Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Hjúkrun er eitt göfugasta starf sem til er

RSSfréttir
15. mars 2019

Það var ekki um margt að velja þegar Pálína Skjaldardóttir ákvað að fara í framhaldsnám eftir að hún hafði lokið námi í grunnskóla við Lindargötuskólann. Pálína hóf nám í Nýja hjúkrunarskólanum og útskrifaðist í desember 1978, eða fyrir rúmum 40 árum. Hún er afar sátt við þá ákvörðun og hefur alltaf fundist gaman að fara í vinnuna, enda telur hún hjúkrun vera eitt göfugasta starf sem til er. „Það er borin virðing fyrir hjúkrunarfræðingum í samfélaginu og ég er stolt af því að tilheyra þeim hópi.“

„Það leiðist engum í Vestmannaeyjum“

Pálína, sem er á 64. aldursári, hóf störf á augndeild Landakotsspítala eftir útskrift, sem jafnframt var þá blönduð lyf- og handlæknisdeild. Þar kynntist hún störfum St. Jósepssystra og segist hafa lært mikið af þeim. Í framhaldi af því flutti hún sig um set á sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum og starfaði þar í tvö ár. Fjölbreytnin var þar í fyrirrúmi, en þar fékkst hún m.a. við kistulagningu, vinnu á skurðstofu og aðstoð á slysa- og fæðingardeild. „Þetta var mjög fjölbreytt og einkar skemtilegt starf. Seinna vann ég líka við heilsugæsluna í einn vetur. Það leiðist engum í Vestmannaeyjum.“

Hún flutti sig síðan um set og vann á Grensásdeild í fimm ár sem að sögn hennar var frábær vinnustaður sem einkenndist af faglegum vinnubrögðum. „Ég hélt að ég væri búin að finna minn stað í hjúkrun en síðan fór ég síðan að vinna á heila-og taugadeild/HNE, sem þá var A-5 á Borgarspítalanum. Þetta var mjög spennandi og góður vinnustaður.“ Hún byrjaði þar að taka aukavaktir á geðdeildinni, eða A-2, og ílengdist þar í fimm ár. „Ég kunni mjög vel við hjúkrunina á geðdeildinni. Þar var hugur minn og áhugi þessi ár og er reyndar enn.“


Hún segir Sóltún vera frábært hjúkrunarheimili þar sem skýr áhersla er lögð á líðan íbúanna og er virðing og persónulegar þarfir vistmanna og aðstandenda þeirra í fyrirrúmi.

Pálína hefur unnið tvö sumur á sjúkrahúsinu í Neskaupstað, önnur tvö á Egilsstöðum, tvö sumur á sjúkrahúsinu í Keflavík og á Reykjalundi í eitt ár. Hún hóf síðan störf á hjúkrunarheimilinu Sóltúni þegar það var opnað 2002 og hefur verið þar síðan. „Það skýrir eflaust áhuga minn á öldrunarhjúkrun, og þó einkum hjúkrun fólks með heilabilun, og þá sérstaklega Alzheimer sjúkdóminn,“ en Pálína hefur verið dugleg að viða að sér þekkingu um sjúkdóminn og sótt erlendar ráðstefnur og heimsótt hjúkrunarheimili á Norðurlöndum og í Evrópu í þeim tilgangi. Hún segir Sóltún vera frábært hjúkrunarheimili þar sem skýr áhersla er lögð á líðan íbúanna og er virðing og persónulegar þarfir vistmanna og aðstandenda þeirra í fyrirrúmi. „Þar hefur verið gott að starfa.“

Sefur úti á palli þegar þegar vel viðrar á sumrin og haustin

Pálína er hamingjusamlega gift Hafliða Kristinssyni og eiga þau fjögur börn saman, en Hafliði á einn son fyrir. „Allt mæt börn og til fyrirmyndar,“ segir hún. Þau eiga sex barnabörn á aldrinum 4-23 ára. Móðir Pálínu en enn á lífi en bæði faðir hennar og tengdaforeldrar eru látin. Fyrir utan brennandi áhuga á framgangi Alzheimersjúkdómsins, hefur Pálína sungið í kór til fjölda ára. Hún syngur um þessar mundir með Léttsveit Reykjavíkur, sem er að hennar sögn stór og fyrirferðarmikill kór með mikinn metnað. „Það syngur enginn í fýlu,“ segir hún. Þar fyrir utan er hún dugleg að fara á tónleika og í leikhús og oftar en ekki með fleiri en eina bók á náttborðinu. Útiveran heillar hana einnig og hefur hún mjög gaman af allri útiveru „og mörg sumar- og haustkvöldin sef ég úti á palli. Og ég hreinlega elska sund.“
Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála