Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Umsögn um frumvarp til laga

1. desember2010

 

 

Reykjavík 1. desember 2010

 

 

Nefndasvið Alþingis

Austurstræti 8 - 10

150 Reykjavík

 

 

Efni:   Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 41/2007, um landlækni, með síðari breytingum, og um brottfall laga nr. 18/2003, um Lýðheilsustöð, vegna stofnunar nýs embættis landlæknis og lýðheilsu, 190. mál.

 

 

 

Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar fyrir að fá tækifæri til að veita umsögn um ofangreint frumvarp. Stjórn Fíh telur slíka grundvallar vankanta vera á frumvarpi þessu að hún mun að sinni ekki gera athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins, heldur fjalla um boðaðar breytingar í heild sinni.

 

Í athugasemdum með lagafrumvarpi þessu er sagt að sameina eigi Lýðheilsustöð og landlæknisembættið í eitt embætti. Stjórn Fíh bendir á að með því að fella lög um aðra stofnunina niður og breyta lögum hinnar er fremur um flutning Lýðheilsustöðvar undir landlæknisembættið að ræða en sameiningu. Stjórnin telur að með þessu verði farsælu starfi Lýðheilsustöðvar ógnað og að það muni draga verulega úr vægi lýðheilsumála í heilbrigðisstarfi hér á landi. Ef vilji stjórnvalda stendur til þess að byggja upp nýja sterka stofnun/embætti á sviði heilbrigðismála er nauðsynlegt að setja um slíka nýja stofnun sérstök lög, í stað þess að gera lítilsháttar breytingar á lögum um landlækni.

 

Í athugasemdum með frumvarpinu segir jafnframt að tilgangurinn með „sameiningunni“ sé að skapa tækifæri til að styrkja og efla starf þeirra enn frekar en nú er. Samhliða verði unnt að auka hagkvæmni í rekstri, draga úr yfirbyggingu og samnýta mannafla betur en hingað til. Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins kemur hins vegar fram að engin úttekt liggi fyrir um þessi áætluðu fjárhagslegu samlegðaráhrif „sameiningarinnar“. Í umsögn fjármálaráðuneytisins segir síðan: „Heilbrigðisráðuneytið telur engu síður ljóst að talsverð hagræðing verði í rekstri í kjölfar þessarar sameiningar þannig að unnt verði að mæta aðhaldsmarkmiði næsta árs en fjárveitingar beggja stofnana lækka um 9% samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2011 vegna áforma um samdrátt í ríkisútgjöldum“. Stjórn Fíh telur að í ljósi þessa séu fjárhagsleg rök látin ganga framar hinum faglegu í þessu máli. Slíkt telur stjórnin óviðunandi.

 

Af umsögn fjármálaráðuneytisins er einnig ljóst að nýtt embætti færi af stað með verulegar hagræðingarkröfur í rekstri og hugsanlega íþyngjandi kostnað vegna húsnæðismála. Í umsögninni kemur skýrt fram að hið nýja embætti eða hið nýja velferðarráðuneyti muni bera hugsanlegan viðbótarkostnað vegna húsnæðis. Þá tekur fjármálaráðuneytið einnig skýrt fram í umsögn sinni að viðbótarfjármagn muni ekki fylgja nýjum verkefnum. Enn fremur setur fjármálaráðuneytið fram þá skoðun að lögbundið gjald af áfengi og tóbaki skuli renna í ríkissjóð fremur en í lýðheilsusjóð. Stjórn Fíh telur að gangi það efir muni farsælu forvarnarstarfi á sviði áfengis- og tóbaksvarna verða ógnað.

 

Stjórn Fíh leggst alfarið gegn fyrirhuguðu heiti hins „sameinaða“ embættis og ákvæðum um að landlæknir veiti embættinu forstöðu. Heiti landlæknisembættisins hefur eingöngu verið breytt í embætti landlæknis og síðan lýðheilsunni skeytt aftan við. Stjórnin telur þetta heiti einnig koma í veg fyrir þann sjálfsagða möguleika að sameina undir sama hatt aðrar stofnanir og/eða nefndir á sviði eftirlits tengdu heilbrigðisþjónustu eða á sviði forvarnarstarfs. Stjórnin hafnar því alfarið að einungis læknar geti veitt lýðheilsustarfi og eftirlitsstarfi með heilbrigðisþjónustu forstöðu. Löggiltar heilbrigðisstéttir eru nú 33 talsins. Það að ákvarða að einungis meðlimir einnar stéttar geti veitt embættinu forstöðu vegur að jafnræði stéttanna auk þess sem það kann að hafa áhrif á traust notenda heilbrigðisþjónustunnar og  heilbrigðisstarfsmanna til eftirlitsins. Í 2. gr.frumvarpsins segir að landlæknir sem veiti embættinu forstöðu skuli hafa „sérfræðimenntun í læknisfræði, þekkingu á sviði lýðheilsu og víðtæka reynslu eða menntun á sviði stjórnunar“. Stjórn Fíh fullyrðir að fáir læknar uppfylli þessi skilyrði og því nánast hægt að nafngreina þá einstaklinga sem til greina koma til að veita embættinu forstöðu!

 

Stjórn Fíh leggur til að frumvarp þetta verði dregið til baka en þess í stað unnið að víðtækari sameiningu stofnana á sviði forvarna og lýðheilsumála, ásamt eftirliti með heilbrigðisþjónustu. Stjórnin leggur til að unnið verði að sameiningu þeirra stofnana sem um þessi mál fjalla nú undir eina stofnun sem beri heitið Heilbrigðisstofa. Eftirfarandi stofnanir gætu fallið undir Heilbrigðisstofu samkvæmt eftirfarandi skipulagi:

 

 

 

Heilbrigðisstofa 

 

Eftirlit: 

Landlæknir
Lyfjastofnun
Geislavarnir

Forvarnir/lýðheilsa: 

Lýðheilsustöð
 Heyrnar- og talmeinastöð

Nefndir:

Lyfjagreiðslunefnd
Vísindasiðanefnd

 

 

Stjórn Fíh leggur til að forstjóri veiti Heilbrigðisstofu forstöðu og að hann skuli vera  menntaður á heilbrigðissviði og hafa menntun og/eða reynslu af stjórnun. Hverri einingu stýri deildarstjóri og þannig geti hið 250 ára gamla heiti „landlæknir“ lifað áfram. Stjórn Fíh fullyrðir að með stofnun og starfsrækslu slíkrar heilbrigðisstofu fengist mikill faglegur ávinningur í formi samvinnu sérfræðinga og samþættingu verkefna. Auk þess næðist fram verulegur fjárhagslegur ávinningur með fækkun forstjóra og skilvirkari dreifingu verkefna.

 

Stjórn Fíh hvetur heilbrigðisnefnd Alþingis til að vinna að því að fallið verði frá þeim breytingum sem lagðar eru til í umræddu frumvarpi. Þess í stað verði þegar hafinn undirbúningur að raunverulegri sameiningu stofnana í samræmi við það sem stjórn Fíh leggur hér til.

 

 

Virðingarfyllst,

F.h. stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga,

________________________________________

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður

Umsagnir

Heilbrigðiskerfið

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála