Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Þankastrik: Aðstandendur fólks með alvarlegan geðvanda

1. desember2017

Ég vil byrja á því að þakka Helenu Bragadóttur fyrir að skora á mig að skrifa þankastrik og ýta þannig við mér að reyna að skrifa eitthvað annað en skólaverkefni. Í dag starfa ég í bráðateymi geðsviðs þar sem ég sinni bæði vöktum á bráðaþjónustu og skammtímaeftirfylgd eftir bráðakomu. Þessi þankastrik munu fjalla um aðstandendur fólks með alvarlegan tvíþættan vanda og ég mun fjalla um hvernig ég hef skoðað stöðu þeirra bæði í gegnum störf mín á Landspítala og í námi.

Mikilvægt að huga að aðstandendum

Ég var svo heppin að taka fyrstu skref mín innan Landspítala með Helenu og fleiri snillingum á gömlu 12E fyrir rúmum tíu árum. Þar var mikið lagt upp úr því að sjúklingar og aðstandendur þeirra fengju fræðslu bæði við innskrift og útskrift og hversu miklu máli það skipti fyrir bataferlið. Síðan hef ég nýtt nokkur verkefni bæði í grunn- og framhaldsnámi mínu til að skoða hlutverk aðstandenda almennt á þeim deildum sem ég hef unnið á hverju sinni. Á bráðamóttökunni í Fossvogi skoðaði ég möguleikann á viðveru aðstandenda í endurlífgun. Á sérhæfðu endurhæfingunni inni á Kleppi skoðaði ég hvaða afleiðingar það getur haft í för með sér að vera aðstandandi einstaklings með alvarlegan geðrofssjúkdóm og vímuefnavanda. Þar var ég svo heppin að fá tækifæri til að tileinka mér fjölskylduhjúkrun og læra grunnaðferðir í hugrænni atferlismeðferð. Þarna fékk ég líka tækifæri til að kynnast betur ákveðnum aðstandendahóp sem er í sérstakri hættu á að fá álagstengd heilsufarsvandamál og hef haft augastað á þeim hóp síðan.

Þegar ég var komin áleiðis í diplómanámi í geðhjúkrun var ég að vinna bæði á fíknigeðdeild og bráðaþjónustu geðsviðs. Þá fékk ég tækifæri til að fylgja eftir tveimur aðstandendum á fíknigeðdeild og öðrum tveimur á bráðaþjónustu geðsviðs. Á fíknigeðdeildinni valdi ég handahófskennt aðstandendur einstaklinga með vímuefnavanda sem höfðu greinst með geðrofssjúkdóm. Á bráðaþjónustunni valdi ég aðstandendur einstaklinga með geðrofseinkenni og vímuefnavanda þar sem grunur var um geðrofssjúkdóm. Þeir höfðu leitað á bráðavaktina vegna ýmissa ástæðna og var vísað í eftirfylgd eftir bráðakomu. Ég sinnti þeirri eftirfylgd sem fólst í stuðning í gegnum kreppu. Hjúkrunarmeðferðin, sem ég veitti í tengslum við verkefnið, var skipulögð gagnreynd fræðsla og virk hlustun. Allir fjórir aðstandendurnir áttu það sammerkt að þjást af álagstengdum heilsufarsvandamálum, svo sem kvíða, svefntruflunum, einangrun og forðun. Þau einkenni mátti í öllum tilvikum rekja til þess hlutverks sem þeir sinna. Það var einnig samhljómur á milli þeirra í lok meðferðar þegar við fórum yfir hvað hefði gagnast þeim. Þeir minntust á að það hefði hjálpað mest að fá skriflega fræðslu um úrræði, afleiðingar þess að vera í þessu hlutverki, auk viðurkenningar á eigin líðan og reynslu. 

 

Mikilvægi fræðslu í upphafi veikinda

Fræðin segja okkur að aðstandendur einstaklinga með alvarlegan geðvanda og vímuefnavanda séu í mikilli hættu á að lenda í geðvanda og álagstengdum heilsufarsvandamálum og í raun draga úr eigin lífslíkum. Ef hægt er að fullnægja geðheilbrigðisþörfum þeirra snemma í ferlinu aukast batalíkur þess veika og jafnframt lífsgæði aðstandendanna sjálfra. Það er því bæði hagkvæmt fyrir einstaklinginn, aðstandendur hans, heilbrigðiskerfið og í raun þjóðfélagið í heild sinni. Fræðin styðja einnig reynslu mína í starfi og niðurstöður verkefnanna þar sem fræðsla er mikilvæg snemma í veikindum sjúklingins. Sú fræðsla þarf að vera bæði skrifleg og munnleg þar sem erfitt getur verið fyrir aðstandendur að muna hvaða úrræði eru í boði, hvert skal leita og hvað ber að varast.

Aðstandendur geta veitt mikilvægar upplýsingar um líðan sjúklingsins fyrir veikindin, um veikindaferlið sjálft, versnun á einkennum og ekki síst merki um bata.


Það væri svo frábært ef allir fagaðilar, sem hugsanlega sinna þjónustu við þessa aðstandendur, séu meðvitaðir um að fræða þá um álagstengd vandamál sem fram geta komið. Bara það að nefna einkenni eins og svefnleysi, kvíða, forðun, þyngdartap, einangrun, reiði og samviskubit getur styrkt aðstandandann og auðveldað honum að taka skrefið í að leita sér aðstoðar. Einnig má hafa í huga þátttöku þeirra í bráðakomum og innlögnum og hversu mikilvæg hún getur verið. Aðstandendur geta veitt mikilvægar upplýsingar um líðan sjúklingsins fyrir veikindin, um veikindaferlið sjálft, versnun á einkennum og ekki síst merki um bata. Auk þess geta þeir oft og tíðum verið stuðningur fyrir bæði sjúklinginn og starfsfólk hvað samskipti varðar. Ég held það sé einnig mikilvægt að hafa í huga að það verður oft ákveðinn hlutverkaruglingur hjá þessum aðstandendum sem eru komnir í hlutverk umönnunaraðila en eru jafnframt fjárhagslega og félagslega bundnir sjúklingnum. Það er því ljóst að það er margt sem þarf að huga að en margt smátt gerir eitt stórt og bara það að benda á félagasamtök sem sinna aðstandendum getur komið fólki á sporið í átt að bættum lífsgæðum.

Ég vil skora á Hrönn Stefánsdóttur, verkefnastjóra Neyðarmóttöku nauðgana að skrifa næsta þankastrik.

Höf. Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir

Pistlar og viðtöl

Forvarnir og fræðsla

Geðrækt

Gjörgæsla og bráða

Samskipti

Stuðningur

Pistlar

Til bakagreinasafn

Pistlar og viðtöl

Þegar er hafin vinna fyrir komandi kjarasamninga hjá Fíh og er nauðsynlegt að vanda undirbúning þeirrar vinnu vel. Rafræn könnun verður send út núna í nóvember til starfandi hjúkrunarfræðinga og óskað eftir þeirra viðhorfum og væntingum.

Nánar

Fagið

Pistlar

Í mars síðastliðnum fór fram námskeið í öruggri lyfjaumsýslu. Námskeiðið var haldið á Laugarvatni á vegum MEDICO-hópsins (nordic Medication Educators’ Collaboration) sem er hópur kennara í hjúkrunarfæði á norðurlöndunum og Eistlandi.

Nánar

Pistill formanns

Félagið

Starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga einkennist mjög af því að hjúkrunarfræðinga vantar til starfa á nánast öllum sjúkrahúsum, heilbrigðisstofnunum, hjúkrunarheimilum og á heilsugæslustöðvum á landinu

Nánar

Fræðigreinar

 • Notkun interRAI-upphafsmats til að meta þjónustuþörf í heimahjúkrun og félagslegri heimaþjónustu

  Ingibjörg Hjaltadóttir og Hallveig Skúladóttir

  Mikil fjölgun í hópi þeirra sem vilja búa í sjálfstæðri búsetu þrátt fyrir versnandi heilsufar og óska eftir þjónustu heimahjúkrunar gefur tilefni til þess að skoða kosti þess að nota samræmt matstæki, eins og interRAI-matstækið (Resident Assessment Instrument) sem metur heilsufar, færni og þjónustuþörf þjónustuþega.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Athafnir og þátttaka eldri borgara

  Margrét Brynjólfsdóttir, Guðrún Pálmadóttir og Sólveig Ása Árnadóttir

  Árið 2013 voru 13,6% íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum 65 ára eða eldri. Tilgangur verkefnisins var að rannsaka athafnir og þátttöku í daglegu lífi meðal heimabúandi eldri borgara á þessu svæði.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Endurskilgreining á lífi og sjálfi: Reynsla yngra fólks af því að fá hjartaáfall

  Birna Gestsdóttir, Árún K. Sigurðardóttir og Sigríður Halldórsdóttir, Heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri

  Lítið er vitað um reynslu „yngri“ Íslendinga af því að fá hjartaáfall. Tilgangur rannsóknarinnar var að auka þekkingu hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstétta á þeirri lífsreynslu að fá hjartaáfall „ungur“ svo að hægt sé að veita þessum sjúklingahóp viðeigandi hjúkrun og þjónustu.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Mat hjúkrunarfræðinga sem sjá um bráðatilvik á landsbyggðinni á eigin hæfni

  Íris Kristjánsdóttir og Herdís Sveinsdóttir

  Bráðamóttökum landsbyggðarinnar er ætlað að veita skammtímabráðaþjónustu sjúklingum sem hafa slasast eða veikst alvarlega. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvernig hjúkrunarfræðingar landsbyggðarinnar, sem taka á móti og sinna bráðveikum og slösuðum sjúklingum, meta hæfni sína.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Reynsla fólks af auknum þroska í kjölfar sálrænna áfalla

  Hulda Sædís Bryngeirsdóttir og Sigríður Halldórsdóttir
  Rannsóknir á afleiðingum sálrænna áfalla hafa aðallega beinst að neikvæðum afleiðingum þeirra. Tilgangur þessarar rannsóknar var að auka þekkingu og dýpka skilning á reynslu fólks af sálrænum áföllum og auknum þroska í kjölfar þeirra.

  Fagið

  Ritrýnd grein

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála