Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Umsögn um tillögur

11. mars 2011

 

Reykjavík 11. mars 2011

 

 

Guðbjartur Hannesson,

velferðarráðherra

Velferðarráðuneytinu

Hafnarhúsinu við Tryggvagötu

150 Reykjavík

 

Efni:   Umsögn um tillögur um starfrækslu heilsuvaktar.

 

 

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar fyrir að fá tækifæri til að veita umsögn um tillögur um starfrækslu heilsuvaktar. Að umsögninni unnu auk undirritaðrar, Aðalbjörg J. Finnbogadóttir, sviðstjóri fagsviðs Fíh, stjórn fagdeildar bráðahjúkrunarfræðinga og stjórn fagdeildar heilsugæsluhjúkrunarfræðinga.

 

Fíh fagnar þeim hugmyndum sem settar eru fram í skýrslunni og telur að þær auki gæði heilbrigðisþjónustunnar og aðgengi þeirra sem leita þurfa eftir þjónustu. Fíh leggur áherslu á mikilvægi þverfaglegrar samvinnu til eflingar heilsugæslunni. Sú kostnaðargreining sem sett er fram í skýrslunni sýnir að starfræksla heilsuvaktar er þjóðhagslega hagkvæm. Fíh lýsir sérstakri ánægju með nafnið Heilsuvakt þ.e. að leggja áherslu á að hver og einn þurfi að vakta sína heilsu og leita sér aðstoðar þegar það á við og þangað sem það á við.

 

Fíh vekur athygli á eftirfarandi þáttum sem tengjast einstökum tillögum í skýrslunni:

 

Tillaga 1.

Engar athugasemdir.

 

Tillaga 2.

Gangi tillagan eftir þarf að tryggja gott aðgengi að barnalæknaþjónustu innan heilsuvaktar til að koma í veg fyrir að fólk með veik börn leiti beint á bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins eftir sérhæfðri þjónustu.

 

Tillaga 3.

Fíh leggur sérstaka áherslu á að aðstaða verði á heilsugæslustöðvum til að taka á móti og annast minni háttar áverka vegna smáslysa. Skilgreina þarf þjónustuviðmið fyrir heilsugæsluna þannig að verklag við tilvísanir á bráðasjúkrahús sé skýrt og samræmt þannig að sjúklingar njóti sambærilegrar heilbrigðisþjónustu í samræmi við lög um réttindi sjúklinga. Endurskipuleggja þarf innra starf heilsugæslustöðvanna meðal annars með það í huga að nýta sem best þekkingu hvers og eins faghóps. Hjúkrunarfræðingar geta sinnt mun meiri bráðaþjónustu á heilsugæslustöðvum en nú tíðkast til dæmis eftir sérstaka klínískra þjálfun í meðferð minni háttar sára (sauma), gifsun, endurlífgun o.fl.

Óljóst er hvernig mönnun hjúkrunarfræðinga verður háttað eftir kl. 16:00 þegar fækka á starfsfólki eins og unnt er (bls. 15-16). Þá vill Fíh ítreka að fækkun starfsfólks á þessum tíma er í ósamræmi við dreifingu á fjölda koma yfir daginn sbr. mynd 2 bls. 7. Sú mynd sýnir að flestar komur eru á tímabilinu 14:55-17:50. Til að mæta þeirri eftirspurn ættu flestir að vera við störf á þeim tíma.

Þá vill Fíh einnig benda á að með góðri eftirfylgd á dagvinnutíma, þeirra sjúklinga sem hafa langvinn vandamál, má koma í veg fyrir óvænt vandamál á öðrum tímum sólahringsins. Þar ættu hjúkrunarfræðingar og klínískir sérfræðingar í hjúkrun að sinna veigameiri þáttum þjónustunnar en nú er.

Tillaga 4.

Vegna heilsuvaktarinnar þarf að tryggja nægilega mönnun sérþjálfaðra hjúkrunarfræðinga sem geta forgangsraðað skjólstæðingum á rétt þjónustustig eftir bráðleika ástands þeirra. Brýnt er að huga að öryggi starfsmanna sem vinna á heilsuvaktinni og sinna vöktum utan dagvinnutíma. Skoða þarf sérstaklega húsnæði, aðgengi og öryggismál með þarfir starfsmanna jafnt sem skjólstæðinga í huga.

 

Tillaga 5.

Forgangsröðun og ráðgjöf hjúkrunarfræðings í gegnum síma er að mati Fíh undirstaða markvissari nýtingar vaktþjónustu heilsugæslunnar. Hjúkrunarfræðingar eiga og geta sinnt því hlutverki. Sá er sinnir slíku hlutverki verður að búa að umfangsmikilli reynslu og sérþekkingu á gagnreyndum forgangsröðunarkerfum s.s. ESI (Emergency Severty Index).  Æskilegast er að forgangsröðunarkerfi sé innleitt á öllum stigum heilbrigðisþjónustunnar. Þannig má best auka öryggi í meðferð sjúklinga og beita aðgangsstýringu samkvæmt gagnreyndum aðferðum. Forgangsröðunarkerfi hafa um áratugaskeið sannað gildi sitt erlendis. Á bráðasviði LSH hefur ESI forgangsröðunarkerfið reynst vel og er frekari innleiðing á því annarsstaðar en í bráðaþjónustu LSH í undirbúningi. Aðrar stofnanir s.s. Sjúkrahúsið á Akureyri  og Heilbrigðisstofnun Suðurlands eru að greina þarfir fyrir forgangsröðun. Fíh telur brýnt að forgangsröðunarkerfi sé grunnurinn að allri neyðarþjónustu í heilbrigðiskerfinu til að tryggja það að þeir sem sannanlega reynast bráðveikir fái ávallt þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda, á réttum stað, á réttum tíma.

 

Tillaga 6.

Fíh leggur áherslu á að heilsugæsluhjúkrunarfræðingar taki þátt í störfum verkefnahóps við uppbyggingu hlutverks hjúkrunarfræðinga við símsvörun hjá 112.

Fíh tekur undir að grundvöllurinn að réttri þjónustustýringu sé eitt samræmt símanúmer sem gildi fyrir landsmenn alla. Reynsla í forgangsröðun er lykilatriði við úrvinnslu þeirra erinda sem í símanúmerið berast. Með samvinnu hjúkrunarfræðinga með reynslu í forgangsröðun og neyðarvarða, er best unnt að tryggja að skjólstæðingar fái rétta, viðeigandi og örugga þjónustu.

 

Tillaga 7.

Sjúkraskrárkerfi Sögu er mest notaða sjúkraskrárkerfi landsins. Hins vegar eru útgáfur kerfisins margar og ólíkar og skortur á innri tengingum. Tryggja þarf samræmda útgáfu fyrir allar stofnanir svo upplýsingar komist til skila með hagsmuni skjólstæðinga að leiðarljósi.

 

Tillaga 8.

Að mati Fíh þarf að bæta til muna upplýsingar þær sem beint er til almennings um þjónustuúrræði í heilbrigðiskerfinu. Nota ætti til þess fjölmiðla (prent- og ljósvakamiðla), vefsvæði stofnana og aðrar mögulegar upplýsingaleiðir. Einnig má benda á hlutverk skólahjúkrunarfræðinga í því að veita upplýsingar innan skólakerfisins og aðra hjúkrunarfræðinga sem veita samfélagsþjónustu. Jafnframt því að upplýsa almenning þarf að upplýsa heilbrigðisstarfsmenn almennt um þjónustuúrræðin svo verkefnum sé vísað í viðeigandi farveg.

Fíh styður tillögur um fyrsta og annan viðkomustað en ítrekar mikilvægi þess að auka aðkomu hjúkrunarfræðinga í mati á ástandi sjúklinga við fyrstu móttöku og forgangsröðun skjólstæðinga í heilsugæslu.

Tillaga 9.

Engar athugasemdir.

Tillaga 10.

Engar athugasemdir.

Tillaga 11.

Fíh fagnar hugmyndum um að heilsuvaktin verði í framtíðinni í göngudeildarbyggingu nýs Landspítala.

Með aðkomu hjúkrunarfræðinga með sérþekkingu á mati og nýtingu réttra þjónustuúrræða skapast forsendur til þess að auka gæði í þjónustu við skjólstæðinga heilbrigðisþjónustunnar án þess að það feli í sér kostnaðaraukningu fyrir þá. Þótt að við vissar aðstæður sé nauðsynlegt að unnt sé að leita þjónustu strax og án tafar, er hitt ekki síður mikilvægt að leitað sé til aðila með rétta þekkingu sem fylgt getur eftir einkennum og meðferð yfir einhverja daga eða vikur. Slík erindi berast í of miklum mæli á bráðamóttökur í dag og fela í sér aukinn kostnað fyrir sjúklinga og jafnvel verri horfur. Það að vísa skjólstæðingum á viðeigandi þjónustustig í samræmi við eðli erindis er hornsteinn þess að viðhalda gæðum í heilbrigðisþjónustunni án þess að kostnaður við heilbrigðiskerfið aukist stöðugt. Sem málsvarar sjúklinga vilja hjúkrunarfræðingar ítreka að sérþekking verður að liggja að baki greiningu erinda og þar með tilvísun á mismunandi þjónustustig. Hlutverk hjúkrunarfræðinga, sér í lagi bráða- og heilsugæsluhjúkrunarfræðinga er að axla þá ábyrgð sem í þekkingu þeirra er fólgin og upplýsa almenning um hvert skal leita hverju sinni og standa þannig vörð um öryggi þeirra og hagsmuni.

 

Fíh fagnar þessum tillögum og þeirri grunnhugmyndafræði sem sett er fram. Fíh telur að með öflugu samstarfi bráðahjúkrunarfræðinga og hjúkrunarfræðinga innan heilsugæslunnar megi lyfta Grettistaki og bæta aðgengi að hágæða heilbrigðisþjónustu í samræmi við þarfir landsmanna.  Um leið er staðinn vörður um ábyrga fjármálastýringu innan heilbrigðiskerfisins með öflugri forvakt.

 

 

Virðingarfyllst,

 

F.h. Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga,

 

________________________________________

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður

Umsagnir

Heilbrigðiskerfið

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála