Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Umsögn um tillögu til þingsályktunar

24. apríl 2012


 

Reykjavík 24. apríl  2012

Nefndasviðs Alþingis

Austurstræti 8-10

150 Reykjavík

Efni: Umsögn um tillögu til þingsályktunar um ætlað samþykki við líffæragjafir

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar boð um umsögn um tillögu til þingsályktunar um ætlað samþykki við líffæragjafir.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga lýsir yfir stuðningi við þingsályktunartillöguna þar sem hún er byggð á vandaðri umfjöllun um málið og vaxandi þörf fyrir líffæri til ígræðslu.

Íslendingar hafa verið í samstarfi við sjúkrahús í Svíþjóð og Danmörku varðandi líffæragjafir og ígræðslur. Fíh tekur því undir með flutningsmönnum að rétt sé að fara sömu leið og farin er í nágrannalöndum okkar. Þar er gert ráð fyrir ætluðu samþykki einstaklinga fyrir líffæragjöf en neiti aðstandendur líffæragjöf við lát einstaklings beri að fara að óskum þeirra.

Fíh ítrekar að vanda þarf til verka við innleiðingu breytinganna ef af verður. Fræðsla til almennings þarf að vera markviss og má benda á að hægt er að hefja umræðuna strax í grunnskóla samfara t.d. lífsleiknikennslu. Mikilvægt er að þeim sem ekki vilja gefa líffæri verði gerð sú ákvörðun og tilkynning þar um auðveld og að tryggt verði að upplýsingar þar að lútandi verði aðgengilegar. Andstaða einstaklinga  við líffæragjöf til ígræðslu getur verið af ýmsum toga sem ber að virða og aldrei víkja frá.

Þá vill Fíh leggja sérstaka áherslu á mikilvægi þess að efla þjálfun heilbrigðisstarfsfólks sem leitar samþykkis til líffæragjafar frá aðstandendum.

Með kveðju.

F.h. Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

Aðalbjörg J. Finnbogadóttir, RN, MSc

Sviðstjóri fagsviðs

Félag íslenskra hjúkrunarfæðinga

 

Heilbrigðiskerfið

Umsagnir

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála