Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Ályktun aðalfundar Hjúkrunarráðs Landspítala

RSSfréttir
26. október 2017

Aðalfundur Hjúkrunarráðs Landspítala samþykkti eftirfarandi ályktun þann 25. október 2017. Ályktunin hefur verið send send Benedikti Jóhannessyni, fjármála- og efnahagsráðherra og Óttari Proppé, heilbrigðisráðherra.

Aðalfundur Hjúkrunarráðs Landspítala ályktar um skort á hjúkrunarfræðingum og skorar á stjórnvöld að auka fjárframlög til spítalans til að sporna við þeim skorti

Hjúkrunarráð Landspítala fagnar nýútgefinni skýrslu Ríkisendurskoðunar sem varpar skýru ljósi á þann vanda sem ráðið hefur um langt skeið bent á. Nú þegar vantar um 570 hjúkrunarfræðinga til starfa í íslenska heilbrigðiskerfið og mun fimmtungur starfandi hjúkrunarfræðinga öðlast rétt til eftirlauna á næstu þremur árum. Forstjóri spítalans segist geta ráðið 200 hjúkrunarfræðinga til starfa þegar í stað. Bæði vantar hjúkrunarfræðinga til að sinna sjúklingum beint en einnig til að sinna umbóta- og gæðastarfi á spítalanum.

Rannsóknir sýna að skortur á hjúkrunarfræðingum hefur neikvæð áhrif á gæði og öryggi þjónustu. Sýnt hefur verið fram á bein tengsl milli lélegrar mönnunar hjúkrunarfræðinga og aukinnar dánartíðni sjúklinga. Við stöndum frammi fyrir mikilli ógn við öryggi sjúklinga eins og staðan er í dag. Við óttumst að ástandið muni versna enn frekar.

Það kann að hljóma sjálfsagt að greina þurfi þjónustuþarfir þegar fjárframlög til þjóðar- og háskólasjúkrahúss eru ákveðin. Tugir rúmstæða standa auð eða eru lokuð á Landspítalanum þar sem enginn er til að manna vaktir hjúkrunarfræðinga. Illa gengur að stytta biðlista, sjúklingar bíða innlagnar á bráðamóttökum á meðan hjúkrunarfræðingar á legudeildum sinna um 75% fleiri sjúklingum en hjúkrunarfræðingar á erlendum samanburðarsjúkrahúsum. Fresta þarf aðgerðum vegna skorts á hjúkrunarfræðingum og göngu- og dagdeildarþjónusta getur ekki vaxið eins og eftirspurn krefur. Þörfin er því mun meiri en sú þjónusta sem starfandi hjúkrunarfræðingar hafa bolmagn til að veita dag. Framkvæmdastjórn spítalans hefur ár eftir ár bent á að fjárframlög til spítalans er ófullnægjandi og svigrúm til bæta mönnun hjúkrunarfræðinga er ekkert.

Fulla alvöru þarf að setja í aðgerðir til að sporna við skorti á hjúkrunarfræðingum. Fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar að brýn þörf sé á markvissri stefnumótun stjórnvalda til að tryggja næga nýliðun hjúkrunarfræðinga og lágmarka brotthvarf.

Vinnutími karlastétta í vaktavinnu á Íslandi er víða styttri en vinnutími hjúkrunarfræðinga í vaktavinnu, til dæmis hjá lögreglunni og stóriðjunni. Getur þar munað um 10% eða tveimur vinnudögum í mánuði. Framkvæmdastjórn Landspítala hefur sett saman aðgerðaráætlun til að bæta starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga almennt, meðal annars með því að minnka vaktabyrði og bæta kjör. Slíkar aðgerðir eru kostnaðarsamar. Í fjármálaáætlun síðustu ríkisstjórnar kom fram að á næstu fimm árum ætti að verja 3,8 milljörðum króna í að fjölga heilbrigðisstarfsfólki á Landspítala. Framkvæmdastjórn spítalans telur sig þurfa um 600 milljónir til að geta komið fyrrgreindum aðgerðum í framkvæmd, en var í síðustu fjárframlögum úthlutað 60 milljónum til verkefnisins. Viðeigandi og löngu tímabærar aðgerðir eru því enn ógerlegar.

Heilbrigðisráðherrar síðustu tveggja ríkisstjórna hafa á fundi stjórnar hjúkrunarráðs Landspítala lýst yfir skilningi á vandanum og vilja til úrbóta en jafnframt greint frá því að fjármagnið sé ekki á þeirra höndum. Slík svör heilbrigðisráðherra eru ólíðandi. Heilbrigðiskerfi er ekki rekið án fjármagns. Heilbrigðiskerfi er ekki rekið án mannauðs, þekkingar og reynslu. Heilbrigðiskerfið er ekki rekið án hjúkrunarfræðinga.
Hjúkrunarráð Landspítala skorar á ráðamenn þjóðarinnar að taka ábyrgð og veita fjárframlög til Landspítala í samræmi við umfang starfsemi og þjónustuþarfir sjúklinga.

 

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála