Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Yfirlýsing frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga vegna kjaradeilu ljósmæðra

RSSfréttir
4. júlí 2018

„Aðferðir Íslendinga til þess að ná fram niðurstöðu í kjaradeildum eru meingallaðar“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í fréttum Stöðvar 2 þann 3. júlí þegar rætt er við hann um þá alvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaradeildu ljósmæðra. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga skorar á fjármálaráðherra og samninganefnd ríkisins sem starfar í hans umboði að beita sér af alvöru í því verkefni að koma fram með nýjar og betri aðferðir við að semja við heilbrigðisstéttir um launakjör.

Staðreyndirnar tala sínu máli, heilbrigðismenntaðar kvennastéttir sem vinna vaktavinnu að stórum hluta hjá hinu opinbera eru með lægri dagvinnulaun en aðrir hópar sem þar starfa. Stór hluti heildarlauna er tilkominn vegna greiðslu fyrir vinnu utan dagvinnutíma. Yfirvinna er að öllu leyti unnin. Meðaltalstölur sem fjármálaráðuneyti birtir um laun ríkisstarfamanna miðast við laun fyrir fullt starf. Einungis lítill hluti heilbrigðismenntaðra kvennastétta í vaktavinnu vinna fullt starf og því gefa þessar tölur ekki rétta mynd. Starfsumhverfi, vinnutímaskipulag og álag í starfi gerir það að verkum að ljósmæður, hjúkrunarfræðingar og aðrar heilbrigðismenntaðar kvennastéttir sem vinna vaktavinnu treysta sér ekki til þess að vera í háu starfshlutfalli. Meðaltals starfshlutfall er einungis 70-80% og hefur farið lækkandi á síðustu árum. Hugmyndir og leiðir til þess að snúa þessari þróun við hafa ekki verið lagðar fram til umræðu. Allri viðleitni Fíh til þess að ræða þessi mál við íslensk stjórnvöld á síðustu árum hefur verið fálega tekið. Þegar kemur að því að greiða yfirvinnu á heilbrigðisstofnunum virðist vera nægjanlegt fjármagn, en þegar kemur að hækkun dagvinnulauna virðast peningarnir yfirleitt ekki vera til. Þessu þarf að breyta.

Ljósmæður eru að hætta stöfum, uppsagnir hafa tekið gildi og eru fleiri uppsagnir yfirvofandi.  Fíh hefur horft upp á það í lengri tíma að hjúkrunarfræðingar eru að hætta í starfi, fara í önnur betur launuð störf og sífellt fleiri vantar til starfa. Skrifaðar hafa verið skýrslur m.a. af Fíh og Ríkisendurskoðun um málið þar sem lagðar eru til leiðir til að bregðast við en lítið ber á raunverulegum aðgerðum til þess að breyta þessu ástandi. Það sama virðist vera að gerast hjá ljósmæðrum.

Íslensk stjórnvöld bera ábyrgð á því að landsmenn njóti fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu. Ljósmæður eiga stóran hlut í þeim árangri sem náðst hefur á síðustu áratugum í ungbarna- og mæðravernd. Þeim árangri er stefnt í hættu með aðgerðarleysi íslenskra stjórnvalda. Staðan er grafalvarleg og skorar Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga því á fjármálaráðherra og samninganefnd ríkisins að ganga nú þegar til samninga við ljósmæður.
Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála