Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

3. fundur stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga starfstímabilið 2010 – 2011

31. ágúst 2010

þriðjudaginn 31.  ágúst 2010 kl. 11:00-14:40, haldinn í Teigi á Grand Hótel

 

Mættir

Elsa B. Friðfinnsdóttir, Áslaug Birna Ólafsdóttir, Fjóla Ingimundardóttir, Guðbjörg Pálsdóttir, Gunnar Helgason, Helga Atladóttir, Herdís Gunnarsdóttir, Hildur Einarsdóttir, Ingibjörg Þórisdóttir, Íris Dröfn Björnsdóttir, Jóhanna Oddsdóttir, Kristín Thorberg, Ragnheiður Gunnarsdóttir, Stella Hrafnkelsdóttir, Svanhildur Jónsdóttir og Þórunn Sævarsdóttir.

Boðuð forföll

Aðalheiður D. Matthíasdóttir og Sigurveig Gísladóttir.

Gestir

Aðalbjörg J. Finnbogadóttir, Elín Ósk Sigurðardóttir, Jón Aðalbjörn Jónsson, Ólöf Sigurðardóttir og K. Hjördís Leósdóttir.

Til afgreiðslu

1.            Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð 2. fundar samþykkt með lítilsháttar lagfæringum og viðbótum.

Til umræðu

2.            Rekstraryfirlit jan-júlí 2010

Elín Ósk Sigurðardóttir, starfandi fjármálastjóri kom á fundinn kl. 11:15. Hún fór yfir helstu atriði varðandi rekstur, sjóði og efnahagsreikning:

 • Iðgjöldin eru um 7% yfir áætlun og er það einkum vegna varfærnislegrar áætlunar.
 • Tekjur aðeins yfir áætlun, einkum auglýsingatekjur.
 • Spurt var um kostnað við útgáfu bókar um sögu félagsins. Heildarkostnaður er nú áætlaður um 40 millj. kr.
 • Rekstargjöld; framlag til svæðisdeilda er aðeins að fara yfir áætlun, en það skekkir myndina í árshlutauppgjörinu að greitt er út einu sinni yfir árið til svæðisdeilda.
 • Rekstarkostnaður er lítillega yfir áætlun, einkum fasteignagjöld og leigugjöld sem eru greidd einu sinni á ári.
 • Fleiri tímar voru greiddir til endurskoðenda fyrir síðasta ársreikning, vegna fleiri þátta sem teknir voru til skoðunar og farið var yfir og eins hefur tímagjald endurskoðanda hækkað.
 • Af einhverju ástæðum var ekki gert ráð fyrir kostnaði vegna hjúkrunarþings í rekstraráætlun.
 • Staða fasteigna hefur hækkað en það er vegna þess að inn vantaði eign upp á 14 millj. kr.
 • Óskað var eftir skýringum á lækkun iðgjalda í orlofssjóð miðað við áætlun.

3.            Heilsuefling fyrir hjúkrunarfræðinga

Aðalbjörg J. Finnbogadóttir, sviðstjóri fagsviðs kom á fundinn kl. 11:50. Hún greindi frá  verkefni um heilsueflingu fyrir hjúkrunarfræðinga, en undurbúningur hófst s.l. vor. Dr. Sólfríður Guðmundsdóttir var fengin til liðs við félagið og átakið hefst í vetur með Heilsuþingi 24. september n.k. Í framhaldi af því verður boðið upp á námskeið fyrir hjúkrunarfræðinga um heilsueflingu og síðar námskeið fyrir hjúkrunarfræðinga sem vilja verða heilsuráðgjafar. Áætlað er að gera rannsókn á mati hjúkrunarfræðinga á eigin heilsu og heilsutengdum þáttum.

Fíh hefur boðið fram samstarf við Heilbrigðisráðuneytið um forvarnir og heilsueflingu og hefur ráðuneytið svarað boðinu og kallað félagið til viðræðna.

4.            Breytingar á húsnæði Fíh

Jón Aðalbjörn Jónsson, verkefnastjóri kom á fundinn kl. 13:00.  Hann sýndi á teikningum hvað á að rífa niður og nýjar breytingar á húsnæði félagsins að Suðurlandsbraut:

 • Bæta á aðgengi fyrir félagsmenn í sal, m.a. bætt aðstaða fyrir veitingar, opnanleg fög á gluggum í suður til að bæta hljóðvist í sal og afgreiðsluborð fært innar.
 • Nýtt og bætt starfsmannaeldhús og nýtt fundarherbergi.
 • Bæta á útlit á gangi, gangur og salur málaður og leitað ódýrra leiða við innréttingakaup.

5.            Áætlanir stjórnar orlofssjóðs starfsárið 2010-2011

Ólöf Sigurðardóttir og K. Hjördís Leósdóttir koma á fundinn kl. 13:15. Þær kynntu að fyrir 4 árum var keypt nýtt hús í Grímsnesi og þá var keypt lóð þar við hliðina á. Nú er beðið eftir tilboðum í hús og gestahús á þá lóð.  Undafarin misseri hafa ekki verið hagstæð til fjárfestinga og verið er að leita nýrra leiða.  Til stendur að greiða meira niður hótelmiða, útilegukort og veiðikortið. Hús var leigt í Skorradal í sumar og eigandi þess vill gjarnan selja orlofssjóði það hús. Til stendur að leigja áfram íbúð á Akureyri. Fyrirspurnir voru til Ólafar og Hjördísar og umræður um ýmsar hugmyndir.  Tillögur munu berast stjórn eftir fund í september um fjárfestingar hjá orlofssjóði. Stjórnarmenn þökkuðu Ólöfu og Hjördísi sérstaklega sjálfboðastarf í tengslum við eftirlit með orlofshúsum. 

6.            Kjarasamningar Fíh

Cecilie er búin að kalla saman samninganefnd félagsins og Samninganefnd Ríkisins er búin að kalla eftir fundi með Fíh.  Undirbúningur er að hefjast fyrir kröfugerð.

7.            Uppgjör við BHM – skipun gerðardóms

Lögfræðikostnaður mun hækka þar sem gerðardómur hefur aðeins nýlega hafið störf. Garðar Garðarsson er okkar fulltrúi í gerðardómi.  Krafa Fíh er tilbúin og BHM á eftir að bregðast við henni og svo er beðið eftir niðurstöðu gerðardóms. Verkefnið er að dæma um hvort styrktar- og sjúkrasjóðir komi til skipta eða ekki og eins hvort lögfræðikostnaður verði að hluta greiddur af BHM.

8.            Frumvarp til laga um heilbrigðisstarfsmenn, 116. mál

Beiðni kom um að mæta á fund heilbrigðisnefndar.  Ótal margar stéttir sækjast eftir því að verða heilbrigðisstarfsmenn og til umræðu er að leggja til að gerður verði greinamunur á löggildingu heilbrigðisstétta og viðurkenningu til starfsgreina í heilbrigðisstétt.

9.            Drög að skýrslu um eflingu heilsugæslunnar

Í erindisbréfi nefndarinnar á að fjalla m.a. um kennslu, fræðslu og forvarnir og heilsugæslu í skólum.  Í nefndinni sat aðeins einn hjúkrunarfræðingur.  Drög að skýrslu hefur verið birt með nánast engu efni um hjúkrun.  Elsa sendi Þórunni Ólafsdóttur fyrirspurn en hún lýsti því að í nefndinni væri lítil áheyrn um allt sem snýr að hjúkrun.  Aðalbjörg vinnur að því að undirbúa viðbrögð Fíh við þessari skýrslu og búið er að leita til Sigrúnar Barkardóttur og Ragnheiðar Óskar Erlendsdóttir um innlegg, auk fagdeildar heilsugæsluhjúkrunarfræðinga  Tillaga Elsu er að semja heildstæðan kafla um núverandi stöðu hjúkrunar í heilsugæslu, um aukningu í hjúkrunarþjónustu sem myndi leiða til eflingar heilsugæslunnar og markvissar tillögur.

Umræða var um skýrsluna, skipan nefndarinnar og vinnubrögð stjórnsýslunnar og fulltrúa lækna í nefndinni og hundsun á hlut hjúkrunar í heilsugælunni. Ákveðið var að semja harðorð mótmæli við innihaldi í drögum skýrslunnar og skipan nefndarinnar.

Til kynningar

10.          Svar frá stjórn Starfsmenntunarsjóðs vegna erindis frá síðasta stjórnarfundi

Stjórn Starfsmenntunarsjóðs mun á fundi sínum í október ræða tillögur að auknum styrkveitingum úr sjóðnum..

11.          Önnur mál

Niðurgreiðslur á mat til nema á LSH

Hjúkrunarfræðinemar mótmæla að fá ekki lengur niðurgreiddar máltíðir á Landspítala þegar þeir eru í klínísku námi og óska eftir stuðningi Fíh við drög að bréfi til forstjóra og framkvæmdastjórnar LSH. Ákveðið var að vísa þeim til síns stéttarfélags, SFR, og benda þeim á að Fíh vilji gjarnan taka að sér að vera umsemjandi hjúkrunarnema.

Framhaldsnám í hjúkrun

Fram hefur komið ábending frá Norðurlandi um að það vanti framhaldsnám í heilsugæsluhjúkrun. Bent var á að senda inn erindi um málið til fagsviðsins hjá Fíh svo yrði málið tekið upp í menntamálanefnd, sem er samstarfsvettvangur félagsins og HÍ og HA.  Verkefni nefndarinnar er að setja fram stefnu Fíh í menntamálum.  Fagdeildirnar verða virkjaðar í vinnu menntamálanefndar sem er að fara af stað.

 

Fundi slitið kl. 14:40.

Herdís Gunnarsdóttir, ritari stjórnar Fíh.

Fundargerðir

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála