnefndar kynnir Listaþing.

Kl. 10:25 - 10:30      Hildur Svavarsdóttir, heimilislæknir kynnir fræðsludagskrána.

 

Salur G, 2. hæð

Kl. 10:30 - 13:30      Kaun og benjar holdið þjá / Málþing um holdsveiki. Lorenz M. Irgens frá Noregi, Erla Dóris Halldórsdóttir sagnfræðingur og Úlfar Þormóðsson rithöfundur fjalla um sögu sjúkdómsins í Noregi og á Íslandi og hver sýn alþýðumanna var á þennan vágest. Óttar Guðmundsson, læknir og formaður Félags áhugamanna um sögu læknisfræðinnar, flytur inngangsorð.

 

Salur A, 1. hæð

Kl. 13:00 – 13:15     Maðurinn er normal / Upplestur úr leikriti.

Valgarður Egilsson læknir fer með upphaf leikritsins.

Kl. 13:30 – 14:00     Leitin að eilífri æsku / Fyrirlestur

Þorsteinn Gíslason læknir fjallar um ýmsa frumkvöðla á sviði læknavísindanna sem voru í leit að eilífri æsku. Í því sambandi kemur Þorsteinn m.a. inná frumkvöðlastarf Jónasar Sveinssonar læknis á Hvammstanga, sem græddi m.a. eistu úr öpum í nokkra Húnvetninga og að auki norskan skipakóng.

 

Sýningarsvæði 1. hæð

Kl. 10:00 - 16:00      Heilsa - ábyrgð okkar allra

 

Barnaheilsa á gula svæðinu

Barnalæknar frá sjúkrahúsunum, heilsugæslustöðvunum og læknamiðstöðvunum spjalla við gesti um þróun í velferðarmálum barna sl. 100 ár. Á tímabilinu hafa lífslíkur og heilsufar barna batnað mikið. Suma sjúkdóma sem voru ólæknandi áður er nú hægt að lækna og í öðrum hafa lífsgæði batnað umtalsvert. Nýir sjúkdómar hafa þó bæst við, sem kalla má velferðarsjúkdóma, svo sem ofnæmi og offita. Rædd verða málefni á borð við eyrnabólgur, ofþyngd, ungbarnaeftirlit, gjörgæslu og fleira auk þess sem ýmis nýjustu tæki og tól verða á staðnum.

 

Bangsaspítalinn verður á staðnum, en bangsaspítalar eru starfræktir víða um heim í því skyni að losa börn við hræðslu við lækna og heilbrigðisstofnanir. Börnin eru velkomin í læknisskoðun með dúkkur og bangsa.

 

Unglingaheilsa á neogræna svæðinu – VIP-inngangur við Pizza hut

Unglingar fá sérstakan VIP aðgang að sérsvæði út af fyrir sig, sem fullorðnir fá ekki aðgang að nema í fylgd með unglingi. Þarna verða læknar og læknanemar til staðar til að ræða mál sem skifta unglinga mestu máli varðandi heilsuna og hvernig þeir geta sjálfir tekið upplýstar ákvarðanir í þeim efnum. Læknanemar svara spurningum um allt er snýr að getnaðarvörnum og kynheilsu ungs fólks og læknar SÁÁ fræða um áhrif tóbaks, áfengis og annarra vímuefna á líkamann og gefa einnig foreldrum góð ráð.

 

Landsliðskonur í fótbolta

Nokkrar landsliðskonur í fótbolta mæta á staðinn um kl. 14. Þar á meðal verður læknirinn og fyrirliði íslenska landsliðsins, Katrín Jónsdóttir, sem ræðir við gesti um mikilvægi íþrótta og góðrar hreyfingar. Landsliðskonur veita eiginhandaráritanir.

 

Kvennaheilsa á dökkbleika svæðinu

Kvennaheilsubásinn gefur almenningi tækifæri til að skoða allar helstu getnaðarvarnir sem eru notaðar í dag og þau áhöld sem eru notuð þegar kona fer t.d í krabbameinskoðun.  Þar munu læknar sýna ma. sitjandi fæðingar og áhaldafæðingar. Einnig verður sýnt hvernig kviðarholsaðgerðir eru framkvæmdar og nokkrar slíkar aðgerðir munu verða á skjávarpa á sýningunni. Fólki gefst einnig kostur á að ræða við kvensjúkdóma og fæðingarlækna sem verða til staðar.

 

Karlaheilsa á bláa svæðinu

Læknar verða fyrir svörum og miðla fróðleik um málefni sem snerta karla sérstaklega.  Má þar nefna:  Hækkaðan blóðþrýsting, offitu, reykingar, lungnasjúkdóma, sjúkdóma í meltingafærum svo sem krabbamein í ristli. Þá verður fjallað um sjúkdóma í blöðruhálskirtli, risvandamál sem og ófrjósemisaðgerðir.

 

Heilsa og hamingja á dökkgræna svæðinu

Í bás heilsu og hamingju verður boðið uppá samræðu um þá hættu sem langvarandi streita getur haft á líf og heilsu manna og hvaða forvörnum er hægt að beita til að vernda heilsu og hamingju. Gestum verður boðið í slökun og síðan fylgst með mælingum hvernig heilastarfsemin breytist eftir því sem meiri ró færist yfir líkamsstarfsemina. Gefin verða streituráð og veittar upplýsingar um geðheilsueflingu.

 

Heilsa í 100 ár á svarthvíta svæðinu

Sögusýning Lækningaminjasafn Íslands og Félags áhugamanna um sögu læknisfræðinnar. Til sýnis verða bæði myndir og hlutir frá fyrri tíð ásamt líkamspörtum  (berklahaldið lunga og holsdveik hönd).

 

 

Listatorg lækna

 

Á listatorgi sýna læknar listir sínar, aðrar en á sviði læknavísinda. Þar má nefna sýningu á silfurskartgripum, olíumálverkum, vatnslitamyndum og ljósmyndum, útskurði ýmis konar, útsauma stóra og smáa, dúkkuföt og fleira auk þess sem læknar lesa úr verkum sínum á sviði ljóða- og leikritagerðar.

 

Eftirtaldir læknar taka þátt á listatoginu

 


Brynhildur Ingvarsdóttir

Silfursmíði. Skartgripir, skeiðar og fleira.

Ragnhildur Steinbach
Olíumálverk

Árni Björn Stefánsson
Útskurður, myndir og munir.

Guðrún Hreinsdóttir

Landslagsmyndir


Helga Hansdóttir

Útsaumsmyndir

 

Magnús Skúlason

Málverk og ljóðlist.

 

Lára Halla Maack

Stórt útsaumsverk.

 

Rannveig Pálsdóttir

Dúkkuföt og annar prjónaskapur.

 

Sveinn M Sveinsson

Tónsmíðar, texta- og ljóðagerð auk skúlptúra
úr áli.

 

Högni Óskarsson

Ljósmyndir

Sigurður V. Sigurjónsson

Smámyndir og plaköt.

 

Valgarður Egilsson

les úr upphafi leikritsins

Maðurinn er normal.

 

Guðmundur Bjarnason

Málverk

 

Knútur Björnsson

Ofin teppi og leirlist.

 

Hannes Petersen

Teikningar


 

 

Allar frekari upplýsingar veita læknarnir Halla Skúladóttir (s. 825 3658), Hildur Svavarsdóttir (893 1587) og Ólafur Þór Ævarsson og formaður afmælisnefndar Læknafélags Reykjavíkur (s. 699 4358).

 

Reykjavík, 15. október 2009.


Til baka