Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Umsögn um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra

1. desember2014
Reykjavík 1. desember 2014

Velferðarnefnd Alþingis.


Efni: Umsögn um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra, 52. mál.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar fyrir að fá að veita umsögn um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaráætlun um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra.

Að umsögninni komu fagdeild geðhjúkrunarfræðinga og geðhjúkrunarfræðingar á göngudeild Barna- og unglingageðdeildar Landspítala (BUGL).

Geðhjúkrunarfræðingar á BUGL fagna tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra. Ljóst er að geðrænn vandi fer vaxandi hjá börnum og unglingum á Íslandi og aðgengi að meðferð er mjög takmarkað. Mikil aukning hefur orðið í bráðaþjónustu BUGL sl. ár en stærstur hluti sjúklinga í bráðateymi er með sjálfsvígshugsanir og/eða alvarlegt þunglyndi. Áberandi er að stór hluti þessa sjúklingahóps virðist hafa fengið mjög takmarkaða þjónustu í nærumhverfi og stundum enga. Að sama skapi er erfitt að útskrifa þennan hóp þar sem nauðsynleg úrræði í nærumhverfi eru sjaldan eða ekki til staðar.

Geðhjúkrunarfræðingar á BUGL telja að flest þau atriði sem tíunduð eru í aðgerðaáætluninni séu jákvæð og málaflokknum til framdráttar. Nauðsynlegt er að efla forvarnir og skima fyrir áhættuþáttum og/eða einkennum. Í framhaldi af slíkum skimunum verður að tryggja að nauðsynleg úrræði séu til staðar í heimabyggð t.d. í formi fjölskylduráðgjafar, námskeiða eða annarrar meðferðar.
Nauðsynlegt er að skýra verkaskiptingu stofnana/deilda og fjölga samráðsteymum. Benda má á að slík samráðsteymi eru til nú þegar í sumum sveitarfélögum og telja má að almenn ánægja ríki með slíkt samráð.

Hvað varðar tegundir meðferða sem stungið er upp á í aðgerðaáætluninni má benda á að í raun er engin gagnreynd meðferð til fyrir börn með geðrænan vanda, nema ljóst er að PMT foreldrafærni og MST meðferð eru þær meðferðir sem helst teljast gagnreyndar hjá börnum og unglingum. Hugræn atferlismeðferð (HAM) gefur vísbendingar um góðan árangur en hentar alls ekki öllum. Þó er rétt að halda því til haga að HAM og/eða fjölskyldumeðferð er ráðlögð sem fyrsta meðferð við kvíða og þunglyndi barna og unglinga í NICE leiðbeiningum (www.nice.org )

Af áralangri reynslu af starfi á BUGL telja geðhjúkrunarfræðingar að sú meðferð sem skili bestum árangri fyrir börn og unglinga sé þverfagleg meðferð þar sem margar fagstéttir koma að vinnslu máls. Þar getur verið um að ræða HAM, dialektíska atferlismeðferð (DAM), fjölskyldumeðferð, EMDR (meðferð við áfallastreitu), áfallamiðaða hugræna atferlismeðferð, list- og leikmeðferð, slökun og svo mætti lengi telja.

Börn og unglingar eru alltaf hluti af fjölskyldu og nauðsynlegt er að öll meðferð taki mið af því. Fullorðnir einstaklingar nýta sér í flestum tilfellum einstaklingsmeðferð en börn og unglingar gera það ekki í sama mæli nema fjölskylda þeirra sé hluti af meðferðinni.
Þá má telja varhugavert að niðurgreiða einungis eina tegund meðferðar. Stór hluti þeirra barna og unglinga sem eiga við geðrænan vanda að stríða er einnig með þroskaraskanir sem gerir þeim erfiðara fyrir að nýta hugræna nálgun. Mikilvægt er að hægt sé að velja meðferðarúrræði við hæfi sem byggja ekki eingöngu á hugrænni nálgun en þetta á einnig við um yngri börn. Mælum við með að stofnuð verði þverfagleg meðferðarteymi á heilsugæslustöðvum þar sem börn, unglingar og fjölskyldur þeirra geta leitað og fengið meðferð við hæfi. Æskilegt væri að slík teymi væru þá í mikilli samvinnu við ofangreind samráðsteymi.

Teljum við að auk lækna og sálfræðinga sem sinna meðferð í nærumhverfi sé nauðsynlegt að hafa fleiri fagaðila sem geta sinnt fjölskyldumeðferð, hópmeðferð og einstaklingsmeðferð s.s. geðhjúkrunarfræðinga, iðjuþjálfa, félagsráðgjafa, list- og leikmeðferðarfræðinga og þroskaþjálfa. Í því samhengi má benda á að á göngudeild BUGL starfa nú margar fagstéttir með sérhæfða þekkingu en hafa þverfaglega nálgun að leiðarljósi. Teljum við að slík leið sé farsælust til að ráða við þann flókna vanda sem þessar fjölskyldur standa frammi fyrir.Virðingarfyllst,

Ólafur G. Skúlason formaður
Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

Forvarnir

Heilsuvernd

Umsagnir

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála