Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Umsögn um frumvarp til laga

24. febrúar 2011

 

                                               

Reykjavík 24. febrúar 2011

 

Nefndasvið Alþingis

Austurstræti 8 - 10

150 Reykjavík

Efni:   Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, 311. mál.

 

 

Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar fyrir að fá tækifæri til að veita umsögn um ofangreint frumvarp. Stjórn Fíh tekur undir það sjónarmið sem fram kemur í yfirlýstum tilgangi með framlagningu frumvarps þessa að aukinn sveigjanleiki í rekstrarumhverfi stofnana ríkisins sé af hinu góða. Einnig að fjármunir séu nýttir á sem árangursríkastan hátt og að hæfustu einstaklingarnir veljist í hverja stöðu. Stjórn Fíh leggur hins vegar áherslu á að aðrar einfaldari og árangursríkari leiðir eru færar til að ná fram umræddum sveigjanleika. Nýleg könnun meðal forstöðumanna ríkisstofnana sýnir til dæmis að mikill minnihluti þeirra nýtir starfsmannasamtöl sem stjórntæki. Meiri kröfur til forstöðumanna stofnana um beitingu þeirra stjórntækja sem til staðar eru í starfsumhverfi stofnana ríkisins myndi ná sama árangri og næðist með þeim tillögum sem lagðar eru fram í frumvarpinu.

 

Athugasemdir um einstakar greinar frumvarpsins:

 

1.gr.  Stjórn Fíh leggst alfarið gegn því að áminningarskyldan skv. 21. gr. verði lögð af en telur að rétt kunni að vera að veita heimild til þess að veita munnlega áminningu þar sem starfsmanninum væri gefinn kostur á að tala máli sínu. Starfsmaðurinn ætti þá rétt á að hafa trúnaðarmann/fulltrúa stéttarfélags viðstaddan þegar slík munnleg áminning væri veitt. Gera verður þá kröfu til stjórnenda stofnana að rík og málefnaleg ástæða sé fyrir áminningu og/eða uppsögn á starfi. Ef brot/yfirsjón starfsmanns telst  „alvarleg“  þá hefur yfirmaður heimild til þess að víkja starfsmanni úr starfi án áminningar – en starfsmaðurinn á rétt á rökstuðningi fyrir slíkri tafarlausri brottvikningu.

 

2.gr. Með óbreyttri 21. gr. helst 4. mgr. 26. gr. laganna einnig óbreytt.

 

3.gr.  Stjórn Fíh leggst gegn breytingu á 38. gr. laganna.

 

4.gr. Að óbreyttri 21. gr. laganna helst 44. gr. laganna einnig óbreytt.  Stjórn Fíh leggur áherslu á að stjórnsýslulögin gildi um allar stjórnvaldsákvarðanir stjórnenda stofnana og að ófært sé með öllu að losa stjórnendur undan ákvæðum stjórnsýslulaga.

 

5.gr. Að óbreyttri 21. gr. laganna helst 51. gr. laganna einnig óbreytt.

 

 

Virðingarfyllst,

F.h. stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga,

________________________________________

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður

Umsagnir

Kjaramál

Mönnun

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála