Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Vellíðan á vinnustað

RSSfréttir
25. september 2019

Í kjölfar #metoo-byltingarinnar ákvað stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga að stofna vinnuhóp um kynbundið og kynferðislegt áreiti og ofbeldi gagnvart hjúkrunarfræðingum á þeirra vinnustöðum. Markmiðið var meðal annars að skoða hvernig félagið ætti að bregðast við . Það er ljóst að kynbundið ofbeldi, áreitni og mismunun á sér stað í heilbrigðiskerfinu rétt eins og annars staðar í samfélaginu, og slíkt á aldrei að líðast.

Vinnuhópurinn skoðaði útgefið efni og skýrslur um málefnið og sendi auk þess fyrirspurn á flesta vinnustaði hjúkrunarfræðinga um hvort til væri stefna og viðbragðsáætlun við kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og kynferðislegri áreitni á viðkomandi vinnustað. Auk þess var óskað eftir upplýsingum um hvernig slík stefna og verklagsreglur væru kynntar starfsmönnum. Af þeim vinnustöðum hjúkrunarfræðinga sem svöruðu þá eru margir sem hafa sett fram stefnu og viðbragðsáætlun samkvæmt áhættumati í vinnuverndarlögum. Mismunandi er þó hve ítarlega slíkt hefur verið gert, eða á hvaða hátt það er kynnt fyrir starfsmönnum.

Ákveðin vitundarvakning varð í kjölfar #metoo byltingarinnar og í kjölfarið urðu mörkin skýrari hvað fellur undir kynferðislegt ofbeldi og kynbundna og kynferðislega áreitni. . Vellíðan á vinnustað er mikilvæg í starfsumhverfi allra og stuðla þarf að gagnkvæmri virðingu starfsmanna í öllum samskiptum. Til þess að svo geti orðið þarf traust, jákvætt viðhorf, umburðarlyndi og jafnræði að vera til staðar. Því miður er það ekki alltaf raunin eins og raun ber vitni.

Mikilvægt er að auka vitund og skilning allra á einelti, kynferðislegu- og kynbundnu áreitni, og öðru ofbeldi sem óheimil eru á vinnustöðum. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hvetur alla hjúkrunarfræðinga sem orðið hafa fyrir einelti, áreitni eða ofbeldi á vinnustað, eða hafa vitneskju um slíkt, að láta slíka hegðun ekki viðgangast. Hafa ber í huga að óásættanleg framkoma gagnvart vinnufélaga er vandamál sem varðar alla á vinnustaðnum. Mikilvægt er að til séu verkferlar til að bregðast við slíkum málum á öllum vinnustöðum hér á landi.

Á vef Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, er að finna upplýsingar um hvað sé óæskileg hegðun og áreiti og hvernig hægt sé að bregðast við.  Auk þess geta starfsmenn kjara- og réttindasviðs Fíh leiðbeint félagsmönnum þegar slík mál koma upp.

 

VELLÍÐAN Í VINNU

 

 


Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála