Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

10. fundur stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga starfstímabilið 2011 – 2012

24. apríl 2012

                           

þriðjudaginn 24. apríl 2012 kl. 11:00

Mættir

Elsa B. Friðfinnsdóttir, Kristín Thorberg, Áslaug Birna Ólafsdóttir, Margrét Blöndal, Aðalheiður D. Matthíasdóttir, Fjóla Ingimundardóttir, Björk Elva Jónasdóttir, Sigríður Kristinsdóttir, Herdís Gunnarsdóttir, Hildur Einarsdóttir,  Gunnar Helgason, Guðbjörg Pálsdóttir, Ragnheiður Gunnarsdóttir, Ingibjörg Halla Þórisdóttir og  Þórunn Sævarsdóttir.

Boðuð forföll

Stella S. Hrafnkelsdóttir og Svanhildur Jónsdóttir.

Til afgreiðslu

1.   Fundargerð síðasta fundar.

Samþykkt eftir umræðu um orðalag og með framkomnum athugasemdum.

2.   Staðfesting starfslýsinga. 

Rætt var um misræmi í orðalagi starfslýsinga starfsmanna Fíh.  Elsa tekur að sér að skoða starfslýsingar og samræma orðalag, þær verða afgreiddar á verkefnavef stjórnar.

3.   Lagabreytingar - samþykki stjórnar.

Samþykkt var breyting á 27 grein og ákveðið að taka út „ í sérstakri útgáfuhandbók“.

27 grein er nú;

Stjórn félagsins setur reglur um útgáfumál í sérstakri útgáfuhandbók

en verður eftir breytingar;

Stjórn félagsins setur reglur um útgáfumál.

Aðrar breytingar voru ekki samþykktar.

4.   Rekstraráætlun styrktar- og sjúkrasjóða, breyttar úthlutunarreglur.

Miklar umræður voru um halla á rekstri Styrktar- og sjúkrasjóða og hvaða aðferðir væru bestar í því skyndi að draga úr halla sjóðsins. Í því sambandi var einnig rætt um  tilgang og hlutverk sjóðanna sem og framtíðar skipulag þeirra. Stjórn Styrktar- og sjúkrasjóða hefur lagt fyrir stjórn Fíh þær tillögur sem stjórnin telur bestar og samræmast best tilgangi og hlutverki sjóðanna.

Tillaga frá stjórn Styrktar- og sjúkrasjóða var borin upp til atkvæðis, 2 voru samþykkir, 11 á móti og 3 sitja hjá. Tillagan skoðast því felld.

Fyrir fundinum lágu einnig tillögur unnar af starfsmönnum Fíh og hlotið hefur nafnið leið 3.

Elsa bar undir fundinn hvort menn séu tilbúnir að leggja til við stjórn Styrktar- og sjúkrasjóða að leið 3 skoðist sem nýjar úthlutunarreglur.

Aðalheiður leggur til að stjórn Fíh kalli eftir upplýsingum um það í hverju aukning á úthlutunum á þessu ári liggi, þannig að nýjar úthlutunarreglur taki mið af úthlutunum sjóðanna. Þetta var borið undir atkvæði og samþykkt.

Ákvörðun er því frestað fram að næsta fundi. Óskað er eftir upplýsingar um úthlutanir fyrstu 3 mánuði ársins, og nýjar tillögur gerðar með þær niðurstöður í huga.

5.   Starfsreglur orlofssjóðs.

Fyrir fundinum lágu drög að endurskoðuðum starfsreglum orlofssjóðs. Umræða var um ávinnslu punkta og nýtingu þeirra, m.a. réttindi lífeyrisþega, félagsmanna sem eru í atvinnuleit og í fæðingarorlofi og ýmislegt fleira tengt starfsemi orlofssjóðs.  Afgreiðslu frestað fram að næsta fundi.

Til umræðu

6.   Starfsreglur stjórnar.

Hildur Einarsdóttir, Sigríður Kristinsdóttir og Stella S. Hrafnkelsdóttir hafa lagt fram tillögu að breytingum á starfsreglum stjórnar annars vegar og að gerðar verði starfsreglur framkvæmdaráðs hins vegar. Tillögurnar voru ræddar lauslega en þær eru aðgengilegar stjórnarmönnum á verkefnavef stjórnarinnar. Mikilvægt er að breytingar þessar verði ákveðnar fyrir formannsskipti þannig að nýr formaður viti að hverju hann gengur. Verkefni stjórnar varðandi ímynd og skipulag félagsins kemur væntanlega inn á þetta og var ákveðið að bíða eftir þeim hugmyndum og samþætta vinnu stjórnar og hópanna og stefna að því að klára þetta fyrir haustið.

7.   Starfsemisskýrsla – starfsemisáætlun.

Rætt um form skýrslunnar, lengd hennar og tilgang. Tillögur voru um að það mætti stytta hana og vísa í nánari upplýsingar á vef félagsins. Samt þannig að hún væri vel aðgengileg þeim sem áhuga hafa á frekari upplýsingum. Mikilvægt er að skýrt komi fram hvort settum markmiðum hafi verið náð og hver staðan á þeim er, að skýrslan innihaldi upplýsingar um stöðu verkefna en fjalli ekki ítarlega um hvert verkefni fyrir sig. Að lokum að í skýrslunni komi fram hver eru verkefni næsta árs.

8.   Fulltrúi Fíh í stjórn LSR.

Vilji fundarins er að í tengslum við umræðuna um hugsanlega sameiningu LH og B - deildar LSR verði gerð krafa um fulltrúa Fíh í stjórn LSR.

Til kynningar

9.   Tillaga um stofnun siðaráðs og siða- og sáttanefndar.

Á aðalfundi sem haldinn verður 24 maí verða lagðar fram tillögur um  stofnun Siðaráðs Fíh og um stofnun siða- og sáttanefndar Fíh.

10.       Kynnt stjórn. Fundur í stjórn SSN 11. apríl 2012.

Formaður og alþjóðafulltrúi Fíh sótti fund í stjórn SSN  í Kaupmannahöfn 11. apríl..

11.       Önnur mál.

Mörg mál liggja fyrir næsta fundi sem er síðasti fundur stjórnar fyrir aðalfund. Næsti fundur ákveðinn mánudaginn 7. maí kl. 12:00.

                                                                      

                                                                                                 Fundi slitið kl. 13:50

Þórunn Sævarsdóttir, ritari stjórnar Fíh.

Fundargerðir

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála