Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Umsögn um þingsályktunartillögu

20. apríl 2004

Nefndasvið Alþingis

Austurstræti 8 - 10

150 Reykjavík

     Reykjavík, 20. apríl 2004

Efni: Umsögn um þingsályktunartillögu um nýbyggingu við Landspítala – háskólasjúkrahús, 542. mál. 

Ljóst er að með sameiningu Landspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur var stigið stórt skref til aukinna gæða í sérhæfðri heilbrigðisþjónustu hér á landi.  Sú sameining sérgreina sem þegar hefur átt sér stað hefur ótvírætt sýnt fram á ávinninginn af því að safna á einn stað þeirri sérfræðiþekkingu og sérhæfðum búnaði sem til þarf vegna ólíkra sérhæfðra heilbrigðisvandamála.  Sá einstaki þáttur sem nú stendur í vegi fyrir enn meiri sameiningu sérgreina, enn frekari aukningu í gæðum og enn frekari hagræðingu, er húsnæðisþátturinn.

Að mati Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) er nauðsynlegt að hefja nú þegar undirbúning að byggingu hátæknisjúkrahúss á höfuðborgarsvæðinu, þannig að sem mest af starfsemi LSH komist undir eitt þak.  Vilji yfirvalda virðist vera að slík uppbygging fari fram við Hringbraut.

Nú er að störfum nefnd skipuð af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sem ætlað er að skilgreina hlutverk Landspítala háskólasjúkrahúss og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri.  Einnig á nefndin að fjalla um tengsl þessara stofnana m.t.t. verkaskiptingar við aðra þætti heilbrigðisþjónustunnar s.s. heilsugæslunnar og sjálfstætt rekinna læknastofa.  Nefndinni er ætlað að ljúka störfum vorið 2004.  Það er von Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga að með því nefndaráliti liggi fyrir stjórnvöldum heildstæð tillaga um skipulag heilbrigðisþjónustu á Íslandi, einkum er varðar hina sérhæfðu heilbrigðisþjónustu á LSH og FSA.

Að teknu tilliti til ofangreinds telur Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga tímabært að skipuð verði nú þegar sérstök bygginganefnd sem hefji undirbúning nýbyggingar LSH.  Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga fagnar því fram kominni þingsályktunartillögu og tekur undir þau rök fyrir skipaninni sem fram koma í greinargerð með þingsályktunartillögunni.

Virðingarfyllst,

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður

Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

Umsagnir

Landspítali

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála