Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Umsögn um frumvarp til laga

8. desember2003

Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis

Ágúst Geir Ágústsson, nefndarritari

Alþingi

150 Reykjavík.                                                

 

 

8. desember 2003

 

 

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) hefur fengið til umsagnar frv. t. laga um breytingu á lögum nr. 2/1997 um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga.

 

1.gr.

 

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga gerir ekki athugasemd við þá breytingu sem boðuð er í greininni.

 

2. gr.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga leggur til að til viðbótar þeim skilyrðum fyrir aðild að Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga sem fram koma í 2. gr. frumvarpsins komi: Þeir hjúkrunarfræðingar sem starfa við hjúkrun og áttu aðild að sjóðnum við árslok 1996 og órofið síðan, skulu eiga rétt til aðildar að Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga, hefji þeir hjúkrunarstarf við heilbrigðisstofnanir viðurkenndar af heilbrigðisstjórninni eftir 1. janúar 2004, og að þeir haldi réttindum sínum til starfsloka, enda greiði sá launagreiðandi samtímaiðgjald að fullu í Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga.

 

Greinargerð:

Samkvæmt Lögum um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga nr. 2/1997 eiga allir hjúkrunarfræðingar sem vinna hjúkrunarstörf í þjónustu ríkisins eða sveitarfélaga eða aðrar opinberar stofnanir eða heilbrigðisstofnanir sem viðurkenndar eru af heilbrigðisstjórninni og áttu aðild að sjóðnum í árslok 1996, rétt til fullrar aðildar að Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga (LH).  Með fyrirliggjandi frumvarpi er lagt til að nýir launagreiðendur fái ekki aðild að sjóðnum eftir gildistöku laganna.  Aðrir launagreiðendur, þar með taldar sjálfseignarstofnanir, sem hafa fengið aðild að sjóðnum fyrir árslok 2003, halda þó þeirri aðild.

Þegar hjúkrunarfræðingum gafst kostur á að flytja sig úr LH yfir í A-deild LSR um áramótin 1996-1997 kaus stór hluti hjúkrunarfræðinga yngri en 45 ára að flytja sig frá LH.  Virkir sjóðfélagar í LH eru nú um 900 og meðalaldur þeirra 52 ár.  Breytingin sem lögð er til í frumvarpi þessu mun því varða hlutfallslega fáa  hjúkrunarfræðinga í framtíðinni.  Hún kann hins vegar að valda því að hjúkrunarfræðingar sem nú greiða í sjóðinn og hafa hugsað sér að gera það áfram, muni ekki ráða sig til starfa hjá nýjum launagreiðendum.  Stærsti hluti hjúkrunarheimila hér á landi er nú rekinn af sjálfseignarstofnunum.  Gera má ráð fyrir að svo verði áfram.  Verði frumvarp þetta að lögum skekkir það samkeppnisstöðu nýrra sjálfseignastofnana og/eða einkafyrirtækja sem til dæmis munu í framtíðinni reka hjúkrunarheimili.

Rétt er að benda á að stjórn LH hefur ekki samþykkt að taka við iðgjöldum vegna hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá einkaaðilum s.s. læknastofum frá 1987.  Hins vegar hafa sjálfseignarstofnanir t.d. hjúkrunarheimili fengið aðild að sjóðnum fyrir hjúkrunarfræðinga er þar starfa.

Þá er einnig rétt að benda á að þann 4. desember 2003 féll í Hæstarétti dómur í áfrýjunarmáli Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga gegn hjúkrunarfræðingi starfandi fyrir Öldung hf.  Héraðsdómur hafði með dómi þann 11. maí 2003 viðurkennt rétt hjúkrunarfræðingsins til að greiða í Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga.  Með dómi sínum staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu Héraðsdóms.

Með því að gera kröfu um fullar samtímagreiðslur iðgjalda  fyrir þá hjúkrunarfræðinga sem fengju einstaklingsaðild að sjóðnum, verði tillaga Fíh samþykkt, vinnst þrennt: Hjúkrunarfræðingar sem allan sinn starfsferil hafa greitt í LH og eiga skamman starfstíma eftir halda rétti sínum til greiðslna til LH, sjálfseignarstofnunum einkum í öldrunarþjónustu verður ekki mismunað hvað varðar rétt starfandi hjúkrunarfræðinga til aðildar að LH, og tryggt er að lífeyrisskuldbindingar fyrir viðkomandi hjúkrunarfræðinga munu ekki falla á ríkissjóð.

 

 

Virðingarfyllst,

 

 

Fyrir hönd Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga,

 

 

___________________________________

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður

Umsagnir

Kjaramál

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála