Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

5. fundur stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga starfstímabilið 2010 – 2011

7. desember2010

Þriðjudaginn 7. desember 2010 kl. 11:00

 

 

Mættir:

Elsa B. Friðfinnsdóttir, Áslaug Birna Ólafsdóttir, Fjóla Ingimundardóttir, Guðbjörg Pálsdóttir, Gunnar Helgason, Helga Atladóttir, Herdís Gunnarsdóttir, Hildur Einarsdóttir, Ingibjörg Þórisdóttir, Íris Dröfn Björnsdóttir, Jóhanna Oddsdóttir, Ragnheiður Gunnarsdóttir, Sigurveig Gísladóttir, Stella S. Hrafnkelsdóttir, Svanhildur Jónsdóttir og Þórunn Sævarsdóttir.

Boðuð forföll:

 Aðalheiður D. Matthíasdóttir, Kristín Thorberg.

 

Til afgreiðslu:

1.   Fundargerð síðasta fundar

Samþykkt með minniháttar breytingum.

2.   Jólastyrkur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga 2010

Ákveðið var að styrkja verkefnið Heilsuhýsið, sem stofnað var af hjúkrunarfræðingum en er nú rekið af Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands.

3.   Tillaga stjórnar orlofssjóðs um byggingu sumarbústaðar

Rætt var um tillögu stjórnar orlofssjóðs um að taka tilboði byggingarfyrirtækis um byggingu heilsárshúss að Lokastíg 3 í Grímsnesi. Stjórnin beinir þeim tilmælum til stjórnar orlofssjóðs að verkið verði boðið út.

Einnig var ákveðið að beina til stjórnar orlofsjóð að:

1)     Skoða og kynna möguleika á kaupum á íbúð á Akureyri.

2)     Skoða möguleika á ráðningu umsjónarmanns orlofshúsa Fíh.

4.   Tillaga frá Minjanefnd um samstarf við Lækningaminjasafnið

Tekin var fyrir tillaga Minjanefndar Fíh um að þeir 1000 munir sem eru í eigu félagsins verði afhentir Lækningaminjasafninu, sem er hluti Þjóðminjasafnsins, til varðveislu og eignar. Tillagan var samþykkt. Stjórnin leggur þó áherslu á að:

1)     Nafni safnsins verði breytt í  Lækninga- og hjúkrunarminjasafn.

2)     Munir Fíh verði alltaf sýnilegir á hverjum tíma í safninu.

Þá var samþykkt að styrkja áframhaldandi skráningu muna Fíh um sem nemur allt að hálfu starfi í eitt ár. Leitað verði eftir áframhaldandi starfi Bergdísar Kristjánsdóttur í verkefnið.

5.   Tillaga formanns um tímabundna hækkun starfshlutfalls fjármálastjóra

Samþykkt var tillaga um að hækka starfshlutfall fjármálastjóra tímabundið um 10% í 4 mánuði.

 

Til umræðu:

6.   Rekstraryfirlit fyrir fyrstu 10 mánuði ársins

 • Launatalan hefur hækkað, einkum vegna launa Sólfríðar Guðmundsdóttur, sem ráðin var sem umsjónaraðili Heilsuátaks félagsins.
 • Tryggingagjald hækkar samhliða lífeyrisgreiðslum vegna tengingar við lífeyrisskuldbindingar.
 • Erum 22 millj. kr. í hagnað í lok október.  Stefnir í hagnað í lok árs. Tillegg til félagssjóð frá sjúkra- og styrktarsjóðum kemur til sem tekjur á næsta ári. Við gerð rekstraráætlunar verður að meta áhrif niðurskurðar í heilbrigðisþjónustu á tekjur félagsins. Umræða varð um hvort svigrúm yrði á næsta ári til að lækka félagsgjöldin
 • Vaktið var máls á því hvort hægt væri að skipta upp fjárhagsáætlun eftir sviðum félagsins.  Þannig geti stjórnin lagt línurnar með sviðsstjórum félagsins.
 • Nefnt var hvort rétt væri að hefja að nýju greiðslur í vinnudeilusjóð.

7.   Umræða um heilbrigðisstéttir að frumkvæði Gunnars Helgasonar

Upphaf þessarar umræðu var í kjölfar erindis lækna á málþingi Umhyggju í tengslum við niðurskurðurinn í heilbrigðiskerfinu og núverandi og fyrirséðan skort á læknum. Almennt var rætt um að niðurskurður undafarin misseri hefur að mestu leyti snúið að hjúkrunarfræðingum.  Flestir fundarmenn tóku virkan þátt umræðu um eftirfarandi:

 1. Heilsugæsla og hjúkrun
 • Rætt var um að með þeim vanda sem blasir við í heilsugæslunni vegna skorts á læknum þá skapast tækifæri til endurskipulags á hefðbundinni uppbyggingu þjónustu lækna, hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra í heilsugæslu.
 • Rætt var um sóknarfærin sem felast í menntun Nurse Practioner fyrir heilsugæsluna, þar sem hjúkrunarfræðingar geta m.a. skrifað upp á sum verkjalyf og magalyf.  Tækifæri eru til að nýta sóknartækifærin hjá okkur og að við kynnum fyrir hvað við stöndum.  Við eigum ekki að láta lækna segja okkur hvað við eigum eða megum gera í heilsugæslunni.  Það er afleitt að og að þurfa að panta tíma hjá lækni í heilsugæslu eftir eina viku þegar hægt er að nýta vinnu og menntun hjúkrunarfræðinga. Tekið var sem dæmi að sérfræðingar í hjúkrun frá Landspítala eru í miklu virku samstarfi við heilsugæsluna, heimaþjónusta, Karítas og heimahlynningu.
 • Samþykkt var að gera tillögu að því að fara af stað með ímyndarátak um hjúkrun í heilsugæslunni með aðkomu allra aðila.
 1. Nýting auðlinda í heilbrigðisþjónustu, forgangsröðun og sérhæfing
 • Rætt var um að ástæða væri til að félagið óski eftir að teknar verði saman tölur um nýtingu og þörf sérfræðinga í heilbrigðisstéttum og umönnunarstörfum.
 • Rætt var um ábyrgð yfirmanna hjúkrunar að sækjast eftir að nýta sérfræðiþekkingu hjúkrunar og fyrir þá þjónusta sem er í boði.
 • Rætt var um að nýta þurfi sóknarfærin og tengingu sjúkrahúsa við þjónustu hjúkrunar í heilsugæslu. Næg þekking er í hjúkrun á ýmsum sérsviðum til að efla heilsugæsluna og stofnanir enn frekar.
 • Rætt var um mikilvægi forgangsröðunar í heilbrigðiskerfinu og að þar væru hjúkrunarfræðingar í forystu.
 • Rætt var um að hjúkrunarfræðingar / Fíh sé leiðandi í því að kalla á breytingar í heildarskipulagi heilbrigðisþjónustu, þannig að þarfir sjúklinga og sjúklingahópa sé í brennidepli. Til þess að það náist þarf heilbrigðiskerfið að vera þjónustudrifið og skilvirkt með sérhæfingu sem uppfyllir heildrænt þarfir sjúklingahóp.  Til þess þurfum við að hverfa að einhverju leyti frá stofnannamiðari þjónustu sem gengur út á samkeppni um fjármagn og sérfræðivald. 
 • Rætt var um ýmis tækifæri fyrir gæðaviðmið í heilbrigðisþjónustu og gögn sem gefa góðar vísbendingar um stöðu þjónustunnar og hvar má bæta þjónustu.  Álag mun aukast því það eru fleiri sjúklingar sem lifa lengur heima sem þurfa mikla meðferð eða líknandi meðferð.

 

 1. Ímynd og samstaða hjúkrunarfræðinga.
 • Rætt var um mikilvægi þess að styðja við metnað og menntun hjúkrunarfræðinga því við þurfum fleiri hjúkrunarfræðinga sem sérhæfa sig í meðferð sjúklinga.
 • Rætt var um mikilvægi þess að standa vörð um skipulag er varðar yfirstjórn hjúkrunar á stofnunum.
 • Rætt var um mikilvægi þess að stjórnarmenn Fíh leggi sitt að mörkum við að efla umræðu um hjúkrun og hvað við stöndum fyrir.
 • Rætt var um að mikilvægt er að hjúkrunarfræðingar / Fíh komi sér upp tengslaneti við fjölmiðla um heilbrigðismál og alla undirflokka þess málaflokks.  Slíkir tengiliðir gætu fengið þjálfun hjá almannatengli og sett væri upp aðgerðaáætlun og sameiginleg sýn sem allir slíkir tengiliðir myndu miðla um leið og þeir fjalla um eða svara fyrirspurnum er varðar sitt sérsvið.
 • Greint var frá því að hjúkrunarfræðingur úr heilsugæslunni hefði ekki fengið grein birta hjá Morgunblaðinu en auðveldara er um vik hjá Fréttablaðinu. 
 • Rætt var um mikilvægi þess að samtal milli forystu manna í hjúkrun á stærstu stofnunum með formanni Fíh og forsetum hjúkrunarfræðideilda/ -sviða.
 • Ákveðið hefur verið að Þorvaldur Þorsteinsson muni leiða umræðu um skapandi skrif sem á að tengja við námskeið hjá Sirrý um fjölmiðla og framkomu.
 • Rætt var um að endurvekja ímyndarhópinn eða stofna nýtt verkefni með auglýsingastofunni Athygli.
 • Vakin var athygli á skýrslunni „Hver geri hvað?“ og verður hún sett inn á verkefnavefinn.

 

8.   Breytingar á hagræðingaráformum í heilbrigðisþjónustu

Elsa sendi bréf til heilbrigðisráðherra 15 september með ósk um fund. Fulltrúum stjórnar Fíh hefur nú verið boðið til fundar við ráðherra miðvikudaginn 8. desember, kl. 10. Eftirfarnandi var rætt.

 • Rætt var um breytingar sem nú eru boðaðar á hagræðingaráformum í heilbrigðisþjónustu, Einkum var rætt um greiðslugrunninn, þ.e. tengingu greiðslna fyrir umönnun og hjúkrun við meðaldaggjöld á hjúkrunarheimilum. Stjórnin telur hættu á að framkvæmdastjórar stofnana muni bregðast við með því að segja upp millistjórnendum, fækka hjúkrunarfræðingum á vöktum og ráða í staðinn minna menntaða eða ófaglærða starfsmenn.
 • Lækkun á gjaldi fyrir sjúkrarými samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi var úr 64 þús. niður í 38 þús. á hvert sjúkrarými. Umræða var um hvað er fólgið í þjónustu fyrir hvert sjúkrarými í þjónustu úti á landi, s.s. er varðar rannsóknir og fleira. Þessi umræða þýðir það að þessi upphæð dugar ekki fyrir hefðbundinni hjúkrunarþjónustu.
 • Lögð var áhersla á það að á fundi með ráðherra yrði spurst fyrir um áform heilbrigðisyfirvalda um hvaða þjónusta á að vera hvar og eins hvað er rétt gjald fyrir sjúkrarými og hvaða forsendur þurfa að liggja þar að baki.

 

9.   Félagatalið – skilyrði greiðslu úr kjarasamningsbundnum sjóðum Fíh

Lagt var fram minnisblað frá Dýrleifu Kristjánsdóttur, hdl, um skilyrði greiðslu úr kjarasamningsbundnum sjóðum Fíh. Málið verður rætt frekar á næsta fundi stjórnar.

 

Til kynningar:

10.               Staðan í BHM málum

 • Fyrirtaka fyrir gerðardómi í ágreiningsmáli Fíh og BHM vegna styrktar- og sjúkrasjóða verður í dag. Vonast er eftir niðurstöðu dómsins innan fjögurra vikna.
 • Rætt var um stöðuna í kjaraviðræðum. Almennt er talað um að semja til 3 ára hjá Samninganefnd ríkisins og að allir launþegar hafi fengið sömu prósentuhækkun í lok tímabils, þó svo að útfærslan sé mismunandi yfir tímabilið.
 • Svörun í kjarakönnun í nóvember var eingöngu um 20%. Umræða var um ástæður lítillar þátttöku í ljósi þess að greina hvar skal leggja áherslu í kjarabaráttu.  Umræða var um hvernig væri hægt að vekja áhuga hjá hjúkrunarfræðingum á kjörum.  Afar áríðandi er að geta fengið samanburðargögn frá Fjársýslunni.
 • Mikilvægt er að skapa umræðu um hvernig við getum haft áhrif á hjúkrunarnema og ala hjúkrunarfræðinga upp í því í námi að ganga inn í hlutverk leiðtoga. Ætlum við að ala upp umönnunarstétt í hjúkrun eða skapa virka leiðtoga sem eru fúsir til að stjórna.  Mikið uppeldi fer fram á deildum og vinnustöðum og skoða þarf hvers konar félagsmótun fer fram á vinnustöðum.
 • Rætt var um uppsögn samnings SÍ við Heilsueflingarmiðstöðina. Samningurinn átti að renna út um ármót.  Stofnuninni var gert að skera niður í heimahjúkrun og ákveðið var að leggja það til hjá SÍ að leggja niður samning við Heilsueflingarmiðstöðina af því að það væri auðveldast að koma þessari þjónustu fyrir annars staðar.  Ráðherra hefur sagt að hann mundi tryggja að þessi þjónusta muni ekki falla niður.

11.               Önnur mál

 

 

Fundi slitið kl. 15:10.

Herdís Gunnarsdóttir, ritari stjórnar Fíh.

 

 

Fundargerðir

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála