Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

21. Stjórnarfundur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga 2005-2007

24. maí 2006

Haldinn að Suðurlandsbraut 22 þann 24. maí 2006 kl. 16.00

Mættir: Elsa B. Friðfinnsdóttir formaður, Halla Grétarsdóttir 1. varaformaður, Elín Ýrr Halldórsdóttir 2. varaformaður, Eygló Ingadóttir gjaldkeri, Jón Aðalbjörn Jónsson  ritari

 

Til afgreiðslu:

 1. Samningur LSH við danska starfsmannaleigu, fjölmiðlaumfjöllun og upplýsingagjöf LSH ásamt útreikningum Fíh.
  Farið yfir aðdraganda málsins auk umræðu um fleti þess. Stjórn samþykkir yfirlýsingu um málið.

Samþykkt

Yfirlýsing stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Liður 1. í fundardagskrá):

Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) harmar viðbrögð stjórnenda Landspítala – háskólasjúkrahúss (LSH) við upplýsingum þeim er félagið hefur undir höndum og hefur látið félagsmönnum sínum í té um ráðningarkjör hjúkrunarfræðinga dönsku starfsmannaleigunnar Ethnic Care, sem um  þessar mundir auglýsir eftir starfsmönnum til starfa á LSH.

Stjórn Fíh áréttar að um er að ræða framgang stjórnar félagsins í máli þessu en ekki Elsu B. Friðfinnsdóttur, þó hún sé í forsvari fyrir félagið sem formaður þess. Stjórn telur óviðeigandi að stjórnendur LSH dragi persónu formanns Fíh inn í mál þetta með þeim hætti sem gert hefur verið.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga stendur fast við útreikninga sína, enda byggðir á opinberum gögnum, sem liggja frammi á vefsvæði félagsins www.hjukrun.is

Engir útreikningar hafa verið lagðir fram af stjórnendum LSH.

Það er m.a. megintilgangur félagsins að
 gæta að hagsmuna og réttinda félagsmanna varðandi störf þeirra að hjúkrun og koma fram fyrir þeirra hönd. 

Markmið ábendingar félagsins er að sinna þessu hlutverki sínu og benda á það misræmi sem felst í því að LSH hefur nýverið undirritað stofnanasamning við Fíh og er í sama mund að gera samning um kaup á samskonar þjónustu erlendis frá, þar sem þeir hjúkrunarfræðingar er undir hann falla njóta verulega betri kjara en þeir íslensku.

Í svörum forsvarsmanna LSH, hefur eftirfarandi m.a. komið fram:

 • Þetta er verktakavinna í mjög stuttan tíma
 • Dönsku starfsmennirnir fá ekki orlofs,- veikinda- eða lífeyrisgreiðslur
 • Verktakinn tryggir að allar vaktir séu mannaðar
 • LSH hefur keypt hjúkrunarþjónustu af íslenskum starfsmannaleigum Alhjúkrun og  Liðsinni
 • Samanburður á kjörum fastráðinna hjúkrunarfræðinga á LSH og þeirra sem ráðnir eru gegnum starfsmannaleigu villandi og ósanngjarnan
 • Kjör fastráðinna starfsmanna á LSH og kaup á þjónustu erlendrar starfsmannaleigu eru ekki samanburðarhæf með þeim hætti sem formaður FÍH gerir
 • Þeir njóta launakjara samkvæmt samningum sínum við starfsmannaleiguna og starfsmannaleigan ber kostnað vegna launatengdra gjalda o.þ.h.
 • Það er alrangt að LSH muni sjá um skemmtiferðir eða fríðindi fyrir dönsku hjúkrunarfræðingana


Svar Fíh:

 • Ekki er um verktakavinnu að ræða hjá hinum einstaka hjúkrunarfræðingi.  Í kjarasamningum  DSR og Ethnic Care Aps fyrir tíma- og mánaðarlaunaða kemur fram  í gr. 11 að um ráðningarsamband sem staðfest er með ráðningarbréfi sé að ræða.
  Fíh er ljóst að auðvitað er Ethnic Care eða hver sú starfsmannaleiga sem LSH á viðskipti við verktaki, sem þiggur greiðslur frá verkkaupa fyrir öllum útlögðum kostnaði sínum auk eigin álagningar.  Verkkaupi er hér LSH.

 • Allir þeir hjúkrunarfræðingar sem starfa samkvæmt kjarasamningi DSR og Ethnic Care Aps njóta orlofsréttinda.  Skv. gr. 20 tölulið (stk) 1. njóta mánaðarlaunaðir (þ.e. þeir sem ráðnir eru til lengri verkefna en 30 daga) orlofsréttinda í samræmi við dönsk orlofslög.  Skv. gr. 20 töluliður 2. njóta tímalaunaðir starfsmenn 12,5% orlofs af launum.

 • Það er rétt að tímalaunaðir hjúkrunarfræðingar sem starfa skv. kjarasamningi DSR og Ethnic Care Aps eiga ekki rétt á greiðslum í veikindaleyfum. 
  Skv. gr. 30 í þessum sama kjarasamningi eiga mánaðarlaunaðir  rétt á veikindafríum í samræmi við dönsk lög.

 • Allir starfsmenn á dönskum vinnumarkaði eiga rétt á greiðslum frá vinnuveitanda í lífeyrissjóð.
  Í gr. 10 segir að tímalaunaðir hjúkrunarfræðingar sem starfa samkvæmt nefndum kjarasamningi geti samið um hvert framlag í lífeyrissjóð er.
  Skv. kjarasamningi  fyrir mánaðarlaunaða  gr.  7 töluliður 2 greiða hjúkrunarfræðingar 5% framlag í lífeyrissjóð og vinnuveitandi 10% framlag.  Þeir njóta því alls 15% framlags í lífeyrissjóð.

 • Það kann að vera rétt að verktakinn tryggi að allar vaktir séu mannaðar.  Verktakinn er Ethnic Care Aps en ekki hinn einstaki hjúkrunarfræðingur.  Það er Fíh ljúft að fara yfir samning LSH við Ethnic Care Asp og meta hvort þessi þjónusta hafi í för með sér aukinn kostnað.  Til að svo megi verða þarf LSH að kynna innihald og kostnaðartölur samningsins.

 • Það er rétt og Fíh hefur alltaf haft um það vitneskju að LSH hefur keypt þjónustu af Liðsinni og Alhjúkrun.  Hvorki LSH, Alhjúkrun né Liðsinni hafa kynnt samninga sína fyrir almenningi eða gert þá aðgengilega á sama hátt og samningar allra danskra starfsmannaleiga eru á veffanginu www.dsr.dk

 • Stjórn Fíh getur ekki séð annað en að laun íslenskra hjúkrunarfræðinga starfandi hjá LSH og danskra, starfandi hjá Ethnic Care Aps, sem LSH kaupir þjónustu af séu samanburðarhæf.

 • Starfsmannaleigan ber eðlilega kostnað vegna launatengdra gjalda starfsmanna sinna, en það má vera hverjum manni ljóst að þjónusta starfsmannaleigunnar verður ekki seld án þess að starfsmannaleigan fái útlagðan kostnað sinn auk álagningar endurgreiddan frá kaupanda þjónustunnar.

 • Því hefur ekki verið haldi fram að LSH muni sjá um skemmtiferðir eða fríðindi fyrir dönsku hjúkrunarfræðingana.  Því hefur hinsvegar verið haldið fram að LSH muni bera kostnaðinn af fríðindum og skemmtiferðum dönsku hjúkrunarfræðinganna.

Stjórn Fíh skorar á stjórendur LSH að auglýsa nú þegar eftir hjúkrunarfræðingum á íslandi á þeim kjörum sem bjóðast í gegn um starfsmannaleiguna Ethnic Care Aps og samtímis tryggja fastráðnum hjúkrunarfræðingum LSH sömu greiðslur yfir þennan 9 vikna álagstíma.

Stjórn Fíh skorar jafnframt á stjórnvöld að veita LSH nægt fé til að tryggja eðlilega starfsemi á komandi álagstíma.

Fundi slitið kl. 18.15

Fundargerð ritaði Jón Aðalbjörn Jónsson, ritari stjórnar.

Fundargerðir

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála