Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Í draumastarfinu sem vefstjóri Heilsuveru

RSSfréttir
20. september 2019

Vinnan hefur alltaf verið eitt af áhugamálum Margrétar Héðinsdóttur hjúkrunarfræðings. Hún hefur komið víða við á starfsferli sínum sem hjúkrunarfræðingur, en hún gegnir nú stöðu vefstjóra Heilsuveru sem er vefur fyrir almenning um heilsu og áhrifaþætti hennar. Vefurinn er samstarfsverkefni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Embættis landlæknis.

Frá því að Margrét útskrifaðist úr Nýja hjúkrunarskólanum 1978 hefur hún unnið á geð- og þvagfæraskurðdeild en frá 1985 hefur hún starfað hjá Heilsugæslunni. Á ellefu ára tímabili kenndi hún í grunnskóla samhliða Heilsugæslunni en frá 1997 hefur hún eingöngu verið þar og sinnt ýmsum störfum.

Nærist á því að byggja upp eitthvað nýtt

Margrét hefur í gegnum árin bætt við sig menntun á ýmsum sviðum eftir vinnu og áhuga. Þar má nefna kennslufræði, endurhæfingu geðsjúkra - eins og það var kallað hér á landi þá segir hún -, vefsíðugerð, kerfisumsjón og fleira. „Ég nærist á því að byggja upp eitthvað nýtt og þróa málin áfram,“ segir hún. Á kennaraárunum tók hún þátt í námsefnisgerð í líffræði og stærðfræði og skrifaði þemaheftið um heilbrigði og menntun - grunnþættir menntunar þegar ný námskrá var gefin út árið 2013. „Ég vann lengi í heilsuvernd skólabarna enda fjölbreytt og krefjandi að vinna í skóla þar sem enginn dagur er eins.“ Á árunum 2000 til 2002 skrifaði hún í samvinnu við Guðrúnu Ólafsdóttur og forrita Ískrá, sjúkraskráðkerfið sem notað er í heilsuvernd skólabarna og var hún kerfisstjóri Ískrár til 2012. „Mér finnst líka gaman að sökkva mér ofan í viðfangsefni barnanna og taka virkan þátt í því,“ segir Margrét. Þrátt fyrir að hún hafi aldrei stundað frjálsar íþróttir var hún formaður frjálsíþróttadeildar ÍR í 13 ár en eitt barna hennar æfir frjálsar. „Það var ótrúlega skemmtilegt og gefandi að taka þátt í því.“

Vinnan eitt af áhugamálunum

Aðspurð af hverju hjúkrun hafi orðið fyrir valinu segir hún einkum tvær ástæður liggja þar að baki. Annars vegar var það atvinnuöryggið, og hins vegar hve gaman henni þykir að vinna með fólki. „Ég hafði aldrei unnið á spítala og viss ekkert hvað ég var að fara út í. Vinnan mín hefur alltaf verið eitt af mínum áhugamálum og það að taka þátt í að þróa fagið áfram - sama hvort ég hef verið að kenna eða vinna við hjúkrun. Það er oft erfitt að draga línu þarna á milli.“

„Starfið mitt í dag er í raun algert draumastarf. Það er ótrúlega skemmtilegt að taka þátt í að byggja upp Heilsuveru. Vinna efni á vefinn með fjölda fólks hér og þar í kerfinu, háskólunum og notendum síðunnar.“
„Starfið mitt í dag er í raun algert draumastarf. Það er ótrúlega skemmtilegt að taka þátt í að byggja upp Heilsuveru. Vinna efni á vefinn með fjölda fólks hér og þar í kerfinu, háskólunum og notendum síðunnar,“ segir Margrét. Hún segir það hafa verið ánægjulegt að geta opnað netspjall fyrir fólkið í landinu og aðstoðað fólk innan kerfis sem er flókið fyrir þá sem ekki þekkja það. „Það skemmtilegasta er að vera í svona miklum tengslum við fólk hér og þar á landinu og taka þátt í að bæta kerfið með því að hlusta á raddir notenda.“

Hleður batteríin í náttúrunni

Útivist og ferðalög eru rauður þráður í lífi Margrétar og nýtur hún þess að ganga úti í náttúrunni, hvort sem það er hér á landi eða erlendis, til þess að hlaða batteríið. Þá hefur hún gaman að hvers kyns handavinnu, svo sem að hekla, prjóna og sauma. „Þá er kollurinn kannski bara á fullu að leysa einhver vinnutengd mál en hendurnar skapa sitt á meðan,“ segir hún. Margrét er gift og á þrjú uppkomin börn og sex barnabörn.


Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála