Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Frá formanni

RSSfréttir
13. júní 2015

Kæru hjúkrunarfræðingar,


Nú hefur Alþingi Íslendinga sett lög sem gera það að verkum að verkfall okkar félags er nú óheimilt og við mætum aftur til starfa. Síðustu tvær vikur hafa verið okkur erfiðar og reynt bæði á hjúkrunarfræðinga og skjólstæðinga okkar. Niðurstaða Alþingis er vissulega vonbrigði og tekur af okkur lýðræðislegan og sjálfsagðan samninga- og verkfallsrétt. Það ljós er þó að sjá í þessu að nú fá sjúklingar þá þjónustu sem þeir þarfnast og eiga skilið.

Ég verð að hrósa stéttinni fyrir frábæra samstöðu. Slíkan hug hef ég ekki fundið hjá hjúkrunarfræðingum í lengri tíma. Einhugur okkar og ákveðni var til fyrirmyndar og öll umfjöllun okkar málefnaleg og vel rökstudd.

Baráttunni er ekki lokið þar sem enn er ekki komin niðurstaða í kjarabaráttu okkar þrátt fyrir lagasetningu. Við munum sækja áfram með þær kröfur að hjúkrunarstarfið verði samkeppnishæft við önnur störf háskólamenntaðra og hér sé farið í þá vinnu að útrýma kynbundnum launamun. Við verðum að berjast fyrir eflingu heilbrigðiskerfisins á Íslandi. 

Ég vona að samstaða hjúkrunarfræðinga haldi áfram að vaxa, sameinuð erum við óstöðvandi. 

Baráttukveðjur, 

Ólafur

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála