Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Umsögn um frumvarp til laga

27. nóvember 2009

Reykjavík 27. nóvember 2009

Nefndasvið Alþingis

Austurstræti 8 - 10

150 Reykjavík

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um heilbrigðisstarfsmenn, 116. mál.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar beiðni um umsögn um ofangreint frumvarp til laga um heilbrigðisstarfsmenn. Félagið hefur áður veitt umsagnir um sambærileg frumvörp, síðast 12. ágúst 2009. Stjórn Fíh hefur fjallað um fyrirliggjandi frumvarp og lýsir ánægju með ýmsar þær breytingar og úrbætur sem gerðar hafa verið frá því að frumdrög þessa frumvarps voru kynnt í heilbrigðisráðuneytinu í upphafi ársins.

Stjórn Fíh ítrekar fyrri athugasemdir sínar við einstakar greinar frumvarpsins sem settar voru fram í umsögn félagsins dags. 12. ágúst 2009. Auk þeirra athugasemda gerir stjórn Fíh alvarlega athugasemd við viðbætur við 11. gr. frumvarpsins þar sem Landlækni er veitt heimild til að veita þeim sem lokið hafa a.m.k. 2/3 hlutum fullgilds náms í tiltekinni grein heilbrigðisfræða tímabundið starfsleyfi. Stjórn Fíh telur að með tilliti til öryggis sjúklinga og sífellt flóknari hjúkrunarmeðferða sé ófært að veita slíkt tímabundið starfsleyfi til hjúkrunarfræðinema sem eiga eftir nær þrjár annir af námi sínu.

Stjórn Fíh tekur undir það sjónarmið sem fram kemur í umsögn Læknafélags Íslands dags. 13. ágúst 2009, að ef fjöldi heilbrigðisstétta er kveikjan að hugmynd um setningu einna sameiginlegra laga um heilbrigðisstarfsmenn, þá sé nær að hafa fækkun löggiltra heilbrigðisstétta að leiðarljósi við setningu laga um heilbrigðisstarfsmenn fremur en að fella brott sérlög sem setja heilbrigðisstéttum skýran ramma. Benda má á að löggiltum heilbrigðisstéttum hefur fjölgað um eina frá því að frumvarp til laga um heilbrigðisstarfsmenn var sent til umsagnar í ágúst sl.

Stjórn Fíh leggst alfarið gegn því að Hjúkrunarlög nr. 8/1974 verði felld brott. Hið íslenska heilbrigðiskerfi byggir á tveimur megin stoðum, hjúkrun og lækningum. Hjúkrunarfræðingar og læknar eru þær tvær heilbrigðisstéttir sem bera hvað mesta ábyrgð á veitingu heilbrigðisþjónustu og skipulagi meðferða sjúklinga. Eðli starfa hjúkrunarfræðinga er þannig að nauðsynlegt er að um stéttina gildi sérlög. Á það skal bent að í umræddu frumvarpi er enginn greinarmunur gerður á fagstéttum, með langt háskólanám að baki, og starfsstéttum sem lokið hafa námi á framhaldsskólastigi. Slík aðgreining er nauðsynleg með tilliti til eðlis starfa og ábyrgðar. Hjúkrunarlög setja hjúkrunarfræðingum ramma um starfs- og ábyrgðarsvið og tryggja að hjúkrunarfræðingar beri einir ábyrgð á hjúkrun. Stjórn Fíh lýsir fullum vilja til að taka þátt í endurskoðun Hjúkrunarlaga nr.8/1974 ef vilji stjórnvalda stendur til þess.

Stjórn Fíh varar einnig við þeirri tilhneigingu í lagasetningu að ráðherra séu færð umtalsverð völd til setninga reglugerða um þætti sem nauðsynlegt er að séu lögbundnir. Í 5. gr. frumvarpsins er til að mynda gert ráð fyrir að ráðherra geti með reglugerð skilgreint og afmarkað starfs- og ábyrgðarsvið heilbrigðisstétta, þar með hjúkrunarfræðinga. Það telur stjórn Fíh óviðunandi og leggur ríka áherslu á að um starfs- og ábyrgðarsvið fagstétta séu skýr ákvæði í lögum.

F.h. stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga,

____________________________________

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður

Umsagnir

Mönnun

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála