Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Umsögn um frumvarp til laga

6. desember2010

 

                                               

 

Reykjavík 6. desember 2010

 

 

Nefndasvið Alþingis

Austurstræti 8 - 10

150 Reykjavík

 

 

Efni:   Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum, 191. mál.

 

 

Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar fyrir að fá tækifæri til að veita umsögn um ofangreint frumvarp.

 

Stjórnin telur mikilvægt að farið sé vel með almannafé og skýrt sé hvaða þjónustu ríkið og ríkisstofnanir eru á hverjum tíma að kaupa af sveitarfélögum og öðrum rekstraraðilum hjúkrunarheimila. Einnig er brýnt að heimilismenn og aðstandendur geti fengið upplýsingar um hvaða þjónustu ber að veita og hvaða viðmiðanir eru í gildi varðandi þann mannafla sem þjónustuna veitir á hverju heimili. Til að svo megi verða er nauðsynlegt að skýrir þjónustusamningar séu í gildi á milli aðila. Stjórn Fíh leggst því gegn því að gildistöku umrædds ákvæðis verði frestað.

 

Eins og fram hefur komið í gögnum frá forystumönnum Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu (SFH) er þörf íbúa á hjúkrunarheimilum fyrir þjónustu sífellt að aukast. Sjálfsbjargargeta þeirra hefur minnkað, heilsufarsvandamálin eru alvarlegri og fjölþættari og þeir þurfa sérhæfðari hjúkrun en áður var. Vistunarmat ræður nú vistunum á hjúkrunarheimilum og því er þjónustuþörf hvers íbúa nokkuð ljós við innlögn. Skyldur þeirra er reka heimilin er því mikil, að tryggja nægilega og rétta mönnun til að veita örugga þjónustu af fullnægjandi gæðum. Í þessu sambandi er vert að vekja athygli á áherslum Landlæknisembættisins varðandi heilbrigðisþjónustu og mönnun á hjúkrunarheimilum. Annars vegar í ritinu Áherslur í heilbrigðisþjónustu á hjúkrunarheimilum (2008), sjá  http://www.landlaeknir.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=3622 þar sem sett eru fram viðmið um helstu þjónustuþætti, þ.e. um hjúkrun og umönnun, læknisþjónustu og lyf,

endurhæfingu, sálgæslu, dægrastyttingu, fæði, húsnæði, umhverfi og fjármál íbúa. Hins vegar Hjúkrunarmönnun á öldrunarstofnunum – ábendingar Landlæknisembættisins (2001) sjá http://www.landlaeknir.is/Uploads/FileGallery/Utgafa/utg_hjukmonn01.pdf Þar setur Gæðaráð Landlæknisembættisins í öldrunarhjúkrun fram mönnunarlíkan miðað við að fullnægjandi hjúkrun á hjúkrunarheimilum eða hjúkrunarrýmum á öldrunarstofnunum

verði fyrst og fremst tryggð með viðeigandi mönnun.

 

 

 

 

Í ljósi ofanritaðs og áherslna Landlæknisembættisins telur stjórn Fíh afar mikilvægt að skýrir samningar séu í gildi á milli ríkisvaldsins, sem kaupanda þjónustu, og rekstraraðila hjúkrunarheimilanna, sem veitenda þjónustunnar. Stjórnin fullyrðir að með skýrum þjónustusamningum fáist meira fyrir það fé sem veitt er til reksturs hjúkrunarheimila hér á landi.

 

Stjórn Fíh ítrekar andstöðu sína við að gildistöku umrædds ákvæðis verði frestað.

 

 

Virðingarfyllst,

 

F.h. stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga,

 

 

________________________________________

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður

Umsagnir

Heilbrigðiskerfið

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála