Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

8. fundur stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga starfstímabilið 2011 – 2012

21. febrúar 2012

þriðjudaginn 21. febrúar 2012 kl. 11:00

Mættir

Elsa B Friðfinnsdóttir, Kristín Thorberg, Fjóla Ingimundardóttir, Stella Hrafnkelsdóttir, Aðalheiður D. Matthíasdóttir, Margrét Blöndal, Sigríður Kristinsdóttir, Björk Elva Jónasdóttir, Ragnheiður Gunnarsdóttir, Svanhildur Jónsdóttir, Hildur Einarsdóttir, Gunnar Helgason, Áslaug Birna Ólafsdóttir, , Herdís Gunnarsdóttir, og fundarritari Þórunn Sævarsdóttir

Gestir

Sólveig Stefánsdóttir, fjármálastjóri, og Cecilie B. Björgvinsdóttir, sviðstjóri kjara- og réttindasviðs

Boðuð forföll

Guðbjörg Pálsdóttir, Ingibjörg Halla Þórisdóttir og Jóhanna Oddsdóttir.

Til afgreiðslu

1.   Fundargerð síðasta fundar.

. Fundargerð samþykkt með þeim breytingum sem fram hafa komið.

2.   Fjárhagsáætlun félagssjóðs fyrir 2012.

Varaformanni, gjaldkera og ritara var á fundi stjórnar 17 janúar 2012, falið að yfirfara launakjör formanns. Laun formanns voru lækkuð í kjölfar bankagruns í janúar 2009. Hópurinn leggur til að laun formanns verði aftur færð til fyrra horfs. Tillagan var einróma samþykkt.

Sólveig kynnir breytingar á áætlun félagssjóðs.

Gert er ráð fyrir auknum launakostnaði félagssjóðs á árinu 2012 sem m.a. kemur til vegna breytinga á launum starfsmanna félagsins, en þau hafa staðið í stað frá árinu 2008. Einnig er hækkun undir liðnum stjórnun og umsýsla, þar skiptir mestu aðkeypt þjónusta vegna verkefnis sem unnið er í samvinnu við Þórð Víking Friðjónsson. Á kjarasviði er gert ráð fyrir hækkun á lögfræðikostnaði um 1 miljón. Samþykkt var breyting á tillagi orlofssjóðs sem kemur til vegna aukins álags á skrifstofu félagsins tengt auknum umsvifum sjóðsins, viðbótartillag orlofssjóðs verður 2,5%, sem reiknast af öðrum tekjum orlofssjóðs. Tillagið endurspeglar þannig álagið á skrifstofuna tengt starfsemi sjóðsins sem og umsvif sjóðsins. Hækkar við aukið álag og framboð og minnkar að sama skapi þegar umsvif sjóðsins minnka.

Fjárhagsáætlun félagssjóðs gerir ráð fyrir hagnaði upp á tæp 400.000 árið 2012. Samkvæmt fjármálastjóra er það ásættanlegt svigrúm þar sem kostnaður er víða ríflega reiknaður. Fjárhagsáætlun félagssjóðs var samþykkt einróma.

Til umræðu

3.   Rekstaryfirlit sjóða 2011.

Sólveig lagði fram rekstraryfirlit Orlofssjóðs, Starfsmenntunarsjóðs, Vísindasjóðs, Vinnudeilusjóðs, Sjúkrasjóðs og Styrktarsjóðs fyrir árið 2011. Orlofssjóður skilaði hagnaði upp á 6,5 milljónir árið 2011 sem er töluvert yfir áætluðum hagnaði. Starfsmenntunarsjóður skilaði tapi upp á 4,7 milljónir sem er ásættanlegt og viðráðanlegt. Vísindasjóður skilaði hagnaði upp á 5 milljónir. Vinnudeilusjóður skilaði hagnaði upp á rúmar 16 milljónir. Styrktarsjóður skilaði á árinu 2011 tapi upp á 30 milljónir og Sjúkrasjóður skilaði tapi upp á 5 milljónir.

4.   Fjárhagsáætlun sjóða fyrir 2012 – fyrstu drög.

Fjárhagsáætlun Orlofssjóðs gerir ráð fyrir lítilsháttar tapi árið 2012, þar er verið að reyna að eyða hagnaði fyrri ára. Orlofssjóður heldur áfram að bjóða upp á fjölbreytta möguleika fyrir félagsmenn og á síðasta ári komu inn ýmsir nýir möguleikar eins og t.d. niðurgreiddir flugmiðar.  Þeir hafa notið mikilla vinsælda meðal félagsmanna og hefur framboð á þeim verið aukið. Fjárhagsáætlun orlofssjóðs fyrir árið 2012 var samþykkt einróma.

Áætlun starfsmenntunarsjóðs fyrir árið 2012 gerir ráð fyrir að styrkir verði hækkaðir í 45.000 kr. á ári og gert er ráð fyrir 10% hækkun iðgjalda í ár. Gert er ráð fyrir að starfsmenntunarsjóður skili tæplega 5 milljóna tapi árið 2012 sem er innan þeirra marka sem sjóðurinn ræður við. Fjárhagsáætlun Starfsmenntunarsjóðs var einróma samþykkt.

Fjárhagsáætlun Vísindasjóðs gerir ráð fyrir að hækka úthlutanir um 6% frá fyrra ári, einnig er gert ráð fyrir tapi upp á tæplega 1.400.000, áætlað tap er ásættanlegt. Áætlun Vísindasjóðs var samþykkt einróma.

Fjárhagsáætlun Vinnudeilusjóðs gerir ráð fyrir eigin fé sjóðsins verði 177 milljónir í lok árs. Fjárhagsáætlun sjóðsins var samþykkt einróma.

Fjárhagsáætlanir Styrktar – og sjúkrasjóða fengu ítarlega umfjöllun en báðir sjóðirnir skiluðu tapi árið 2011 og áætlun gerir einnig ráð fyrir tapi árið 2012. Styrktarsjóður skilaði tapi upp á 30 milljónir árið 2011 og áætlun gerir ráð fyrir tapi upp á 11 milljónir árið 2012. Sjúkrasjóður skilaði 5 milljóna tapi árið 2011 og útlit fyrir samsvarandi tap árið 2012. Fjárhagsleg staða sjóðanna er alvarleg og mikilvægt að koma í veg fyrir áframhaldandi halla þannig að sjóðirnir geti áfram gengt hlutverki sínu og stutt við félagsmenn eins og reglur sjóðanna kveða á um. Rætt var um möguleika á breytingum á úthlutunarreglum sjóðanna sem myndu vega upp á móti þessu tapi, m.a. var rætt um þann möguleika að skerða rétt til sjúkradagpeninga. Hann er nú allt að einu ári. Einnig var ræddur möguleikinn á að hækka lágmarksupphæð til endurgreiðslu á tannlæknakostnaði. Eins var rætt hvaða aðrir möguleikar væru á að mæta tapinu. Stjórnin ákvað að senda formlegt erindi til stjórnar Styrktar- og sjúkrasjóða um að skoðað yrði hvaða möguleikar koma til greina í því skyni að koma til móts við – og draga úr fjárhagshalla sjóðanna.

5.   Kjarakönnun Fíh.

Cecilie B. Björgvinsdóttir, sviðstjóri kjara- og réttindasviðs kynnti niðurstöður kjarakönnunar Fíh sem framkvæmd var 1.-15. desember síðastliðinn. Alls svöruðu könnuninni 544 hjúkrunarfræðingar eða 16,6%. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar hækkuðu grunnlaun hjúkrunarfræðinga um 5,7% á milli ára sem er 1,5% umfram almenna launahækkun. Önnur markverð niðurstaða könnunarinnar er að starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga hefur tekið verulegum breytingum á undanförnum árum en nú starfa ríflega helmingur svarenda í dagvinnu. Niðurstöður könnunarinnar eru birtar í nýjasta tölublaði Tímarits hjúkrunarfræðinga.   

6.   Tillögur til breytinga á starfsreglum stjórnar.

Vegna tímaskorts er umræðu um tillögu til breytinga á starfsreglum stjórnar frestað. Tillagan verður tekin fyrir á næsta fundi stjórnar þriðjudaginn 27 mars.

7.   Úttekt á stöðu lífeyrissjóðanna.

Herdís Gunnarsdóttir og Ragnheiður Gunnarsdóttir eru fulltrúar Fíh í LH. Þær kynntu stöðu sjóðanna LH og LSR og eigin vangaveltur. Sjóðirnir  LH og LSR urðu fyrir fjárhagslegu tjóni í hruninu 2008 sem nemur um 22-30% af heildareignum, eftir því hvaða reikniforsendur eru notaðar. Ekki voru brotin lög varðandi rekstur sjóðanna en hugleiða má hvort sumir gjörningar hafi verið siðferðilega réttir. Ragnheiður veltir því upp hvort stjórn Fíh vilji senda frá sér einhverja ályktun varðandi rekstur sjóðanna. Engar ákvarðanir voru teknar.

Til kynningar

8.   Staðan í BHM málinu.

Elsa kynnti stöðuna í BHM málinu. Stefndi hefur skilað inn greinargerð í Styrktarsjóðsmálinu. Aðalkrafa þeirra er að málinu verði vísað frá dómi, og sýkna til vara. Málinu verður því næst vísað til dómara og í framhaldi af því boðað til fyrstu fyrirtöku.

9.   Yfirfærsla á málefnum aldraðra frá ríki til sveitarfélaga.

Helga Atladóttir, fulltrúi Fíh í nefnd um flutning öldrunarþjónustu frá ríki til sveitarfélaga, sem starfar  á vegum velferðarráðuneytisins, kom á fundinn kl. 13:30. Nefndin er fjölmenn og skipuð fulltrúum hlutaðeigandi ráðuneyta, hagsmunaaðila, félagasamtaka aldraðra og stéttarfélaga. Undirbúningur að flutningi öldrunarþjónustu frá ríki til sveitarfélaga hófst árið 2007, samfara yfirfærslu á þjónustu við fatlaða. Hlutverk nefndarinnar er að hafa umsjón með undirbúningi yfirfærslunnar og vera vettvangur skoðanaskipta hlutaðeigandi aðila.

Einstakir verkþættir sem hópurinn fjallar um:

›  Stefna og lykiláfangar

›  Lagagrunnur

›  Mat á kostnaði

›  Greiðslur aldraðra

›  Fyrirkomulag og fjármögnun fasteigna

›  Mótun tekjutilfærslu og jöfnunaraðgerða

›  Heildstætt mat á hjúkrunarþörf og heilsufari

›  Gæði og eftirlit

›  Undirbúningur sveitarfélaga og framkvæmd tilfærslu

Eftirlit með þjónustu heimilanna, er eins og hvert annað innra eftirlit sveitarfélaganna, ekki faglegt eftirlit.  

Varðandi þjónustusvæði, þá eiga aldraðir að fara á heimili á sínu þjónustusvæði.

Hlutverk hjúkrunarfræðings í nefndinni:

›  Endurskoðun laga um málefni aldraðra, ekki sér heldur inn í almenn lög og lög um réttindi sjúklinga.

›  Greiðslur frá Sjúkratryggingum, ríkinu og sveitarfélagi. Heimaþjónusta, heimahjúkrun, sjúkrahús og hjúkrunarheimili - samþætting þjónustunnar.

›  Samspil greiðslna aldraðra og lífeyristrygginga

›  Mótun þjónustu – og gæðastaðla og árangursmats

›  Heildstætt mat á hjúkrunarþörf og heilsufari:

›  innleiðing RAI mats fyrir heimaþjónustu, tengsl RAI mats og vistunarmats,        fyrirkomulag samræmingar og eftirlits.

Talað er um sektarákvæði, dvöl aldraðra í bráðasjúkrarýmum eftir að meðferð lýkur séu greidd af sveitafélögum sjálfum. Komi þetta til getur myndast gríðarlegur kostnaðarbaggi á sveitarfélaginu.

Greinargerð um stöðu öldrunarþjónustu frá árinu 2007 gefur tilefni til að hafa áhyggjur af málefnum hjúkrunar, faglega þættinum sem og gæðum þjónustunnar.

Í lok kynningarinnar óskaði Helga eftir að fá stuðning og ábenginar um málefnið frá stjórn Fíh.  Sérstakalega kallaði hún eftir að fá punkta fyrir næsta fund vinnuhópsins með rökstuðningi og ábendingum þar sem Fíh getur komið á framfæri áhyggjum um þær ógnanir sem fólgnar eru í flutningi öldrunarþjónustu frá ríki til sveitarfélaga.

10.       Fundur um öldrunarhjúkrun 20. mars – tækifæri og ógnanir.

Elsa vakti athygli fundarmanna á fundi um öldrunarhjúkrun sem haldinn verður 20. mars næstkomandi og hvatti fólk til að mæta. Þar mun dr. Ingibjörg Hjaltadóttir kynna á stuttum fundi megin niðurstöður úr rannsókn sinni um m.a. hvaða áhrif mönnun í hjúkrun hefur á gæði.  Anna Björg Aradóttir mun kynna sjónarmið og og eftirlitshlutver Landlæknisembættisins.

11.       Önnur mál.

Engin mál voru undir liðnum önnur mál.

                                                                      

                                                                      Fundi slitið kl 14:10, næsti fundur er þriðjudaginn 27. mars

Þórunn Sævarsdóttir, ritari stjórnar Fíh.

Fundargerðir

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála