102:Þessi frétt er runnin út og mun ekki birtast!
Prenta síðu

Spara má 1700 milljónir með flutning verkefna milli kragasjúkrahúsanna og Landspítala//

Af www.mbl.is

Með flutningi ákveðinna verkefna á milli Kragasjúkrahúsanna svonefndu og Landspítalans mætti spara árlega um 1.700 milljónir. 

Um er er að ræða flutning á öllum skurðlækningum og fæðingar- og kvensjúkdómaþjónustu frá Kragasjúkrahúsunum til Landspítalans og einnig flutning á hluta legusjúklinga eftir bráðaaðgerðir á Landspítalanum til Kragasjúkrahúsanna. Með flutningi fleiri verkefna mætti ná fram enn meiri ábata í krónum talið, eins og varðandi meltingarrannsóknir, grindarbotnsmeðferð, rannsóknir og samvinnu um rekstrarverkefni.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu starfshóps sem Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra skipaði fljótlega eftir að hún tók við af Ögmundi Jónassyni í haust. Megintilefnið var önnur skýrsla sem starfshópur, undir stjórn Huldu Gunnlaugsdóttur forstjóra Landspítalans, hafði skilað til ráðherra í lok september sl. Þar voru lagðar fram nokkrar tillögur að aðgerðum til endurskipulagningar á þjónustu Kragasjúkrahúsanna, sem eru Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS), Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi (HSu), Sjúkrahúsið og heilsugæslustöðin á Akranesi (SHA) og St. Jósefsspítali-Sólvangur í Hafnarfirði. Í þeirri skýrslu var t.d. ekki mælt með flötum niðurskurði og í Morgunblaðinu var haft eftir Huldu að slíkur niðurskurður væri beinlínis hættulegur.

Starfshópnum, sem Álfheiður skipaði í kjölfarið, var ætlað að fara yfir gögn um starfsemi og rekstur þessara sjúkrastofnana og greina ábatann af þremur helstu tillögum Huldu og félaga, þ.e. að endurskipuleggja þjónustu í skurðlækningum, fæðingar- og kvensjúkdómaþjónustu og seinni hluta sjúkrahúsmeðferðar. Í heilbrigðisráðuneytinu er litið svo á að engar tillögur séu gerðar í skýrslunni í sjálfu sér, heldur sé hún fyrst og fremst greining á kostnaði og ábata, miðað við tilteknar gefnar forsendur eins og það er orðað.

Mikill munur á stofnunum

Margt fleira forvitnilegt er í skýrslunni, eins og kostnaður við aðkeypta sérfræðiþjónustu og upplýsingar um fjölda fæðinga á hverja ljósmóður og nýtingu skurðstofa. Eru þær tölur mjög mismunandi eftir sjúkrastofnunum. Þannig nam aðkeypt klínísk sérfræðiþjónusta 216 milljónum kr. á St. Jósefsspítala árið 2008 en sami kostnaður á LSH nam 21 milljón. Fjöldi fæðinga á hverja ljósmóður var um 28 á HSu, en nærri 50 fæðingar á hverja ljósmóður á LSH. Þá var nýting á skurðstofu HSu 22%, en 44-85% á öðrum sjúkrahúsum. Einnig er athyglisvert að í fyrra fæddu 40% fæðingarkvenna af Suðurlandi á LSH á meðan sama hlutfall var 28-29% hjá konum af Suðurnesjum og Vesturlandi.

442 milljóna kr. ábati af flutningi fæðingar- og kvensjúkd.þjónustu af Kragasjúkrahúsum á LSH.

453 milljóna kr. ábati af flutningi 30% legusjúklinga af LSH á Kragasjúkrahúsin eftir bráðaþjónustu.

835 milljóna kr. ábati af flutningi allra skurðlækninga af Kragasjúkrahúsum á Landspítalann.

216 milljónir kr. fyrir aðkeypta klíníska sérfræðiþjónustu á St. Jósefsspítala 2008.

21 milljón kr. fyrir aðkeypta klíníska sérfræðiþjónustu á Landspítalanum 2008.

Verkfæri til ákvarðanatökuÁlfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra segir að ekki verði farið í tilflutningá verkefnum milli sjúkrahúsanna á komandi ári. Skýrslan muni engu að síður nýtast stjórnendum vel í þeim niðurskurði sem framundan er. „Ekki verða teknar einhliða ákvarðanir ofan frá um tilflutning verkefna. Menn telja sig geta hagrætt og gert hlutina betur og ódýrar samkvæmt ýmsum þeim leiðum sem bent er á í skýrslunni. Hún er ákveðið verkfæri og varpar nýju ljósi á starfsemi Kragasjúkrahúsanna,“ segir Álfheiður en bendir á að allar tölur í skýrslunni séu frá árinu 2008, eða fyrir bankahrunið. Mikið hafi breyst síðan þá og hátt í 500 milljóna króna niðurskurður orðið á sjúkrahúsunum og álíka mikið verði á næsta ári. „Þessar stóru tölur, sem verið er að horfa á í skýrslunni, eru því ekki raunverulegar. Mikið hefur breyst en samanburðurinn sýnir engu að síður að sjúkrahúsin hafast ólíkt að. Eflaust mun eitthvað af verkefnum flytjast á milli en það verður ekki gert með stóru valdboði að ofan. Reynslan sýnir að slíkum ákvörðunum hefur verið tekið illa, bæði af stjórnendum sjúkrahúsanna, starfsmönnum og ekki síst íbúum og sveitarstjórnum á viðkomandi svæði. Það er ekki merki um pólitískan kjark að efna til stríðs við íbúa og alla hagsmunaaðila eins og þáverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór, gerði í upphafi þessa árs,“ segir Álfheiður.

 

Bara önnur hliðin á peningnumSpurð hvort ráðuneytið verði samt ekki að taka þessar ákvarðanir, til að ná fram raunverulegum sparnaði, segir hún niðurstöður skýrslunnar bara aðra hliðina á peningnum. Eftir sé að skoða t.d. hve miklum verkefnum Landspítalinn geti tekið við, eins og auknum fæðingum, án þess að ráðast í nýframkvæmdir. Ekki sé tekið tillit til slíks kostnaðar í skýrslunni, eða ferðakostnaðar fyrir sjúklinga. Getum bætt við verkefnumBjörn Zoëga, forstjóri Landspítalans, segir það verkefni heilbrigðisráðuneytisins að skipuleggja heilbrigðisþjónustuna í landinu. Skýrslan fjalli um skipulagið og hvernig þjónustan eigi að fara fram. „Mér fyndist eðlilegt að reynt yrði að nýta þessa miklu vinnu og tillögur sem koma fram í skýrslunni. Þarna er bent á að hægt sé að ná fram töluverðum sparnaði í heilbrigðiskerfinu án þess að það komi niður á þjónustu við sjúklinga, og jafnvel gert hana betri,“ segir Björn og telur Landspítalann í stakk búinn til að taka til sín aukin verkefni. Hægt sé að nýta húsnæði, starfsfólk og tæki enn betur en gert sé í dag. Spurður hvort farið verði eftir ábendingum í skýrslunni segist Björn ekki sjá merki þess ennþá, „sem mér finnst miður“. Ákveðið frumkvæði í þessum efnum verði að koma frá heilbrigðisráðuneytinu en það taki að auki sinn tíma að ná fram tilflutningi verkefna milli stofnana. Stórskerða á þjónustunaGuðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður og fv. heilbrigðisráðherra, segir niðurstöðu starfshóps heilbrigðisráðherra ekki koma sér á óvart, hún sé enn ein staðfestingin á hinu augljósa; að ráðast verði í skipulagsbreytingar frekar en að fara í flatan niðurskurð. „Þegar við ætlum að reyna að halda uppi þjónustu á heimsmælikvarða, þá er nauðsynlegt að fara í skipulagsbreytingar í stað þess að fara leið vinstriríkisstjórnarinnar, að vera með flatan niðurskurð. Það mun stórskerða þjónustuna og búa til biðlista sem við höfum ekki séð árum og áratugum saman. Óvíst er hvort það tekst að ná sömu gæðum þjónustunnar ef farið verður í flatan niðurskurð. Sú leið er atlaga gegn sjúklingum og starfsfólki í heilbrigðiskerfinu, sérstaklega á Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þetta snýst um pólitískan kjark og hann er enginn hjá síðustu tveimur heilbrigðisráðherrum,“ segir Guðlaugur Þór


Til baka