Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Starfið hefur gefið lífsfyllingu sem erfitt er að útskýra

RSSfréttir
18. janúar 2019

Ellen Björnsdóttir hefur óbilandi áhuga á fólki og mikla ánægju af að spá í margbreytileika þess. Hún útskrifaðist frá Hjúkrunarskóla Íslands 1978 og hefur unnið við fagið allar götur síðan. Eftir að byrjað var að kenna hjúkrunarfræði á háskólastigi settist hún aftur á skólabekk og útskrifaðist með BS-próf árið 2002. „Ég hlakka alltaf til að mæta í vinnuna,“ segir hún, enda starfið alltaf verið eitt af hennar áhugamálum.

Draumurinn rættist 51 ári síðar 

Ellen, sem er á 64. aldursári, hefur starfað á Slysa- og bráðadeildinni nánast allan hennar starfsaldur og er í hópslysateymi Bráðamóttökunnar í Fossvogi. Fjölbreytileikinn á vel við hana en á deildinni fer fram þverfagleg hjúkrun. „Fjölbreytileikinn er endalaus, verkefnin krefjandi, óvæntar aðstæður, jafnvel mjög viðkvæmar og þar hittir maður oft á tíðum fólk við sínar verstu aðstæður, berskjaldað og aumt. Að sinna slíkum verkefnum, faglega og vel, er alltaf mitt markmið og í gegnum tíðina hefur starfið því gefið mér mikla lífsfyllingu sem erfitt er að útskýra.“ Hún segir að þar starfi hópur af metnaðarfullu, harðduglegu og skemmtilegu fólki sem leggi sig á hverjum tíma 100% fram í þágu annarra. „Það er þetta fólk sem hefur haldið mér í þessari vinnu og á tánum í öll þessi ár og gert vinnuumhverfið metnaðarfullt og skemmtilegt.“

Ellen ákvað ung að aldri að fara í hjúkrun. „Þegar ég var sex ára þurfti ég að fara í aðgerð og varð innlyksa á sjúkrahúsinu vegna snjóþyngsla og komst ekki heim. Á sjúkrahúsinu voru frábærir hjúkrunarfræðingar sem sinntu mér svo vel og þar ákvað ég að þetta væri framtíðar vinnan. Þá ákvað ég einnig að ég vildi vinna við hjálparstörf og sá draumur rættist fimmtíu og einu ári síðar.“

Frá hjúkrun við kvikmyndagerð til hjálparstarfa í Bangladesh

Sem hjúkrunarfræðingur hef ég fengið endalaus tækifæri til að nýta menntun mína segir Ellen. Hún segist til að mynda unnið sem hjúkrunarfræðingur „á setti” við kvikmyndir og þætti á vegum erlendra kvikmyndafyrirtækja. „Þar bar ég ábyrgð á heilsu og heill 2-300 manna hóps.“ Hún hefur einnig unnið við hjúkrun á virkjunarsvæði og frá árinu 2012 hefur hún verið hjúkrunarfræðingur á Veraldarvakt Rauða Krossins. Þar hefur hún meðal annars fengið tækifæri til að fara til Nepal og Bangladesh. Að sögn hennar útheimtir vinna við fábrotnar og erfiðar aðstæður eins og þar að hver og einn vinni sjálfstætt í þeirri hópvinnu sem fram fer. „Þú þarft að vera mjög þrautseigur, lausnamiðaður og oft á tíðum að hugsa út fyrir boxið til að ná árangri,“ segir hún. En hjúkrunarmenntunin og reynslan af Bráðamóttökunni er drjúg og hefur komið sér vel í erfiðum vinnuaðstæðum.


Öll sú reynsla sem Ellen hefur öðlast í gegnum hjúkrun hefur haft víðtæk áhrif á viðhorf hennar til lífsins og hennar sjálfra sem manneskju


Ellen á stóra fjölskyldu sem hún reynir að rækta eftir fremsta megni en að sögn hennar er hún hamingjusamlega fráskilin og móðir sex barna, þeirra Söru, Dagbjartar, Sólrúnar, Ásu, Gabríelu og Davíðs. Þar að auki á hún þrjá frábæra tengdasyni og ellefu barnabörn sem hún er ákaflega stolt af. „Svo á ég stóran frábæran vinahóp sem ég hitti reglulega, fer með í göngur um Ísland og ferðalög erlendis. Ég elska að fara á kaffihús, eiga tíma með sjálfri mér og skrifa í bókina mína góðu hugleiðingar og þanka dagsins.“ 

Öll sú reynsla sem Ellen hefur öðlast í gegnum hjúkrun hefur haft víðtæk áhrif á viðhorf hennar til lífsins og hennar sjálfra sem manneskju. „Sá þroski sem ég hef öðlast í gegnum starfið hefur vonandi einnig skilað sér til barnanna minna í gegnum árin sem þau síðan geta nýtt sér í leik og starfi.“

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála