Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Umsögn um frumvarp til laga

27. desember2004

Nefndasvið Alþingis

Austurstræti 8 - 10

150 Reykjavík

     Reykjavík, 27. desember 2004

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um græðara, þskj. 257 – 246. mál. 

Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar fyrir að fá tækifæri til að veita umsögn um framkomið frumvarp til laga um græðara.  Félagið telur til mikilla bóta að lagaumgjörð verði sett um störf græðara.  Með frumvarpi þessu er reynt að tryggja gæði þjónustu græðara og lögð áhersla á þagnarskyldu þeirra.

Stjórn Fíh vill gera athugasemd við orðalag 2. gr. frumvarpsins þar sem segir “Slík þjónusta felur meðal annars í sér meðferð á líkama einstaklings með það að markmiði að efla heilsu hans, lina þjáningar, draga úr óþægindum og stuðla að heilun”.  Með því að takmarka skilgreiningu um heilsutengda þjónustu græðara við meðferð á líkama þeirra sem til græðara leita telur stjórn Fíh að verið sé að útiloka þann hóp græðara sem veitir meðferð sem leiðir af sér bætta andlega heilsu þess sem til hans leitar.

Stjórn Fíh vill einnig gera athugasemd við skilgreiningu á orðinu græðari eins og hún kemur fyrir í 2. gr. frumvarpsins.  Þar er lögð áhersla á að þjónusta græðara sé utan hins almenna heilbrigðiskerfis.  Stjórn Fíh bendir á að umræddar meðferðir eru í vaxandi mæli veittar innan heilbrigðiskerfisins.

Í 7. gr. frumvarpsins kemur fram að „Meðferð vegna alvarlegra sjúkdóma skal einungis veitt af löggiltu heilbrigðisstarfsfólki.  Þetta gildir þó ekki ef sjúklingur óskar eftir þjónustu græðarar eftir samráð við lækni“.  Sú spurning hlýtur að vakna hvort með þessu sé læknir að framselja lögbundið vald og ábyrgð?  Hver verður réttarstaða skjólstæðings, græðara og læknis ef álitamál rísa vegna meðferðar græðara eftir tilvísun læknis?  Stjórn Fíh tekur undir nauðsyn þess að þjónusta græðara sem veitt er samfara hefðbundinni læknisfræðilegri meðferð sé þekkt, þannig að koma megi í veg fyrir að veittar meðferðir fari ekki saman.  Hins vegar telur stjórn Fíh nauðsynlegt að skýra betur tilgang og framkvæmd þessa ákvæðis.

Virðingarfyllst,

F.h. stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga,

________________________________________

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður

Umsagnir

Heilbrigðiskerfið

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála