Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Umsögn um frumvarp til laga

12. ágúst 2009

Reykjavík 12. ágúst 2009

Nefndasvið Alþingis

Austurstræti 8 - 10

150 Reykjavík

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um heilbrigðisstarfsmenn, 113. mál, heildarlög.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar beiðni um umsögn um ofangreint frumvarp til laga um heilbrigðisstarfmenn. Félagið hefur áður veitt umsagnir um sambærileg frumvörp, síðast 19. september 2002, auk þess sem félagið sendi umsögn til heilbrigðisráðuneytisins, dags. 19. janúar 2009, um drög að því frumvarpi sem hér liggur fyrir.  Stjórn Fíh hefur fjallað um fyrirliggjandi frumvarp og lýsir ánægju með í hversu ríkum mæli tekið var tillit til áður innsendra athugasemda félagsins í endanlegri gerð frumvarpsins. Stjórn Fíh telur þó enn megi skýra einstakar greinar frumvarpsins og gerir því eftirfarandi athugasemdir:

-          Í 5. gr. er fjallað um skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis. Þar er meðal annars veitt heimild til að setja kunnáttu í íslensku sem kröfu vegna leyfisveitinga. Stjórn Fíh telur rétt, með hagsmuni skjólstæðinga heilbrigðisþjónustunnar í huga, að íslenskukunnátta sé gerð að skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis í hjúkrun.

-          Í 8. gr. er fjallað um skilyrði fyrir veitingu sérfræðileyfis. Stjórn Fíh telur mikilvægt að áfram verði leitað til sérstakrar matsnefndar og leitað umsagnar sérfræðinga, eins og kveðið er á um í reglugerð nr. 124/2003 um veitingu sérfræðileyfa í hjúkrun.

-          Í 13. gr. frumvarpsdraganna er fjallað um faglegar kröfur. Stjórn Fíh fagnar ákvæðum þessarar greinar en bendir á mikilvægi þess að tilvísanir þær sem kveðið er á um í 4. mgr. séu skriflegar.

-          Í 14. gr. er fjallað um undanþágu frá starfsskyldu. Stjórn Fíh telur þetta ákvæði geta stangast á við 15. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Skýrt þarf a.m.k. að vera kveðið á um hverjum ber að tilkynna slíkt og með hvaða hætti.

-          Í 16. gr. frumvarpsdraganna er fjallað um aðstoðarmenn og nema. Stjórn Fíh gerir athugasemd við að ekki er gerður greinarmunur á fagstéttum og starfsstéttum í heilbrigðisþjónustu. Lagt er til að ákvæði greinarinnar er varða aðstoðarmenn falli brott en ákvæði þau er lúta að nemum standi.

-          Í 22. gr. er fjallað um skyldu til að veita hjálp. Stjórn Fíh varar við þeirri skyldu sem lögð er á heilbrigðisstarfsmenn með ákvæði þessarar greinar, einkum í ljósi þess að lögsóknum vegna ófullnægjandi eða rangrar meðferðar á vettvangi fjölgar erlendis. Úr siðareglum margra heilbrigðisstétta má lesa ákveðna siðferðilega skyldu til að veita aðstoð í neyðartilfellum og telur stjórn Fíh að heppilegra sé að treysta áfram á siðferðiskennd heilbrigðisstarfsmanna, fremur en að lögbinda slíka skyldu til aðstoðar. Stjórn Fíh leggur því til að greinin í heild sinni falli brott.

-          Í 32. gr. frumvarpsdraganna er kveðið á um brottfellingu laga, m.a. hjúkrunarlaga. Stjórn Fíh leggst gegn því að fella sértæk hjúkrunarlög niður. Þau drög að frumvarpi sem hér liggja fyrir fela í sér svo viðamiklar breytingar að þær hljóta að kalla á endurskilgreiningar heilbrigðisstétta, annars vegar í fagstéttir og hins vegar í starfsstéttir í heilbrigðisþjónustu.  Stjórn Fíh ítrekar í þessu sambandi ákvæði 10. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 þar sem kveðið er á um fagstjórnendur. Sérstaða hjúkrunarfræðinga og lækna er slík að að mati stjórnar Fíh er nauðsynlegt að um þær stéttir gildi áfram sérlög.

Stjórn Fíh fagnar ýmsum ákvæðum þessa framvarps en ítrekar mikilvægi þess að lög sem þessi séu skýr og afdráttarlaus. Þá varar stjórnin við þeirri tilhneigingu í lagasetningu að ráðherra séu færð umtalsverð völd til setninga reglugerða um þætti sem nauðsynlegt kann að vera að séu lögbundnir.

Stjórn Fíh áskilur sér einnig rétt til að koma frekari athugasemdum á framfæri ef þurfa þykir.

Stjórn Fíh ítrekar að lokum þá afstöðu sína að sérlög gildi áfram um hjúkrunarfræðinga og lýsir sig reiðubúna til að koma að endurskoðun hjúkrunarlaga nr. 8/1974.

F.h. stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga,

____________________________________

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður

Umsagnir

Mönnun

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála