Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Umsögn um drög að frumvarpi til laga

17. september 2004

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið

Bt. Margrétar Erlendsdóttur

Vegmúla 3

150 Reykjavík

     Reykjavík, 17. september 2004

Efni: Umsögn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um drög að frumvarpi til laga um græðara. 

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar fyrir tækifærið að veita umsögn um umrædd drög að framvarpi.

  1. Markmiðið með umræddri væntanlegri lagasetningu virðist það að stuðla að auknu öryggi þeirra sem leita til græðara.  Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga telur slíka lagasetningu mikilvæga.  Hins vegar er óljósara hver akkur er fyrir græðara að láta skrá sig eins og virðist megin framkvæmdaþáttur væntanlegs frumvarps.  Þó viðurkenningu heilbrigðisyfirvalda hafi skort fram til þessa virðist sem einstakir græðarar hafi haft næg verkefni og því ekki  ljós ávinningur græðaranna af skráningu.  Þvert á móti má leiða líkum að því að einstakir græðarar kunni að telja skráningu leiða til aukins eftirlits af hálfu opinberra aðila, eftirlits sem þeir hafa ekki þurft að sæta fram til þessa.

  1. Í 1. grein frumvarpsdraganna er rætt um að þjónusta græðara „byggist fremur á hefð og reynslu en gagnreyndum vísindalegum niðurstöðum“.  Fíh vill benda á að margar hjúkrunarmeðferðir styðjast ekki við gagnreyndar vísindalegar niðurstöður enda hjúkrunarfræðin fremur ung fræðigrein.  Þá bendir Fíh einnig á þá umræðu sem fram hefur farið innan Landspítala háskólasjúkrahúss um eflingu gagnreyndrar vísindalegrar meðferðar þar.  Því kann að vera ótímabært að krefjast slíks af græðurum.  Enn fremur má benda á mikilvægi fornrar þekkingar og heimspeki sem hefur verið ákveðinn grunnur í störfum græðara fram til dagsins í dag.

  1. Í 6. gr. frumvarpsdraganna kemur fram að „Meðferð vegna alvarlegra sjúkdóma skal einungis veitt af löggiltu heilbrigðisstarfsfólki.  Þetta gildir þó ekki ef sjúklingur óskar eftir þjónustu græðarar eftir samráð við lækni“.  Sú spurning hlýtur að vakna hvort með þessu sé læknir að framselja lögbundið vald og ábyrgð?  Hver verður réttarstaða skjólstæðings, græðara og læknis ef álitamál rísa vegna meðferðar græðara eftir tilvísun læknis?  Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga tekur undir nauðsyn þess að þjónusta græðara sem veitt er samfara hefðbundinni læknisfræðilegri meðferð sé þekkt, þannig að koma megi í veg fyrir að veittar meðferðir fari ekki saman.  Hins vegar telur Fíh nauðsynlegt að skýra betur tilgang og framkvæmd þessa ákvæðis.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga óskar hér með eftir að fá tækifæri til að fylgjast með framgangi þessa máls og veita ítarlegri umsögn síðar ef þurfa þykir.

Virðingarfyllst,

Fyrir hönd Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

___________________________________

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður

Umsagnir

Heilbrigðiskerfið

Mönnun

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála