Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

„Þá var tabú að tala opinskátt um dauðann“

25. janúar 2018

„Það mátti í raun ekki tala um þetta, hugmyndir voru um að öll umræða um dauðann vekti hræðslu,“ segir Bryndís Konráðsdóttir þegar hún rifjar upp þann tíma þegar hún hóf að kynna líknarmeðferð hér á landi á níunda áratug síðustu aldar. „Það voru ýmis ljón á veginum sem enginn skilur í dag.“ 

„Óttinn um að tal um dauðann myndi hræða bæði sjúklinga og aðstandendur var ástæðulaus, frekar var það kærkomin og þörf umræða enda dauðinn órjúfanlegur hluti af lífinu.“

Áhugi Bryndísar á líknarmeðferð kviknaði þegar hún fór á ráðstefnu um ákveðna hugmyndafræði sem kallaðist „Hospice“ á vegum Krabbameinsfélagsins í Bretlandi árið 1985. Þessi hugmyndafræði hafði verið að þróast þar og víðar frá árinu 1965 og mörg „líknarheimili“ tilkomin ásamt tengdri þjónustu við sjúklinga og aðstandendur. Árið eftir er hún ásamt Hjördísi Jóhannsdóttur ráðin til Krabbameinsfélagsins fyrir tilstuðlan Snorra Ingimarssonar læknis og forstjóra til að undirbúa þá starfsemi sem varð kölluð Heimahlynning. Hún segir óskir hafa komið fram á þessum tíma um að gera mikið veikum og dauðvona sjúklingum mögulegt að vera lengur heima og jafnvel deyja heima. Til þess þurfti að setja saman þverfaglegan hóp fagfólks svo hægt væri að sinna sjúklingum og aðstandendum þeirra sem best. „Við byrjuðum hægt og rólega að kanna þörfina og studdumst alfarið við áðurnefnda „Hospice“ hugmyndafræði. Við héldum ráðstefnur og fundi og mikil umræða varð um það að vera dauðvona og að annast deyjandi einstaklinga og ljóst að áhuginn var mjög mikill, bæði meðal skjólstæðinga og fagfólks. Óttinn um að tal um dauðann myndi hræða bæði sjúklinga og aðstandendur var ástæðulaus, frekar var það kærkomin og þörf umræða enda dauðinn órjúfanlegur hluti af lífinu.“

Fyrsti vísirinn að einstaklingshæfðri hjúkrun

Bryndís útskrifaðist úr Hjúkrunarskóla Íslands 1974 og úr Nýja hjúkrunarskólanum 1980 sem þá veitti sérfræðiréttindi í hjúkrun. „Eftir útskrift þaðan fer ég sem deildarstjóri á Landakot sem þá skartaði öllum sérsviðum venjulegs spítala. Þar var Guðrún Marteinsson hjúkrunarforstjóri og var hún með margar góðar hugmyndir um hvernig við ættum að þróa áfram starf okkar sjúklingum til góða. Þar settum við upp að ég held fyrsta vísi að einstaklingshæfðri hjúkrun, og það var mjög skemmtilegt, og einnig var gerð tilraun með að fylgja sjúklingum eftir heima til að flýta fyrir útskriftum,“ segir Bryndís.

Mikil þörf á heimahlynningu

Reynslan af Landakoti markaði leiðina í þeirri þróun sem átti sér stað í Heimahlynningu. „Við byggðum upp einstaklingsmiðaða þjónustu og stuðningsþjónustu við aðstandendur eftir andlát ástvinar og héldum mánaðarlega fundi auk sértækra námskeiða, t.d. fyrir ungar ekkjur, ekkla og unglinga. Snemma í ferlinu þurftum við að huga að sólarhringsþjónustu bæði lækna og hjúkrunarfræðinga og Rauði krossinn lagði til fjármagn til könnunar á þörf fyrir slíka þjónustu,“ segir Bryndís. „Þetta var auðvitað ansi erfitt á tímabilum því ekki voru allir sáttir við þessa opnu umræðu um dauðann en það var ljóst að skjólstæðingar kölluðu ákaft eftir þjónustunni og uppskárum við yfirleitt mikið þakklæti og velvilja til að halda áfram. En við gátum aldrei tekið að okkur alla þá sem sóttust eftir þjónustunni.“ Skemmst er frá því að segja að starfsemin óx og dafnaði samhliða aukinni umræðu og þörf og segir Bryndís Heimahlynningu hafa allt frá upphafi notið þess að laða að sér gott fólk. „Þarna sló hjarta mitt í ein 18 ár og mér er mikil ánægja að fylgjast með þessu „barni“ sem er svo sannarlega orðið fullorðið og hefur þroskast vel.“

Líknardeildin var fyrst opnuð árið 1999 og man Bryndís eftir miklum vangaveltum um hvort ekki mætti kalla hana eitthvað annað en líknardeild því það vildi örugglega enginn leggjast inn 

Bryndís tók síðan þátt í að undirbúa opnun líknardeildarinnar og kynntist þar að hennar sögn frábærri og óeigingjarnri vinnu félaga Oddfellow-reglunnar sem fjármagnaði algerlega framkvæmdina og lögðu félagar innan reglunnar fram mikla sjálfboðavinnu í löngu þróunarferlinu. Líknardeildin hefur einnig vaxið og dafnað eins og þekkt er og áfram í skjóli Oddfellowa. „Þeir eiga mikinn heiður skilið fyrir sitt framlag.“ Líknardeildin var fyrst opnuð árið 1999 og man Bryndís eftir miklum vangaveltum um hvort ekki mætti kalla hana eitthvað annað en líknardeild því það vildi örugglega enginn leggjast inn á slíka deild. Raunin hefur sannarlega orðið önnur, „enda líkn ákaflega fallegt orð,“ segir hún.

Frumkvöðlastarf í hjúkrun

Það er óhætt að segja að Bryndís hafi unnið mikið frumkvöðlastarf í hjúkrun en eftir að hún hætti að vinna við Heimahlynningu 2004 varð hún forstöðumaður á Sjúkrahóteli Rauða krossins og vann við að þróa þá starfsemi. Þar var búið að ráða inn hjúkrunarfræðinga til að auka þjónustuna þannig að sjúklingar gætu útskrifast fyrr þó þeir kæmust ekki heim. Sjúkrahótelið var þá á Rauðarárstíg en flutti síðar í Ármúla. Árið 2016 ákváðu Sjúkratryggingar Íslands að ekki væri ástæða til að hafa hjúkrunarþjónustu þar lengur og var sú þjónusta því aflögð. Bryndís segist hafa verið ósammála þeirri ákvörðun enda hafi hún ávallt verið þeirrar skoðunar að hjúkrun sé mikilvægur þáttur á sjúkrahóteli. Nú bíður hún með eftirvæntingu eftir því að sjúkrahótelið verði opnað á lóð Landspítala og óskar þess að það muni þjóna sem flestum sem þurfa aðstöðuna og þjónustuna sem Landspítalinn stefnir að og hefur lengi barist fyrir. Hún vinnur nú á Landakoti og nýtur þess að sinna öldruðum á útskriftardeildinni. „Ég ákvað að færa mig bara nær mínum aldursflokki,“ segir hún. Aðspurð hvort hún hafi alltaf ætlað sér að fara í hjúkrun svarar hún því til að það hafi nú verið frekar tilviljun en ásetningur. „Ég var ekki búin að ganga um með það í maganum að verða hjúkrunarfræðingur. Það sem réð því var að nokkrar skólasystur úr Kvennaskólanum fóru og ég gerði bara slíkt hið sama,“ segir Bryndís.

Undanfarin ár hefur áhugi hennar á myndlist vaxið og hún gerir nokkuð af því að kaupa listaverk eftir unga myndlistarmenn. 

Bryndís, sem er 65 ára gömul, segir samskipti við ólíkt fólk vera eitt það skemmtilegasta við hjúkrunarstarfið, og þá miklu fjölbreytni sem starfið bjóði upp á og það að ryðja nýjar brautir og það hefur Bryndís svo sannarlega gert á starfsævi sinni. Hún hefur alið upp þrjár dætur og á stækkandi hóp barnabarna sem veita henni mikla gleði. Fyrir utan vinnu hefur hún unun af því að elda góðan mat og baka og gera tilraunir í eldhúsinu og fara í leikhús og á tónleika. Undanfarin ár hefur áhugi hennar á myndlist vaxið og hún gerir nokkuð af því að kaupa listaverk eftir unga myndlistarmenn. Þar fyrir utan er hún á faraldsfæti á erlendri grundu og hefur mikið dálæti á Ítalíu og á döfinni er ferð til Víetnam í góðra vina hópi. 


Fagleg málefni

Hjúkrun

Líkn og lífslok

Saga

Hjúkrunarfræðingurinn

Til bakagreinasafn

Efst á baugi

Pistill formanns

Það er alltaf gott að sjá góða umræðu um störf okkar, kjarabaráttu og stefnu, enda er þetta félagið okkar allra og við eigum að láta í okkur heyra og hafa skoðanir.

Nánar

Pistill formanns

Þann 28. febrúar síðastliðinn hélt Fíh málþing um starfsumhverfi, álag í starfi og laun og kjör hjúkrunarfræðinga á hótel Natura.

Nánar

Börn og unglingar

Hjúkrun

Hjúkrunarfræðingurinn

Hildur Ey Sveinsdóttir ætlaði aldrei í hjúkrun. "Ég ætlaði að fara í mannfræði og stúdera ættbálka í Afríku. Þegar ég komst svo að því að fæstir mannfræðingar störfuðu sem slíkir, fór ég að hugsa minn gang og sá að hjúkrun gæti kannski verið svolítið sniðug og kom allri fjölskyldunni minni á óvart þegar ég tilkynnti að ég hefði sótt um hjúkrun í HA."

Nánar

Fræðigreinar

 • Vellíðan skjólstæðinga og starfsfólks á hjúkrunarheimili með trúarlegri aðstoð

  Þjónusta djákna snýst um nærveru og samfylgd við fólk, að vera með fólki á tilteknu tímabili í lífi þess, að vera til staðar í gleði og sorg. Djákni Sóltúns er hluti af öflugu teymi starfsmanna. Hann sinnir sálgæslu íbúa, aðstandenda og starfsfólks í samræmi við gildi kristinnar kirkju, hugmyndafræði, markmið og gæðakerfi heimilisins.

  Fagið

  Hjúkrunarheimili

  Líkn og lífslok

  Stuðningur

  Öldrun

  Faggrein

 • Margnota búnaður á heilbrigðisstofnunum er varasamur sjúklingum

  Á heilbrigðisstofnunum er margt sem getur haft áhrif á öryggi sjúklinga. Eitt af því er hætta á sýkingum sem geta leitt til alvarlegri veikinda og lengri dvalar á sjúkrahúsum, aukins kostnaðar og jafnvel valdið dauða.

  Fagið

  Sýkingar og smit

  Öryggi

  Faggrein