Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Félagsráðsfundur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

15. október 2004

haldinn föstudaginn 15.október 2004 kl. 13:00-16:00 að Suðurlandsbraut 22.

 

1. Elsa B. Friðfinnsdóttir formaður Fíh setti fundinn og bauð fundarmönnum að kynna sig.

 

2. Kjaramál

Kynning á stöðu og stefnu félagsins í væntanlegum kjarasamningum var aðalefni fundarins. Elsa fór yfir viðræðuáætlun milli Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

annars vegar og fjármálaráðherra hins vegar.

Samningur við fjármálaráðherra rennur úr gildi 30. nóvember 2004. Viðræðuáætlun við fjármálaráðherra var undirrituð 17. september 2004. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir að viðræðunum verði skipt í þrennt.

Í fyrsta lagi eru viðræður um sameiginleg réttindamál opinberra starfsmanna. Þær viðræður eru farnar af stað og þar sameinast BHM, BSRB og KÍ í kröfum er varða sameiginleg réttindamál allra opinberra starfsmanna. Þar er m.a. til umræðu: Launamunur karla og kvenna, stytting vinnuvikunnar, fjármögnum á starfsþróun og símenntun, aukin vernd og aðbúnaður trúnaðarmanna, tryggingamál er varða rétt á bótum fyrir meiðsli og munatjón, ýmis ákvæði er varða veikindarétt, réttindi tímavinnufólks, vinnuumhverfismál og lenging uppsagnarfrests. Elsa B.Friðfinnsdóttir formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga er í samninganefnd fyrir hönd BHM-félaga.

Í öðru lagi verða viðræður á BHM-grunni þ.e. viðræður um sameiginleg mál aðildarfélaga BHM. Í þeim viðræðum verður m.a. rætt um gildistíma kjarasamninga, upphafstíma og lokatíma, framtíð stofnanasamninga, menntunarákvæði, launatöflur og kröfur tengdar fjölskylduábyrgð. Elsa B. Friðfinnsdóttir formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og Helga Birna Ingimundardóttir hagfræðingur félagsins hafa verið tilnefndar í samninganefnd BHM-félaga.

Í þriðja lagi verða viðræður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um önnur atriði kjarasamningsins. Þar verða helstu áhersluatriðin á grunnkaupshækkun, vinnuskyldu, vinnufatnað, ýmis ákvæði vegna vaktavinnu, starfsaldurshækkanir og fleira. Í samninganefnd félagsins sitja 12 fulltrúar félagsins sem koma úr ólíkum störfum og vinnustöðum um allt land.

Samkvæmt viðræðuáætluninni er gert ráð fyrir að aðilar hefji viðræður um önnur atriði væntanlegs kjarasamnings en þau sem rædd verða á bandalaga- og BHM grunni fyrir 1. nóvember 2004 eða þegar félagið og samninganefnd ríkisins eru sammála um. Í þeim viðræðum verða mál sem ekki næst samstaða um á bandalaga grunni tekin upp á ný.

Fulltrúi BHM hefur starfað í sameiginlegri nefnd bandalaga stéttarfélaga, ríkis og sveitarfélaga um endurskoðun á kjarasamningslögum. Stéttarfélög hafa lagt mikla áherslu á í þeirri nefnd að vinnutilhögun við kjarasamningsgerðina verði einfaldari og markvissari. Má í því sambandi sérstaklega nefna afturvirkni kjarasamninga. BHM lét reikna út eftir síðustu samningalotu hversu mikið ríkið sparaði á því að draga samningagerðina og hafa kjarasamning ekki afturvirka. Talið er að sparnaður ríkisins hafi numið rúmlega milljarði vegna þessa dráttar og er þá eingöngu átt við aðildarfélög BHM.

Umræður urðu í kjölfarið:
Rætt um stofnanasamningana. Fjármálaráðherra er samþykkur áframhaldi stofnanasamninga en heilbrigðisráðherra telur þá ekki heppilegt form. Ekki er enn vitað hvort vilji er fyrir áframhaldi þeirra af hendi ríkisins. Rætt um kosti og galla

stofnanasamninga. Þeir geta verið hjúkrunarfræðingum til framdráttar en einnig hindrun fyrir suma. Meðal gallanna er t.d. hversu starfsreynsla er illa metin. Þá var nefnt að stofnanasamningar og framgangskerfi virka ekki á minni stöðum þar nándin er of mikil. Spurt var hvað framgangskerfið hefði gefið stéttinni á samningstímabilinu. Því svarað á þann hátt að það hefði gefið svipað og væntingar stóðu til eða að meðaltali 2 launaflokka. Mikil áhersla lögð á að það verði að

fylgja peningar með stofnanasamningum. Ekki er hægt að hagræða meira á stofnununum.
Mismunandi skoðanir uppi um hvort framgangskerfi hafi minnkað samheldni stéttarinnar og stéttarvitund. Þó voru fleiri á þeirri skoðun að það hefði gert stéttinni frekar gott en hitt. Hjúkrunarfræðingar væru að læra að standa með sjálfum sér og gera meiri kröfur. Þá var nefnt að framgangskerfið þjónaði ekki nógu vel eldri  hjúkrunarfræðingum með langa starfsreynslu og færni í  klínisku starfi. Þeir sætu fastir. Lögð áhersla á að sátt ríki milli eldri og yngri hjúkrunarfræðinga hvað framgang varðar. Fram kom að klínisk reynsla væri vel metin á geðsviði.

Þá var nefnt að meta þyrfti betur viðbótarnám í  kjarasamningunum.

Niðurstöður fundarins voru þær að í komandi kjarasamningum skuli leggja aðaláherslu á hækkun grunnlauna og breytingu á launatöflu, styttingu vinnuviku, hækkun vaktarálags sérstaklega um helgar, auka vægi sérmenntunar, losa um launarammana og hækka laun stjórnenda til að hægt sé að lyfta almennum hjúkrunarfræðingum.

Steinunn Sigurðardóttir formaður fagdeildar hjúkrunarstjórnenda fagnaði umræðunni um stjórnendur og sagðist aldrei hafa heyrt hana svona jákvæða. Sagði hún að þeir hafi velt fyrir sér stöðu sinni innan félagsins og alltaf annað slagið kæmi upp umræða um að fara þaðan út.

Elsa lagði áherslu á vilja stjórnar að hafa hjúkrunarstjórnendur í félaginu og tóku fundarmenn undir það.

Rætt var um mögulegar aðgerðir ef samningar dragast á  langinn. Verkfall var ekki talinn besti kostur þar sem það bitnar á tiltölulega fáum hjúkrunarfræðingum þar sem undanþágur eru mjög miklar. Rætt var um skæruverkföll og yfirvinnubann.

3. Í deiglunni

Elsa sagði frá því helsta sem félagið er að fást við þessa dagana. Greindi hún frá því að félagið hefur fest kaup á fjarfundabúnaði til að þjóna hjúkrunarfræðingum á landsbyggðinni betur og einnig að auka möguleika á

fræðslustarfsemi t.d. fagdeilda. Búnaðurinn mun einnig gagnast vel til funda t.d. í kjarabaráttunni.

Unnið verður úr starfsáætlun stjórnar sem samþykkt var á fulltrúaþingi 2003.

Gagnger endurskoðun á starfsemi félagsins og lögum þess verður megin verkefni félagsins í vetur. Munu margir aðilar, innan hjúkrunar og utan koma að þessari vinnu og verða tillögur þar að lútandi lagðar fyrir fulltrúaþing félagsins í maí

2005.
Staða félagsins innan BHM verður einnig skoðuð vel svo og ýmis innri mál skrifstofu. Rætt hefur verið um að auka vægi fagmál innan félagsins.
Einnig verður unnið að endurskoðun Stefnu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga í hjúkrunar og heilbrigðismálum sem samþykkt var á fulltrúaþingi félagsins 1997. Skipuð hefur verið nefnd til starfans.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga mun í samvinnu við Læknafélag Íslands halda málþing um öryggi sjúklinga og öryggismál í heilbrigðisþjónustunni 26. nóvember. Þetta er fyrsta skref í samvinnu þessara aðila varðandi þetta málefni.

Að frumkvæði félagsins hefur verið skipaður starfshópur til að vinna að setningu viðmiða um fjölda sjúklinga á hvern hjúkrunarfræðing „nurse/patient ratio“ en í honum eiga sæti fulltrúar frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Landlæknisembættinu og Landspítala-háskólasjúkrahúsi.

Hafin er endurskoðun samnings Tryggingarstofnunar ríkisins og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Elsa B. Friðfinnsdóttir og Hrund Helgadóttir eiga sæti fyrir hönd félagsins í starfshópnum sem fjallar um framtíðarfyrirkomulag samningsins.

Þar er verið að ræða um þjónustusamninga og hjúkrunarstofur og útvíkkun á skjólstæðingahópnum og fjölgun hjúkrunarfræðinga sem starfa á sjálfstæðum vettvangi við sérhæfða hjúkrun, en ekkert er í hendi enn sem komið er.

Að lokum sagði hún frá væntanlegu hjúkrunarþingi og afmælishófi félagsins sem verður 5. nóvember n.k.

4. Önnur mál

Engin mál voru til umræðu undir þessum lið.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 15:50.

Aðalbjörg J. Finnbogadóttir

Fundargerðir

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála