Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Umsögn um tillögu til þingsályktunar

12. apríl 2012

Reykjavík 12. apríl 2012

Nefndasvið Alþingis

Austurstræti 8 - 10

150 Reykjavík

Efni:     Umsögn um tillögu til þingsályktunar um tímasetta áætlun um yfirfærslu heilsugæslunnar frá ríki til sveitarfélaga, 220. mál.

Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar fyrir að fá tækifæri til að veita umsögn um ofangreinda tillögu til þingsályktunar. Lagt er til að „fela velferðarráðherra í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga að setja fram markvissa, heilstæða og tímasetta áætlun um yfirfærslu heilsugæslunnar frá ríki til sveitarfélaga“. Stjórn Fíh telur mikilvægt fyrsta skref í slíkri vinnu að lagt verði mat á líkleg áhrif flutningsins á gæði þjónustunnar. Leiði slík athugun í ljós að auka megi gæði þjónustunnar með slíkri yfirfærslu, þá sé ástæða til að hefja formlegan undirbúning, þ.e. með því að setja fram heilstæða og tímasetta áætlun um yfirfærsluna. Stjórn Fíh telur því ekki raunhæft að slík áætlun geti legið fyrir í árslok 2012.

Stjórn Fíh minnir á tengsl heilsugæslunnar og heimahjúkrunar. Því telur stjórnin mikilvægt að náin samvinna verði milli þeirrar nefndar sem nú skoðar tilfærslu á þjónustu við aldraða frá ríki til sveitarfélaga og þeirra aðila sem falið verður að skoða fýsileika þess að færa heilsugæsluna einnig til sveitarfélaganna.

Stjórn Fíh tekur undir með flutningsmönnum tillögunnar að ef til slíkrar yfirfærslu kemur sé mikilvægt að skilgreina nánar en nú er gert, „hvaða þjónustu skuli almennt veita á heilsugæslustöðvum og þá hvort tiltekna sérhæfða heilbrigðisþjónustu skuli veita á einstökum heilsugæslustöðvum“. Í greinargerð með tillögunni er talað um samþættingu nærþjónustu við íbúa. Stjórn Fíh bendir á að í umræðu um heilsugæslu og aðra heilbrigðisþjónustu er oft talað um nærþjónustu og/eða grunnþjónustu, án þess að skilgreint sé hvað átt er við. Nauðsynlegt er að skýrt sé hvað átt er við með hugtökum sem þessum.

Virðingarfyllst,

F.h. stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga,

________________________________________

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður

Heilbrigðiskerfið

Heilsugæsla

Heimahjúkrun

Umsagnir

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála