Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Umsögn um frumvarp til laga

19. janúar 2006

Nefndasvið Alþingis

Austurstræti 8 - 10

150 Reykjavík

     Reykjavík, 19. janúar 2006

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um réttarstöðu samkynhneigðra, 340. mál, breyting ýmissa laga.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga þakkar beiðni um umsögn um frumvarp til laga um réttarstöðu samkynhneigðra.  Beðist er velvirðingar á því hversu seint umsögnin berst.

Að mati Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur frumvarp það sem hér um ræðir harla lítil áhrif á heilbrigðis- og/eða hjúkrunarþjónustu þeirra einstaklinga sem um er fjallað, en þeim mun meiri lagaleg, félagsleg og siðferðileg áhrif.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga vill draga fram tvo þætti í frumvarpinu sem þurfi sérstakrar skoðunar við.  Annars vegar er gr. 18 í frumvarpinu, um tæknisæðingu með gjafasæði.  Með þeirri breytingu sem þar er lögð til öðlast kona í staðfestri samvist meiri rétt en kona í hjónabandi, þar sem sú síðari þarf að sýna fram á „galla“ eiginmannsins til að geta fengið gjafasæði.  Spurt er hvort slík mismunun var tilgangur lagagreinarinnar?

Einnig vill Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga benda á nauðsyn þess að kalla til sérfræðinga á sviði sálarfræði, félagsfræði, siðfræði og uppeldisfræði til að ræða þær breytingar sem verða á rétti barns til að vita um líffræðilegan föður sinn.  Á síðustu áratugum hafa fræðimenn á þessum sviðum ítrekað kynnt rannsóknir sem sýna mikilvægi kynímyndar og föður-/móðurímyndar, bæði í uppvexti barna á heimilum og í skólakerfinu.  Mat fræðimanna úr ofantöldum vísindagreinum á áhrifum sem væntanlegar lagabreytingar kunna að hafa, verði frumvarp þetta að lögum, er því afar mikilvægt.  Þá vill Fíh benda á ákvæði í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um rétt barna til að fá upplýsingar um líffræðilegan föður.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga gerir ekki aðrar athugasemdir við frumvarp þetta að svo stöddu en hvetur til opinnar fræðilegrar og samfélagslegrar umræðu um frumvarpið.

Virðingarfyllst,

F.h. stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga,

________________________________________

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður

Umsagnir

Öryggi og gæði

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála