Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Umsögn um tillögu til þingsályktunar

5. mars 2012

                                               

                                    Reykjavík 5. mars 2012

Nefndasvið Alþingis

Austurstræti 8 - 10

150 Reykjavík

Efni: Umsögn um tillögu til þingsályktunar um faglega úttekt á réttargeðdeildinni að Sogni í Ölfusi.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar fyrir að fá tækifæri til að veita umsögn um ofangreinda tillögu að þingsályktun.

Fíh telur ekki þörf á því að gera faglega úttekt á rekstri og reynslu af starfrækslu réttargeðdeildarinnar að Sogni í Ölfusi með það að markmiði að koma í veg fyrir flutning hennar þar sem starfsemin hefur nú þegar verið flutt á Kleppspítala.

Sé úttektinni hins vegar ætlað að auka gæði þjónustunnar er það vel. Faglegt og fjárhagslegt mat á vegum Alþingis á flutningi réttargeðdeildarinnar gæti styrkt hugmyndafræðilegar, faglegar og fjárhagslegar stoðir starfseminnar. Nauðsynlegt er að matið sé í höndum þar til bærra aðila.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er fullyrt að reynslan af réttargeðdeildinni að Sogni hafi verið farsæl og því þurfi skýr fagleg rök að liggja að baki ákvörðuninni um flutning. Ekki er mikið til af gögnum eða úttektum um faglega starfsemi réttargeðdeildarinnar en í þeim skýrslum sem til eru og eru opinberar er bent á ýmis atriði sem talin eru óviðunandi eða betur mættu fara. Þar má nefna viðvarandi skort á fagfólki, vandamál við að þróa alhliða og virka meðferð, fjarlægð frá ættingjum og skortur á eftirmeðferðarúrræðum.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga tekur undir stuðning fagdeildar geðhjúkrunarfræðinga, frá 14. október 2011, við flutning réttargeðdeildarinnar að Sogni til Kleppspítala. Þar segir að þannig sé betur unnt að tryggja faglega þjónustu við sjúklinga og aðstandendur þeirra vegna nálægðar við sérhæfða þjónustu, sem einnig leiði til þess að auðveldara verði að tryggja öryggi sjúklinga og starfsfólks. Lögð skuli áhersla á nauðsyn þess að viðeigandi ráðstafanir verði gerðar til að þetta öryggi verði tryggt og að hagsmuna sjúklinga og starfsfólks verði gætt í hvívetna við þessa breytingu.

Auk framangreindra atriða telur Fíh eftirfarandi rök vega þungt þegar staðsetning réttargeðdeildar er metin:

  1. Bjóða þarf uppá sérstaka greiningardeild, þar sem sjúklingur er innlagður á meðan á greiningu stendur. Leiða má líkur að því að það sé mun hagkvæmara og auðveldara ef deildin væri staðsett í Reykjavík, að Kleppi.
  2. Fjölskyldumeðferð er einn þáttur meðferðar. Nálægð við fjölskyldur og vini er lykilatriði. Líklegt er að mikill meiri hluti sjúklinga eigi sitt aðal tengslanet á þéttbýlasta svæði landsins. Staðsetning í Reykjavík mun án efa gera þennan þátt meðferðar auðveldari í skipulagningu og ferðakostnaður við hann minnkaði.
  3. Endurhæfing er mikilvægur þáttur í ferlinu frá greiningu til samfélagsþátttöku og sjálfstæðrar búsetu.  Endurhæfing fer fram bæði á sjálfri geðdeildinni, en einnig úti í samfélaginu, þegar faglegt mat um að slíkt sé tímabært liggur fyrir. Meiri nálægð við borgina er hér augljós kostur – sem og samnýtingarmöguleikar við aðrar geðdeildir.
  4. Eftirmeðferð er afgerandi þáttur í horfum og enduraðlögun sjúklings. Bent hefur verið á að sjúklingar sem losaðir hafi verið úr öryggisgæslu og dæmdir til eftirmeðferðar þurfi meiri og stöðugri þjónustu en flestir aðrir. Eftirmeðferð þarf að fara fram sem næst búsetu sjúklings og í samvinnu við fjölskyldu hans. Eftirmeðferð hefur verið sinnt af Geðdeildum Landspítala að Kleppi um áratuga skeið og því auknir samnýtingarmöguleikar þar við aðrar deildir.
  5. Tengsl við dómskerfið og háskólasamfélagið ættu að verða auðveldari og kostnaðarminni, ef deildin er í Reykjavík. 
  6. Fræðsla er þáttur í meðferð á réttargeðdeild, bæði til sjúklinga og starfsfólks. Ef deildin er að Kleppi, er unnt að samnýta alla slíka fræðslu með öðrum geðdeildum og minnka kostnað, bæði beinan og vegna ferða.
  7. Til að rekstur réttargeðdeildar verði hagkvæmari þarf að vanda sérstaklega til allrar faglegrar vinnu þannig að meðferð verði  samfelld og markviss og legutími sem stystur.  Nálægð (í tíma og rúmi) við eftirmeðferð skiptir hér miklu máli. Leiða má líkur að því að auðveldara sé að fá fagfólk til starfa, verði deildin starfrækt í Reykjavík.  Einnig myndi nálægð við annað starfsfólk geðheilbrigðiskerfisins, ef deildin er að Kleppi, skapa aukna samnýtingarmöguleika.

Í ljósi framangreinds ítrekar Fíh þá afstöðu að ekki sé þörf á úttekt á rekstri réttargeðdeildar nema því aðeins að markmiðið með slíkri úttekt sé að auka gæði þjónustunnar.

Með kveðju.

F.h. Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

Aðalbjörg J. Finnbogadóttir, RN, MSc

Sviðstjóri fagsviðs

Félag íslenskra hjúkrunarfæðinga

Umsögnin er m.a. byggð á áliti Guðnýjar Önnu Arnþórsdóttur, RN, BSc, MSc og Sylvíu Ingibergsdóttur sérfræðings í geðhjúkrun.

Heilsugæsla

Heimahjúkrun

Öryggi og gæði

Umsagnir

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála